mánudagur, september 24, 2012

25. september 2012 - Siv Friðleifsdóttir



Ég verð seint talin mikill aðdáandi Framsóknarflokksins. Nokkrir núverandi og fyrrverandi þingmenn flokksins eru þó fullrar virðingar verðir sakir málefnalegrar afstöðu sinnar til manna og málefna. Vil ég þar sérstaklega nefna menn á borð við Vilhjálm Hjálmarsson fyrrum menntamálaráðherra og  Steingrím Hermannsson fyrrum forsætisráðherra.

Einhverju sinni minnist ég þess er stjórn Skólafélags Vélskólans var að herja á menntamálaráðuneytið vegna þess sem við töldum vonda stjórn á Vélskólanum sem við töldum vera í fjársvelti. Við fengum viðtal við Vilhjálm ráðherra og gerðum honum grein fyrir áhyggjum okkar vegna hins fjárvana skóla þar sem við fengum verklega kennslu í sjóvinnu með því að ausa skólann á morgnanna á rigningardögum og þar sem kennararnir urðu að smíða kennslutækin sjálfir og við keyrðum gamlar vélar sem höfðu verið gefnar skólanum úr bátum sem höfðu farið í brotajárn. Þegar við höfðum lokið máli okkar og Vilhjálmur hafði lofað að gera sitt besta í málinu, bætti hann við: „Má ekki bjóða ykkur í mat? Bestu kjötbollur sem fyrirfinnast eru á matseðlinum í Arnarhvoli.“
Vilhjálmur reyndist hafa rétt fyrir sér hvað kjötbollurnar varðaði og eftir kjarngóða máltíð fórum við södd og ánægð af hans fundi. Um efndirnar á loforðunum fór færri sögum en það er önnur saga.

Fleiri Framsóknarmenn get ég nefnt en sem voru ekki á Alþingi, menn eins og Jón Sigurðsson formann
Framsóknarflokksins um tíma, Einar Skúlason fyrrum framkvæmdastjóra Alþjóðahúss, Sigurgeir Kristjánsson umboðsmann Essó í Vestmannaeyjum og stjórnarformann Sparisjóðs Vestmannaeyja sem lést fyrir tæpum tveimur áratugum og ekki má gleyma Alfreð Þorsteinssyni fyrrum stjórnarformanni Orkuveitunnar sem tryggði mér starf hjá Hitaveitu Reykjavíkur á sínum tíma þrátt fyrir andstöðu sumra innan stjórnar veitustofnanna.

Þegar ég horfi á núverandi þingflokk Framsóknarflokksins fæ ég á tilfinninguna að tveir þingmenn flokksins beri af sökum þess að þeir eru gjörsamlega lausir við hanaslaginn sem einkennir hluta þingflokksins. Fólk getur velt því hver annar þingmaðurinn er, en hinn heitir Siv Friðleifsdóttir.

Ég bjó í Svíþjóð er Siv var fyrst kjörin á Alþingi. Ég sá því lítið af henni fyrr en ég flutti til Íslands 1996, en fyrstu árin bjó ég í sömu blokk í Krummahólum og þáverandi tengdafaðir hennar, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, hinn ágætasti maður og skemmtilega fordómalaus. Ég rakst örsjaldan á Siv er hún var á ferð um Breiðholtið, en fékk samt álit á henni þótt engin væru kynnin önnur en mæting á göngum blokkarinnar eða við vorum samferða í lyftunni. Ég fylgdist lauslega með Siv á Alþingi, var opinberlega andstæðingur hennar enda var ég enn á meginlínu Alþýðubandalagsins í stjórnmálum til aldamóta, þó að afstöðu til Evrópusambandsins undanskilinni.

Af málflutningi Sivjar fékk ég á tilfinninguna að við værum meiri samherjar en andstæðingar í pólitík. Í gegnum árin hefi ég fengið fleiri staðfestingar í þá veru. Hún studdi þingsályktunartillöguna um aðildarviðræður að Evrópusambandinu (sem er ekki það sama og bein aðild að Evrópusambandinu) og í fleiri málum var hún á skjön við flokkssystkini sín, sérstaklega á síðustu árum þegar stjórn Framsóknarflokksins gerðist hatrömm í garð núverandi ríkisstjórnar.

Mér finnst miður að heyra að Siv Friðleifsdóttir hafi ákveðið að yfirgefa stjórnmálin. Hún er ein þeirra sem halda Framsóknarflokknum við lýði og sömuleiðis virðingu fólks fyrir Alþingi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli