mánudagur, janúar 03, 2011

3. janúar 2011 - Að búa ein - kostir og ókostir

Mér þykir gott að búa ein. Það eru engir með þras og leiðindi á heimilinu og kettirnir éta það sem þeim er rétt og eru ánægðir með það. Ég þarf ekki að þvo af einhverjum sem getur alveg þvegið nærfötin sín sjálfur og fjarstýringuna að sjónvarpinu á ég ein og enginn reynir að taka hana af mér. Ég þarf ekki að horfa á enska boltann á laugardögum og fer að sofa þegar mér sýnist þegar ég á frí. Ef mig langar á tónleika, í bíó eða leikhús fer málið að vandast því það er talið eðlilegt að fleiri fari saman, en það hindrar mig ekkert frá því að fara ein. Þar með eru helstu kostirnar upptaldir.

Jól og áramót eru nýafstaðin. Á aðfangadagskvöld fékk ég gest í mat og var með hamborgarhrygg með öllu tillheyrandi. Á jóladag var mér boðið í mat hjá fjölskyldunni og snæddi þennan fína hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi, en á annan í jólum var þriðji í hamborgarhrygg því auðvitað hendir maður ekki afgangnum af þessum dýrindis hátíðarmat, heldur nýtir hann til fullnustu. Daginn eftir var kominn tími á vinnu með hádegismat í vinnunni, en um kvöldið borðaði ég afganginn af Waldorffssalatinu sem gesturinn á aðfangadagskvöld hafði lagað af kostgæfni. Óþarfi að henda góðum mat.

Svo komu áramót. Á gamlárskvöld var mér boðið í kalkún hjá fjölskyldumeðlimum. Svo rann upp nýtt ár og nýársdagur rann upp bjartur og fagur og ég átti til hangikjötsflís sem ég sauð og borðaði með bestu lyst ásamt kartöflum og uppstúf og grænum baunum. Það var samt afgangur og 2. janúar hélt ég áfram að narta af hangikjötinu og enn var afgangur. Á þriðja degi á nýju ári var einnig þriðji í hangikjöti og enn er lítilsháttar afgangur af hangikjötinu og ég er farin að horfa löngunaraugum á pulsupakkann í ísskápnum, en samt. Einn lítill pulsupakki dugir mér í tvo daga ef ég fæ mér kartöflur og tilheyrandi með pulsunum.

Einhverju sinni var hægt að fá fiskibollur í hálfdósum. Ein slík hálfdós dugði mér í tvo daga þegar búið að var að bæta kartöflum og karrýsósu í skálina sem hýsti fiskibollurnar. Núna fæ ég ekki lengur fiskibollur öðruvísi en í heildósum sem þýðir að ég er að mestu hætt að kaupa fiskibollur til að þurfa ekki að henda matnum.

Ég ætla samt að þráast við og stefni ekki að sambúð á árinu 2011.


0 ummæli:







Skrifa ummæli