sunnudagur, desember 19, 2010

19. desember 2010 - Vistarbönd?

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um vistarbönd fyrri alda, vistarbönd þar sem fólk var haft í ánauð fyrri alda yfirvalda og var í reynd eign yfirvalda á hverjum stað, presta og stórbænda. Það stefnir í ný vistarbönd og ég hefi áhyggjur af þeim.

Á undanförnum árum hefur íslenska þjóðin lagt fram fé til samgöngubóta. Gerð hafa verið Hnífsdalsgöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng, öll á kostnað skattgreiðenda, aðallega bíleigenda og er það vel. Það má vissulega halda áfram og bæta samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum sem og á milli Austfjarða með göngum. Ein göng hafa þó verið undanskilin, Hvalfjarðargöngin í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, en þar þarf fólk að greiða allt að þúsund krónum fyrir hverja ferð um göngin. Ég hefi látið það óátalið að greiða þetta gjald um tíma enda stórhrifin af þessari framkvæmd á sínum tíma og er enn, fer miklu oftar um Vesturland vegna tilkomu ganganna en annars væri, hefi verið áskrifandi að göngunum um nokkurra ára skeið og sé ekki eftir aurunum sem fara í þetta. Viðhald Hvalfjarðarganga kostar líka sitt og ég á erfitt með að sjá að hægt verði að fella niður gjaldið að fullu vegna þessa þótt hægt verði að lækka gjaldið verulega í framtíðinni.

Nú stendur til að bæta samgöngurnar á milli Reykjavíkur og Selfoss sem og frá Reykjavík að Hvalfjarðargöngum. Þá á allt í einu að leggja á sérstakt gjald á þá sem aka um þessa vegi. Það hefur komið fram í fréttum að slíkt gjald á milli Reykjavíkur og Hvalfjarðarganga væri ólöglegt en samt á að koma á dýru kerfi til að rukka þá sem fara um Hellisheiðina. Sjálf er ég algjörlega á móti slíku gjaldi.

Í umræðum um slíkt veggjald hefur verið bent á ýmis lönd sem taka slíkt veggjald, þar á meðal Svíþjóð. Í fyrra ferðaðist ég víða um Svíþjóð, samtals 2300 km án þess að greiða eina einustu krónu í veggjald. Mér er vissulega kunnugt um að greiða þarf veggjald fyrir að koma inn í miðborg Stokkhólms með einkabíl, en það segir ekki alla söguna. Þegar ég nálgast Stokkhólm legg ég bílnum, t.d. nærri brautarstöðinni í Jakobsberg og tek lestina síðasta spottann. Lestin fer á nokkurra mínútna fresti og er einungis tuttugu mínútur að Stockholm Central, en ég er um fjörtíu mínútur að aka þessa leið með bíl. Auðvitað legg ég bílnum í Jakobsberg og tek lestina, en frá Stockholm Central kemst ég allra minna ferða með neðanjarðarlestinni (tunnelbana)

Það er ekki um slíkt að ræða ef ég þarf að fara frá Selfossi til Reykjavíkur. Þar eru almenningssamgöngur ákaflega lélegar. Almenningsferðir fáar á sólarhring og geta auðveldlega stöðvast fyrirvaralaust vegna veðurs. Því gilda ekki sömu lögmál fyrir íbúa Jakobsberg og Selfoss ef þeir þurfa að fara til miðborgar höfuðstaðarins auk þess sem íbúar Selfoss eiga ákaflega fá erindi í miðborg Reykjavíkur. Þá ber þess að geta að Kringlan og Smáralind eru utan kvosarinnar.

Hið háa gjald sem rætt er um að þurfi að greiða fyrir að aka út fyrir höfuðborgina er því sem gömlu vistarböndin, glæpur gagnvart alþýðunni, misrétti þegnanna og vinnur auk þess gegn dreifðri byggð kragabæjanna umhverfis höfuðborgina, Selfoss, Hveragerðis, Akraness og Borgarness. Nóg er samt að þurfa að greiða í Hvalfjarðargöngin.

Við greiðum þegar of hátt gjald fyrir að eiga og reka bíla. Þessi aukaskattur á íbúa höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélaga verður því sem banabiti fyrir þá íbúa sem þurfa að sækja vinnu á milli sveitarfélaga á sama tíma og þeir þurfa að greiða fyrir að íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fái að ferðast ókeypis um rándýr Héðinsfjarðargöng sem og íbúar Bolungarvíkur til Ísafjarðar.

Þessi mismunun brýtur gegn jafnaðarmennskunni og ég mun aldrei samþykkja hana né að styðja þá alþingismenn sem styðja þessa mismunun. Ég skal samþykkja hækkun á bifreiðagjaldi, á bensíngjaldi, á hverju sem er sem miðast við réttláta dreifingu gjaldanna. Ég er sömuleiðis tilbúin að hægja svo mjög á öllum samgöngubótum að ekki þurfi að búa til sérstök tollahlið , en ég mun aldrei samþykkja vistabönd af þessu tagi. Fremur mun ég segja skilið við Samfylkinguna ef hún styður þessi vistarbönd!

Þetta er grundvallaratriði!

föstudagur, desember 10, 2010

10. desember 2010 - Fuglar og ruslapokar

Um daginn heyrði ég í útvarpinu af fólki á suðurlandi sem kvartaði mjög yfir ásókn refa í heimasorpið. Ég fór beint í nostalgíugírinn og rifjaði upp gamlar minningar.

Það var sumarið 1994 að grein birtist í Hässelbytidningen, vikulegu bæjarblaði íbúanna í Hässelby þar sem kvartað var yfir sóðaskap á baðströnd íbúanna sem kölluð var Hässelby strandbad og var rétt hjá vinnustað mínum, Hässelbyverket. Það þyrfti svo sannarlega að ná í þessa þrjóta sem stunduðu það að tæma rusladallana umhverfis baðströndina á nóttunni og dreifa ruslinu um alla baðströndina baðvörðum og eftirlitsmönnum til ama á hverjum morgni er þeir þurftu að hefja dagsverkið á þrifum á baðströndinni.

Ég hló því ég þekkti sóðana. Ég átti reiðhjól sem ég notaði til og frá vinnu flesta daga og þegar ég þurfti að hjóla í vinnuna á morgunvaktina hjólaði ég gjarnan meðfram þessari sömu baðströnd á leið minni. Fyrir bragðið hafði ég iðulega séð til sóðanna og sökudólganna. Þetta voru fuglar, þeir hinir sömu sem á sænsku kallast skata, álíka stórir og krákur og aðeins minni en hrafnar. Í friðsæld næturinnar stunduðu þeir að tína ruslið upp úr rusladöllunum í leit að einhverju sem lyktaði betur og hirtu ekki um að tína upp eftir sig áður en íbúarnir vöknuðu og héldu á baðströndina.

mánudagur, desember 06, 2010

6. desember 2010 - Tækjadella

Það hefur löngum þótt eðalmerki sérhvers karlmanns að hafa gaman af græjum, helst einhverju með mörgum tökkum og blikkandi ljósum og flóknum aðgerðum án þess að notast sé við leiðarvísi, eða eins og einn vinnufélaginn orðaði hlutina einhverju sinni er einhver annar spurði hann um leiðarvísi:

“Þú þarft engan leiðarvísi. Karlmenn þurfa ekki leiðarvísi.”

Kannski er skreytingaþörfin fyrir jólin sem lítill angi af þessari tækjadellu. Karlarnir geta dundað sér tímunum saman við að greiða úr flækjunum á seríunum og leitað uppi bilaðar perur og bætt við seríum uns þeir verða sjálfir eins og enn einn upplýstur jólasveinninn.

Myndavélar eru enn einn anginn af þessari skemmtilegu tækjaþörf. Þegar konur eignast góða myndavél vilja þær fara á námskeið og læra að fá eins mikið út úr tækinu og hægt er. Þetta er aukaatriði fyrir karla. Þá verður stærð ljósops og hraði myndarinnar að meginmáli, en gæði niðurstöðunnar, þ.e. gæði myndanna, að aukaatriði. Ég rifja upp myndavéladellu sem gekk um borð í togara fyrir nokkrum áratugum og menn kepptust við að eignast sem flottustu myndavélarnar. Einn keypti sér ágæta myndavél af gerðinni Yashica með ýmsum sjálfvirkum stillingum sem í dag þykja sjálfsagðar í öllum myndavélum en voru nánast óþekktar á filmuvélum þess tíma. Þetta þótti ekki nógu fínt meðal karlpeningsins um borð hjá okkur og var miskunnarlaust hæðst að kappanum með Yashica myndavélina. Ekki bætti úr er fréttist að einn af framkvæmdastjórum Yashica framdi harakiri og um borð í íslenskum togara var myndavél skipsfélagans miskunnarlaust kennt um hrakfarir framkvæmdastjórans.

Tveir vinnufélagar mínir, skiptir ekki máli hvar né hvenær, voru báðir miklir áhugamenn um hljómtæki og voru duglegir að metast um hvor ætti betri græjur. Annar eignaðist hljómtæki af lítt þekktu merki fyrir hóflegt verð og þóttist heldur betur hafa gert góð kaup, hinn mátti ekki vera minni maður og keypti sér einnig hljómtæki, en af heimsþekktu gæðamerki sem kostaði offjár og fór að metast við hinn um gæðin. Fyrir venjulegt fólk heyrðist enginn munur og því var aðeins eitt að gera og það var gripið til skrúfjárnanna og tækin skoðuð að innan. Dýra tækið leit út að innan eins og fjöldi annarra tækja svipaðrar gerðar, en það ódýra reyndist hinsvegar svo pakkfullt af allskyns innyflum að ekki hefði verið hægt að bæta við skrúfu til viðbótar. Vonbrigðin urðu svo mikil fyrir kaupanda dýra tækisins að hann steinhætti að metast framar um gæði tækjanna sinna.

Ætli ástandið sé ekki svipað hjá tölvunördum nútímans?

sunnudagur, desember 05, 2010

5. desember 2010 - Líkur sækir líkan heim

Það voru stjórnlagaþingskosningar á íslandi um daginn. Ég held ég þurfi varla að lepja úrslitin upp aftur eftir að þau voru gerð heyrinkunn, en langar samt til að segja það að ég lenti í 43. sæti af um 522 frambjóðendum sem er harla góður árangur, ekki síst í ljósi þess að ég var sein til framboðs og eyddi engu í kosningabaráttuna, engar auglýsingar eða kynningar á annan hátt en þann sem fylgir vefmiðlum DV og Svipunnar sem og almennar kynningar frambjóðenda.

Kosningarnar báru með sér að flokksmaskínurnar voru ekki með í ráðum, þó að undanskildum einum stjórnmálaflokki sem sendi út tilmæli til sinna flokksmanna kvöldið fyrir kjördag um að kjósa vissa aðila. Sjálf hafði ég kosið utankjörstaðar og gat því ómögulega farið að breyta kjörseðli mínum til að má út einn sem þar hafði verið tilnefndur af skrýmsladeildinni. Sjálf dró ég aldrei dul á að ég væri flokksbundin í Samfylkingunni og neitaði því að skrifa undir yfirlýsingu um að ég væri óflokksbundin og væri ekki hagsmunatengd þótt aldrei fengi ég minnsta stuðning úr þeim ranni. Fjöldi fólks gerði þetta þó hvar í flokki sem það stóð.

Þegar ég skoðaði síðar tölurnar sem birtust með kosningaúrslitunum nokkrum dögum síðar kom ýmislegt forvitnilegt í ljós, þá fyrst og fremst hvernig fólk hafði raðað á lista. Þegar einhver yfirlýstur Samfylkingarmaður datt út komu fá atkvæði í minn hlut, þó fleiri en atkvæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna sem voru í framboði og féllu út á undan mér. Sömu sögu var að segja um fólk sem telur sig sannkristið. Það var frekar að ég fengi atkvæði þegar fólk sem ég þekki persónulega datt út. Ef einhver gamall jaxl af sjónum datt út fékk ég atkvæði, en ekkert þegar Jón Valur datt út. Ég fékk síðan mörg atkvæði í minn hlut þegar Sigursteinn Másson og Stefán Pálsson féllu út.

Sjálf féll ég út skömmu á eftir þeim félögum. Þá brá svo við að Birna vinkona mín Þórðardóttir fékk 76 atkvæði í sinn hlut og Silja Bára Ómarsdóttir 54 atkvæði, en eins og flestir vita eru þau Stefán, Birna og Silja í öðrum flokki en ég, en með svipaðar áherslur í friðar- og mannréttindamálum. Eiríkur Bergmann Einarsson kom svo fast á eftir þeim stöllum með 45 atkvæði. Til samanburðar má þess geta að einungis eitt atkvæði féll í hlut Þorsteins Arnalds og þrjú féllu í hlut Maríu Ágústsdóttur sem svo hatrammlega barðist gegn einum hjúskaparlögum síðastliðið vor.

Þetta segir mér það að lífsskoðun fólks hafi haft meira að segja um viðmót fólks í þessum kosningum en flokkspólitíkin. Um leið er ljóst að þekkt andlit komust lengra en lítt þekkt andlit og því ljóst að fólk með lítið á milli handanna hafði ekki minnsta möguleika á að komast inn á stjórnlagaþing þótt það ætti þangað brýnt erindi.

Það þótti mér miður.