föstudagur, desember 10, 2010

10. desember 2010 - Fuglar og ruslapokar

Um daginn heyrði ég í útvarpinu af fólki á suðurlandi sem kvartaði mjög yfir ásókn refa í heimasorpið. Ég fór beint í nostalgíugírinn og rifjaði upp gamlar minningar.

Það var sumarið 1994 að grein birtist í Hässelbytidningen, vikulegu bæjarblaði íbúanna í Hässelby þar sem kvartað var yfir sóðaskap á baðströnd íbúanna sem kölluð var Hässelby strandbad og var rétt hjá vinnustað mínum, Hässelbyverket. Það þyrfti svo sannarlega að ná í þessa þrjóta sem stunduðu það að tæma rusladallana umhverfis baðströndina á nóttunni og dreifa ruslinu um alla baðströndina baðvörðum og eftirlitsmönnum til ama á hverjum morgni er þeir þurftu að hefja dagsverkið á þrifum á baðströndinni.

Ég hló því ég þekkti sóðana. Ég átti reiðhjól sem ég notaði til og frá vinnu flesta daga og þegar ég þurfti að hjóla í vinnuna á morgunvaktina hjólaði ég gjarnan meðfram þessari sömu baðströnd á leið minni. Fyrir bragðið hafði ég iðulega séð til sóðanna og sökudólganna. Þetta voru fuglar, þeir hinir sömu sem á sænsku kallast skata, álíka stórir og krákur og aðeins minni en hrafnar. Í friðsæld næturinnar stunduðu þeir að tína ruslið upp úr rusladöllunum í leit að einhverju sem lyktaði betur og hirtu ekki um að tína upp eftir sig áður en íbúarnir vöknuðu og héldu á baðströndina.


0 ummæli:







Skrifa ummæli