sunnudagur, desember 19, 2010

19. desember 2010 - Vistarbönd?

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um vistarbönd fyrri alda, vistarbönd þar sem fólk var haft í ánauð fyrri alda yfirvalda og var í reynd eign yfirvalda á hverjum stað, presta og stórbænda. Það stefnir í ný vistarbönd og ég hefi áhyggjur af þeim.

Á undanförnum árum hefur íslenska þjóðin lagt fram fé til samgöngubóta. Gerð hafa verið Hnífsdalsgöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng, öll á kostnað skattgreiðenda, aðallega bíleigenda og er það vel. Það má vissulega halda áfram og bæta samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum sem og á milli Austfjarða með göngum. Ein göng hafa þó verið undanskilin, Hvalfjarðargöngin í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, en þar þarf fólk að greiða allt að þúsund krónum fyrir hverja ferð um göngin. Ég hefi látið það óátalið að greiða þetta gjald um tíma enda stórhrifin af þessari framkvæmd á sínum tíma og er enn, fer miklu oftar um Vesturland vegna tilkomu ganganna en annars væri, hefi verið áskrifandi að göngunum um nokkurra ára skeið og sé ekki eftir aurunum sem fara í þetta. Viðhald Hvalfjarðarganga kostar líka sitt og ég á erfitt með að sjá að hægt verði að fella niður gjaldið að fullu vegna þessa þótt hægt verði að lækka gjaldið verulega í framtíðinni.

Nú stendur til að bæta samgöngurnar á milli Reykjavíkur og Selfoss sem og frá Reykjavík að Hvalfjarðargöngum. Þá á allt í einu að leggja á sérstakt gjald á þá sem aka um þessa vegi. Það hefur komið fram í fréttum að slíkt gjald á milli Reykjavíkur og Hvalfjarðarganga væri ólöglegt en samt á að koma á dýru kerfi til að rukka þá sem fara um Hellisheiðina. Sjálf er ég algjörlega á móti slíku gjaldi.

Í umræðum um slíkt veggjald hefur verið bent á ýmis lönd sem taka slíkt veggjald, þar á meðal Svíþjóð. Í fyrra ferðaðist ég víða um Svíþjóð, samtals 2300 km án þess að greiða eina einustu krónu í veggjald. Mér er vissulega kunnugt um að greiða þarf veggjald fyrir að koma inn í miðborg Stokkhólms með einkabíl, en það segir ekki alla söguna. Þegar ég nálgast Stokkhólm legg ég bílnum, t.d. nærri brautarstöðinni í Jakobsberg og tek lestina síðasta spottann. Lestin fer á nokkurra mínútna fresti og er einungis tuttugu mínútur að Stockholm Central, en ég er um fjörtíu mínútur að aka þessa leið með bíl. Auðvitað legg ég bílnum í Jakobsberg og tek lestina, en frá Stockholm Central kemst ég allra minna ferða með neðanjarðarlestinni (tunnelbana)

Það er ekki um slíkt að ræða ef ég þarf að fara frá Selfossi til Reykjavíkur. Þar eru almenningssamgöngur ákaflega lélegar. Almenningsferðir fáar á sólarhring og geta auðveldlega stöðvast fyrirvaralaust vegna veðurs. Því gilda ekki sömu lögmál fyrir íbúa Jakobsberg og Selfoss ef þeir þurfa að fara til miðborgar höfuðstaðarins auk þess sem íbúar Selfoss eiga ákaflega fá erindi í miðborg Reykjavíkur. Þá ber þess að geta að Kringlan og Smáralind eru utan kvosarinnar.

Hið háa gjald sem rætt er um að þurfi að greiða fyrir að aka út fyrir höfuðborgina er því sem gömlu vistarböndin, glæpur gagnvart alþýðunni, misrétti þegnanna og vinnur auk þess gegn dreifðri byggð kragabæjanna umhverfis höfuðborgina, Selfoss, Hveragerðis, Akraness og Borgarness. Nóg er samt að þurfa að greiða í Hvalfjarðargöngin.

Við greiðum þegar of hátt gjald fyrir að eiga og reka bíla. Þessi aukaskattur á íbúa höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélaga verður því sem banabiti fyrir þá íbúa sem þurfa að sækja vinnu á milli sveitarfélaga á sama tíma og þeir þurfa að greiða fyrir að íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fái að ferðast ókeypis um rándýr Héðinsfjarðargöng sem og íbúar Bolungarvíkur til Ísafjarðar.

Þessi mismunun brýtur gegn jafnaðarmennskunni og ég mun aldrei samþykkja hana né að styðja þá alþingismenn sem styðja þessa mismunun. Ég skal samþykkja hækkun á bifreiðagjaldi, á bensíngjaldi, á hverju sem er sem miðast við réttláta dreifingu gjaldanna. Ég er sömuleiðis tilbúin að hægja svo mjög á öllum samgöngubótum að ekki þurfi að búa til sérstök tollahlið , en ég mun aldrei samþykkja vistabönd af þessu tagi. Fremur mun ég segja skilið við Samfylkinguna ef hún styður þessi vistarbönd!

Þetta er grundvallaratriði!


0 ummæli:Skrifa ummæli