föstudagur, desember 27, 2013

27. desember 2013 - Um jólinNú er mestu stórhátíð ársins lokið þótt vissulega eigum við eftir að kveðja árið og fagna nýju ári. Við sem vorum á vakt um jólin vorkennum okkur að sjálfsögðu í hástert og hefðum gjarnan viljað sitja að veisluborði með ættingjum og vinum. Þó er ekki yfir miklu að kvarta, vaktirnar liðu áhyggjulítið og við vorum uppfull heilagleika í tilefni af fæðingu frelsarans fyrir rúmlega tvö þúsund árum.

Sjálf læt ég oft hugann reika aftur í tímann, til áranna þegar ég var á sjó um jólin við misjafnar aðstæður og líki því ekki saman við að hanga á vaktinni á þurru landi um jólin í þægilegu gemsafæri við nánustu ættingjana. Ekki eru allir svo heppnir eins og ég þegar ég var til sjós og því birti ég orðrétt kafla úr skeyti sem mér barst tveimur dögum fyrir jólin 2013 frá æskufélaga mínum sem hefur eytt mörgum árum í að veita neyðaraðstoð til íbúa í stríðshrjáðum ríkjum Afríku:

„Nú, í þeim orðum töluðum má vel segja að Bangui sé ekki neinn draumastaður og allt byrjaði að fara fjandans til í byrjun desember þar sem stríðandi fylkingum laust saman því ansi mörgum langar að vera forseti hérna og ráða yfir hinum og eru ekki vandir af meðulunum sem þeir brúka til að fá sínu framgengt, en það er sosum  "normið" víða hérna í Afríku. Ef ekki væri fyrir afleiðingarnar, þá er þetta nærri því kómískt, því uppreisnarmenn þeir sem gerðu áhlaup á borgina voru ákkúrat þeir sem voru forseti og ríkisstjórn þangað til í mars s.l. En alltaf eru það sakleysingjarnir sem verst verða úti og er afskaplega sorglegt að horfa upp á það. Ég, eins og allir aðrir sem ekki brúka stríðsaxir, héldum okkur innanhúss í nokkra daga, sem var í lagi því nóg var að bíta og brenna, þó leiðigjarnt til lengdar.

Nú eru franskir dátar hér á hverju götuhorni sem og sambandsher Afríkuríkja og hafa komið sæmilegu skikki á málin. Það er a.m.k. kominn á "vinnufriður" svo að við húskarlar SÞ og annara hjálparstofnana getum haldið áfram að gera það sem við settum okkur með okkar tilveru hérna. Mín deild heldur úti flugrekstri um þvert og endilangt landið því vegasamgöngur eru hér nánast engar. Þó er maður ekkert að spóka sig um torg og götur nema að eiga erindi og svo höldum við okkur innandyra þegar degi tekur að halla.“

Þess má geta að vinur minn sem var alinn upp á sama barnaheimili og ég, er nú kvæntur franskri konu og búsettur í Frakklandi. Hann hefur víða farið vegna starfa sinna við matvæladreifingu og neyðaraðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna, en er þessa mánuðina staðsettur í Miðafríkulýðveldinu (Central African Republic). Eins og sönnum hjálparsveitarmönnum sæmir er hann ákaflega hógvær í orðum og gerir minna úr ástandinu en það raunverulega er.

Svo erum við að kvarta. Nær væri að þeir alþingismenn sem barist hafa hvað hatrammast gegn þróunar- og neyðaraðstoð Íslendinga til fátækra þjóða Afríku kynntu sér þessa aðstoð áður en þeir tjá sig opinberlega á neikvæðan hátt um þessa aðstoð.