miðvikudagur, september 26, 2012

26. september 2012 - TGEU

Haustið 2005 tók ég þátt í stofnun Evrópsku transgendersamtakanna, TGEU, í ráðhúsinu í Vínarborg í Austurríki. Þetta voru áhrifaríkir dagar þar sem baráttujaxlar transfólks frá mörgum ríkjum Evrópu komu saman og vildu láta gott af sér leiða fyrir transfólk í framtíðinni. Í lok ráðstefnunnar sem markaði upphaf TGEU var kosin stjórn sem átti að byggja upp samtökin og lenti ég í stjórninni án þess raunverulega að vita hvað ég var að gefa mig út í.


Fimm mánuðum síðar héldum við fyrsta stjórnarfundinn í Genf í tengslum við 23 alþjóðaþing ILGA, alþjóðasamtaka hinsegin fólks. Við notuðum tækifærið og kynntum okkur fyrir öðru baráttufólki um leið og við héldum okkar eigin lokuðu stjórnarfundi og þinguðum um hvernig bæri að byggja upp samtökin. Aftur hittumst við þremur mánuðum síðar í Manchester þar sem við kusum okkur formann, gjaldkera og ritara og gerðum uppkast að lögum samtakanna.  Það fór að koma mynd á samtökin og áttum við ítrekuð tölvupóstsamskipti áður en við hittumst enn og aftur í Torino um haustið 2006 ári eftir stofnun TGEU. Við héldum áfram, funduðum í Amsterdam, Torino, Berlin og ávallt fyrir eigin reikning því engir voru fjármunir TGEU ef frá voru talin minniháttar félagsgjöld sem vart dugðu fyrir bankakostnaði, hvað þá meira. Þetta fór að segja til sín í buddunni því þótt ég hefði fengið einhverja styrki til fundarhalda frá Samtökunum 78 og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur var ljóst að ég gæti ekki haldið áfram án þess að setja sjálfa mig á hausinn.

Vorið 2008 fyrir 2. þing TGEU í Berlin sagði ég mig úr stjórn TGEU vegna blankheita en samþykkti þó að verða skoðunarmaður reikninga fyrir samtökin. Um leið varð ég þess áskynja hve baráttan var farin að hljóta viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Við fengum styrk, nægan til að halda áfram starfinu og fljótlega eftir 2. þingið fengum við annan styrk til rannsókna á alþjóðavettvangi og svo hinn þriðja og ég sem var nýbúin að segja mig úr stjórninni.

Þegar 3. þing TGEU var haldið í Malmö haustið 2010 vorum við með tvo aðila á launum við rannsóknarverkefni á fordómum og hatursglæpum gagnvart transfólki um heim allan. Það var hreint ótrúlegt að sjá hve litla barnið TGEU hafði vaxið og við vorum orðin afl í baráttunni sem tekið var tillit til um allan heim.

4. þing TGEU var svo haldið í Dublin í september 2012. Ég notaði tækifærið og sagði af mér trúnaðarstörfum fyrir stjórnina, önnur tveggja sem eftir vorum frá upphaflegu stjórninni og við gátum horft með ánægju á farinn veg. TGEU var með fimm starfsmenn á launum og veltu upp á rúmlega 50 milljónir íslenskra króna á ári og við sáum einungis fram á enn frekari aukna starfsemi á næstu árum. Að auki höfðum við, hvert í sínu horni lagt okkar af mörkum til að tryggja bætta aðstöðu fyrir transfólk í heimahögum, en nú var kominn tími til að vinna í smærri einingum. Við stofnuðum tengslanet fyrir einstöku hluta Evrópu sem höfðu lent utan við þróunina, eitt tengslanet fyrir Austur-Evrópu, annað fyrir Norðurlöndin.

Já ég sagði Norðurlöndin. Norðurlöndin eru þrátt fyrir jákvæða þróun, sérstaklega  á Íslandi, en einnig  Finnlandi, langt á eftir mörgum öðrum Evrópuþjóðum í réttindum transfólks. Þar horfum við sérstaklega til Danmerkur en að einhverju leyti til Noregs og Svíþjóðar sem hafa verið að dragast aftur úr öðrum ríkjum vegna úreldra lagasetninga frá fyrri tíð sem ekki hefur fengist lagfærð.

Ég þarf vart að taka fram að þar sem ég var einasti fulltrúi Íslands á 4. þinginu í Dublin var ég sjálfkrafa kosin í stjórn Norræna tengslanetsins.

Er ekki kominn tími til að reka mig út úr þessu félagsmálavafstri?


0 ummæli:Skrifa ummæli