fimmtudagur, maí 31, 2007

31. maí 2007 - ...og Akrafjallið geðbilað að sjá,

...söng Megas og síðar endurtók Bjöggi sönginn, en ég tók textanum bókstaflega og gekk á Akrafjallið í gær sem er náttúrulega algjör geðbilun.

Við Sigga J. héldum að Akrafjallinu skömmu fyrir hádegið og er við komum þar sem fjallgöngubiblía Ara Trausta sýndi upphafsstað göngunnar sá ég skilti merkt Rotarý og á stóð. Göngubrú yfir Berjadalsá. Brúin framundan var öllu veglegri en svo að kalla þyrfti hana göngubrú og ég ók yfir, fann góðan stað og lagði bílnum. Síðan var arkað af stað, hærra og hærra og farið eftir örmjóu einstigi.

Brátt hætti mér að lítast á blikuna og var þá tekin stefnan upp fjallið með hinum mestu erfiðismunum. Með því að taka hæfilega marga hvíldarstubba náðum við loks á toppinn þar sem kvittað var fyrir komunni í snyrtilega gestabók og síðan haldið austur eftir fjallinu. Síðan fikruðum við okkur niður með Jókubungu og niður í Berjadalinn, síðan vestur dalinn uns við komum að göngubrú vestarlega í dalnum, fórum þar yfir og fylgdum þar slóða sem þar lá niður af fjallinu. Þá komum við að sjálfsögðu aftur að skiltinu sem við sáum í upphafi og þóttumst vita að skiltið segði til um göngubrúna sem við höfðum farið yfir á leiðinni til baka.

Þessir heiðursmenn hjá Rótarý mættu alveg útskýra betur skiltin sín.

Eftir rúmlega fimm klukkustundir af svita og tárum komumst við loks aftur til byggða og buðum okkur í kaffi í Himnaríki til kaffi Gurríar. Þegar þangað var komið var Gurrí að sjálfsögðu að semja heilmikla spennusögu um svaðilfarir okkar, en varð að sjálfsögðu að stinga henni ofan í skúffu úr því við komumst heilar til baka af Akrafjalli.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/akrafjall-30-ma-2007-/

-----oOo-----

Loks fá aðstandendur Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls hennar. Megi minning hennar lifa með okkur um ókomna framtíð.

miðvikudagur, maí 30, 2007

30. maí 2007 - Ég gleymdi myndavélinni!!!

Ég ákvað að fá mér labbitúr umhverfis Elliðaárnar á þriðjudagskvöldið og hringdi í nöfnu mína og nágrannakonu og spurði hvort hún vildi ekki rölta með. Jú, endilega svaraði hún og er ég hafði sagt henni að ég kæmi við eftir kortér, svaraði hún því til að hún þyrfti að búa sig!!!

Ha, búa sig fyrir stutta gönguferð í blíðskaparveðri? Svo rölti ég yfir og mætti nágrannakonunni. Hún var komin á línuskauta og með allan öryggisbúnað í góðu lagi, olnbogahlífar, hnjáhlífar, hjálm og vettlinga. Svo tilkynnti hún mér að þetta væri hennar fyrsta línuskautaferð.

Við röltum af stað. Við vorum ekki komnar marga metra er nafna mín datt á rassinn í fyrsta sinn. Áður en við komumst að Rofabænum hafði hún dottið tvisvar. Er við fórum framhjá kirkjunni rétt náði ég að grípa hana svo hún dytti ekki í þriðja sinn. Og áfram var haldið. Hún datt ekki meir.

Þegar við höfðum farið yfir Vatnsveitubrúna og niður að stíflu mátti ég hafa mig alla við að ná henni og er ég kvaddi við húsið heima hafði hún náð allsæmilegu lagi á línuskautunum. Verst þótti mér að hafa gleymt myndavélinni heima áður en lagt var af stað.

Ég ætti kannski líka að prófa línuskauta við tækifæri?

mánudagur, maí 28, 2007

28. maí 2007 - Fyrsta fjallganga ársins

Mér leiðist Formúla. Það hefur ekki alltaf verið svo því ég var ákafur aðdáandi þýska heimsmethafans sem fæddist fjórum dögum eftir að ég fékk ökuleyfið mitt og tók þátt í gleði hans og sorgum, þó oftast gleði allt frá því hann stefndi á sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 1994 uns hann lagði stýrið á hilluna og fór á eftirlaun síðastliðið haust. Síðan þá hefi ég einungis horft á eina keppni og það var ekki keppnin í hægagangi í Mónakó.

Í stað þess að sofa yfir leiðinlegustu Formúlukeppni ársins var farið í bumbubana. Nágranni minn og nafna í næsta húsi kom ásamt syni sínum og síðan var farið í Grafarholtið þar sem Sigga Jósefs frá Hnífsdal bættist í hópinn. Þaðan var haldið sem leið lá að Litlu kafffistofunni í Svínahrauni og stefnan tekin þaðan í Jósefsdalinn sem er sennilega ekki kenndur við pabba hennar Siggu. Frá Jósefsdalnum var stefnan tekin upp á við á tveimur jafnfljótum og upp Vífilsfellið. Fljótlega kom þó í ljós að þrekið var talsvert lakara en ég hélt, auk þess sem ég er rúmum tíu kílóum þyngri en síðast þegar ég hélt þessa sömu leið.

Anna Braga og sonur hennar voru ekkert að tvínóna við hlutina og hlupu á undan, á eftir kom Sigga og síðust kom ég móð og másandi eins og fýsibelgur. Áður en lagt var frá efsta hjallanum í klettabeltið var talið öruggara að skilja níu ára strákinn eftir ásamt móður sinni. Við Sigga héldum síðan áfram síðasta spölinn á toppinn og þóttumst góðar að komast alla leið.

Á toppnum rakst ég á gamlan skólafélaga úr Gaggó. Gunnar Jónsson skrifstofustjóri kom hlaupandi upp ásamt hundinum sínum, kastaði á okkur kveðjum og ræddi aðeins við okkur og hljóp svo niður aftur. Eins gott að hann sá mig ekki þegar ég var að fara upp brattann. Ég gleymdi að taka mynd af honum. Það er þó ljóst að ég á langt í að ná honum í líkamlegu þreki, en hann er líka nærri tveimur mánuðum eldri en ég.

Niður var haldið og öll komumst við heil heim þar sem ég setti inn myndir frá ferðinni inn á netið.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/vfilsfell-27-ma-2007/

Enn veit ég ekki hver vann Formúlukeppnina í Mónakó.

laugardagur, maí 26, 2007

26. maí 2007 - Glæsilegt borgarstýrupar :)

Á föstudag bárust okkur vesælum góðar fréttir frá Englandi þegar Morgunblaðið birti þá gleðifrétt að ein úr hópnum hefði verið valin sem borgarstýra í Cambridge í Englandi.
Jenny Bailey hefur ekki einungis farið í gegnum leiðréttingarferli á kynferði sínu, heldur lifir hún að auki í samkynhneigðri sambúð með Jennifer Liddle sem einnig hefur farið í gegnum aðgerðarferli.

Í Englandi þykir ekkert mál lengur að hafa farið i aðgerð, öfugt við Ísland þar sem ekkert gengur að bæta réttindi þeirra sem þrá það eitt að komast alla leið í gegnum aðgerðarferli til að fá að lifa það sem eftir er ævinnar í réttu kynhlutverki. Við skulum vona að Jóhanna Sigurðardóttir velferðarmálaráðherra muni laga aðeins stöðu okkar og þá fyrst og fremst þeirra sem enn hafa ekki komist í gegnum nálaraugað.

Hversu langt halda lesendur mínir að sé í að kona sem hefur farið í gegnum aðgerðarferli komist í borgarstýrustól í Reykjavík sem er aðeins minni en Cambridge, svo ekki sé talað um konu með fortíð sem karl og lifir í lesbísku sambandi?

Í Reykjavík situr karl í borgarstýrustólnum! Það er að vísu ekki öll nótt úti enn, enda hefi ég það fyrir víst að borgarstýran í Reykjavík, Vilhjálmur Vilhjálmsson búi með konu rétt eins og Jenny Bailey borgarstýra í Cambridge. Sá er þó munur á að sambýliskona Jenny Bailey er kona með fortíð rétt eins og Jenny sjálf.

http://www.cambridge.gov.uk/ccm/content/news/cllr-jenny-bailey-set-to-be-
appointed-mayor.en;jsessionid=D703982F344F33559ECA951380209D4B


http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk
_news/england/cambridgeshire/6686933.stm


http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1271391

föstudagur, maí 25, 2007

25. maí 2007 - Afsakið, en ég gleymdi einu!

Ég var á fundi eftir gönguferð þriðjudagskvöldsins og ég fór á fund strax eftir göngu miðvikudagskvöldsins. Því hefi ég ekki haft tíma til að lesa vel í gegnum nýjan stjórnarsáttmála. Samt, ég er hæfilega bjartsýn. Samtök eldri borgara hafa kveðið uppúr um ágæti sáttmálans. Sömu sögu er að segja um verkalýðshreyfinguna. Á ég að ganga gegn vilja þessa ágæta fólks og mótmæla? Nei takk.

Stundum þarf að hlusta á álit þeirra sem eru á móti til að skilja hvað er gott. Ónefndir trúarhópar vaða nú uppi í bræði vegna væntanlegrar heimildar til einstöku trúfélaga til að gifta samkynhneigða. Ég fagna þessu atriði. Nokkrir vinir mínir í hópi Framsóknarmanna hafa leitað eftir áliti mínu á nýju ríkisstjórninni og beðið þess að ég færi fram með yfirlýsingar sem ganga gegn fyrri yfirlýsingum mínum um betra samfélag. Mér sýnist nýja ríkisstjórnin komast ágætlega frá þessu, þá sérstaklega Jóhanna Sigurðardóttir. Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að henni hafi verið fagnað sem týndu dótturinni úr útlegðinni er hún tók við ráðherraembættinu sínu á fimmtudag. Hún er líka vel að því komin.

Það er alveg rétt að ég vildi kveða fastar að orði í stjórnarsáttmálanum varðandi Íraksstríðið. Um leið finnst mér nýja ríkisstjórnin komast sæmilega hjá því atriði með yfirlýsingu sinni um stríðið. Valgerður Sverrisdóttir hafði vissulega tekið sama pól í hæðina, en stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar virðist hafa verið ákaflega mjúk og ljóst að hægrimenn hafa vikið af hörðustu ofbeldisstefnu með þessari yfirlýsingu.

Ég ætla ekki að gefa nýrri ríkisstjórn grænt ljós að sinni. Ég vona samt hið besta og ætlast til að hún sýni bætt siðferði og jafnaðarstefnu á fyrstu hundrað og fimmtíu dögunum. Síðan skal ég gefa út álit mitt á henni. En ég krefst eindregins stuðnings við Mannréttindaskrifstofu Íslands á fyrstu hundrað dögunum!

fimmtudagur, maí 24, 2007

24. maí 2007 - Öl í glerflöskum versus Lalli Johns!

Eftir síðustu helgi hætti Öryggismiðstöð Íslands að birta auglýsingar þar sem ólánsmaðurinn Lalli Johns var látinn segja frá innbrotum. Burtséð frá því að Lalli hefur vafalaust verið glaður að fá þessa aura sem honum voru réttir fyrir að taka þátt í þessum auglýsingum, þá fannst mér áróðurinn gegn auglýsingunni óþarfa viðkvæmni. Þá hefur birting þessara auglýsinga vafalítið kitlað hégómagirnd hans auk þess að bjarga honum um smávegis skotsilfur

Tveimur dögum eftir að tilkynnt er um að hætt verði að birta auglýsinguna, sá ég aðra auglýsingu í sjónvarpinu. Þar var verið að auglýsa Tuborg öl og unglingar sýndir dansa með glerflöskur í höndum, vafalaust fullar af Tuborg öli. Ég skal verða síðust allra að gagnrýna ölið sem slíkt hvort sem það er sagt 0,0% í auglýsingunni eða sterkara, enda þykir mér ölið gott og það hefur löngum runnið ljúflega niður um kverkarnar.

Ég er hinsvegar lítt hrifin af þeim skilaboðum sem send eru til unglinga að það sé töff að dansa með glerflöskur í höndunum. Það er hægt að missa flöskurnar, brjóta þær, skera sig og misþyrma með glerflöskum og valda varanlegum örkumlum með slíku háttalagi hvort sem það er viljandi eða óviljandi.

Má ég þá heldur biðja um auglýsinguna með Lalla Johns.

þriðjudagur, maí 22, 2007

22. maí 2007 – II - Munu þá allar leiðir liggja til Siglufjarðar?

Þegar ríkisstjórnin sem kölluð var Ólafía sat hér á árunum 1971-1974 og síðan hægri stjórnin 1974-1978 var Halldór E. Sigurðsson samgönguráðherra. Í hans tíð mátti ætla af umferðarskiltum víða um land að allar leiðir lægju til Borgarness sem og að höfuðborg Íslands væri Borgarnes. Svo rammt hvað að vegmerkingum víða um land að helstu þéttbýlisstaða var lítt getið, en allsstaðar blasti Borgarnes við á skiltunum.

Í hans tíð var Borgarfjarðarbrúin byggð og var hún mikil samgöngubót frá því sem áður var. Gállinn á brúnni var þó sá að hún var látin liggja í gegnum þorpið og er svo enn til hættu fyrir börn Borgarfjarðar og trafala fyrir þá bílstjóra sem eru að koma sér á milli staða á sem skemmstum tíma.

Nú hefur Kristján L. Möller fengið embætti samgönguráðherra. Það mun væntanlega þýða að Héðinsfjarðargöngum verður flýtt sem og Vaðlaheiðargöngum og lengingu Akureyrarflugvallar. En rétt eins og áður er viðbúið að höfuðborgarsvæðið fái að mæta afgangi þótt hér séu flestir íbúarnir og flestar umferðarteppurnar. Spurningin er samt þessi: Munu allar leiðir liggja til Siglufjarðar eftir miðja vikuna?

-----oOo-----

Ég átti leið um Reykjanesbrautina í gegnum Hafnarfjörð á þriðjudag. Þar mætti ég einum nýkjörnum alþingismanni með einkanúmerið Ísland á bílnum sínum. Að sjálfsögðu gat nýi þingmaðurinn ekki stillt sig um að traðka aðeins á umferðarreglunum sem sást vel á aksturslaginu, enda talaði hann í síma þegar ég mætti honum.

22. maí 2007 - Change Sex Or Die

Þessi fyrirsögn virðist skelfileg og er það í vissu tilliti því hún er sönn. Svona má nefnilega lýsa ástandi í kynjafræðum í Íran. Í upphafi klerkastjórnarinnar í Íran snemma á níunda áratugnum tókst Maryam Khatoon Molkara sem þá var 33 ára gamall transmaður (þ.e. transsexual frá konu til karls) að sannfæra Ayatollah Khomeni um að ekkert í Kóraninum bannaði aðgerðir til leiðréttingar á kyni.

Það er reyndar alveg rétt að slíkar aðgerðir eru hvorki bannaðar í Kóraninum né Biblíunni. Til þess að fordæma slíkar aðgerðir hafa sértrúarklerkar orðið að beita orðaklækjum og útúrsnúningi til að rökstyðja mál sitt.

Ayatollah Khomeni gekk mun lengra en þetta. Karlmönnum sem voru staðnir að samkynhneigð (sem er bönnuð í Íran að viðlagðri dauðarefsingu) var boðið upp á bót meina sinna, að fara í kynskiptaaðgerð en deyja ella. Það er allmörg tilvik þar sem samkynhneigðir karlmenn hafa bjargað lífi sínu með aðgerð. Það er þó engin lausn fyrir þá sem verða fyrir slíku. Bæði eru aðgerðirnar mjög ófullnægjandi og ónákvæmar auk þess sem samkynhneigðir karlmenn hafa venjulega engan áhuga á að missa manndóminn. Því eru slíkar aðgerðir niðurlæging fyrir þá samkynhneigðu karlmenn sem verða fyrir henni.

http://gaycitynews.com/site/news.cfm?newsid=18324930&BRD=2729&PAG=461&dept_id=569346&rfi=6

http://www.hno.harvard.edu/gazette/2002/03.14/03-najmabadi.html

Rétt eins og við sem teljumst vera transgender og transsexual viljum einungis fá réttlætinu framgengt og aðgerðir til samræmis vilja okkar, eru aðgerðir gegn vilja fólks sömuleiðis gegn réttlætishugsun okkar.

mánudagur, maí 21, 2007

21. maí 2007 – Baugsstjórnir

Er það nokkuð misminni hjá mér? Á þeim árum þegar Davíð Oddsson og Björn Bjarnason börðust sem hatrammlegast gegn Baugi, hélt Framsóknarflokkurinn sig til hlés án þess að heyrðist múkk úr þeirri áttinni Fyrir bragðið megum við þakka fyrir að ekki verður mynduð ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins, því það yrði sannkölluð Baugsstjórn.

Það er hinsvegar öllu verra að klína Baugsnafninu á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar því einmitt í þeim hópi er það fólk sem hefur átt í illdeilum við Baugsveldið. Er kannski kominn tími til að tala um Baugsstjórnarandstöðuna? Það er einu sinni svo að Framsóknarflokkurinn hefur átt mikinn þátt í að skapa hér gott umhvefi fyrir íslenskt auðvald, menn á borð við Kaupþingsfélaga, Ólaf í Samskip og sína eigin fyrrum Framsóknarráðherra, Finn Ingólfsson Halldór Ásgrímsson svo ekki sé talað um þá ábyrgð sem felst í að ræna íslensku þjóðinni þeirri auðlind sem hélt í henni lífinu um aldir, fiskinn í sjónum.

Ég held að Framsókn verði að finna eitthvað meira viðeigandi nafn á hina nýju ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Sjálf ætla ég að bíða með að tjá mig uns ég hefi séð málefnasamning hinnar nýju ríkisstjórnar sem virðist vera í burðarliðnum.

-----oOo-----

Svo fær Addý frænka í DK hamingjuóskir með afmælið

sunnudagur, maí 20, 2007

20. maí 2007 - Hvað ætlar þú að verða væni ....

... þegar þú ert orðinn stór?

Það voru skólaslit í Fjöltækniskólanum í gær. Meðal þeirra sem voru viðstödd skólaslitin var hópur nemenda sem hafði lokið námi við Vélskóla Íslands fyrir 30 árum síðan, vorið 1977. Ekki var hópurinn okkar fjölmennur. Við vorum kannski tólf sem mættum af 66 manna hóp sem útskrifaðist fyrir 30 árum. Flestir eru þó enn á lífi utan fjórir sem hafa látist af ýmsum völdum á þessum áratugum sem liðnir eru.

Eftir að hafa verið við skólaslitin og þegið góðar veitingar hjá kvenfélögum faghópana sem áttu í hlut, röltum við inn gamla skólaganginn og stöldruðum við neðan við gamla skólaspjaldið og ræddum gamlar syndir áður en við héldum í hvert sína leið. Er við vorum komin út úr gamla skólahúsinu var enn verið að ræða gamla skóladaga og þá spurði einn í hópnum:

“Miðað við þá reynslu sem þið hafið að baki, og þið væruð að velja ykkur nám, hvert færuð þið?”
Svarið stóð nokkuð í okkur. Einhverjir nefndu nákvæmlega það nám sem við völdum fyrir rúmum þremur áratugum, en á endanum varð heimspekin fyrir valinu sem áhugaverðasta fagið að glíma við að fenginni 30 ára reynslu á sjó og í landi við misjafnar aðstæður.

http://public.fotki.com/annakk/blanda-efni/nemendur-1977/

laugardagur, maí 19, 2007

19. maí 2007 - Gömul Moggalýgi!

Síðastliðinn miðvikudag var ég stödd í samkvæmi hjá formanni Samfylkingarinnar sem haldið var í tilefni kosningunum og því hversu vel tókst að rífa fylgi Samfylkingarinnar upp um nærri 10% á nokkrum vikum fyrir kosningar. Ég lenti þar á tali við gamlan baráttufélaga frá því á áttunda áratugnum og minntumst við meðal annars gamalla afreksverka og þá helst göngu einnar sem haldin var vorið 1977, þar sem gamli baráttufélaginn var ræðumaður á einum hvíldarstaðnum, en sjálf tók ég virkan þátt í skipulagi og framkvæmd göngunnar.

Laugardaginn 21. maí 1977 efndu Samtök herstöðvaandstæðinga til Straumsvíkugöngu þar sem áherslan var á baráttuna gegn stóriðju og auðvaldi. Þar sem við höfðum safnast saman við hlið álverksmiðjunnar í Straumsvík þótti okkur fjöldinn allmikill en erfitt að henda reiður á raunverulegum fjölda vitandi það Morgunblaðið kæmi svo með niðurskornar tölur af þátttökunni strax eftir helgina.

Ég og einn félagi Jón tókum okkur því til og ákváðum að telja allan hópinn. Eftir að gangan var farin af stað fórum við framfyrir gönguna og töldum hreinlega hausana í göngunni, haus fyrir haus svo ekkert færi á milli mála að við hefðum verið miklu fjölmennari en Mogginn héldi fram. Niðurstaða talningarinnar varð hálfgert áfall. Við höfðum talið okkur vera mun fleiri, en það voru rúmlega 1200 manns sem siluðust upp Hvaleyrarholtið. Síðan fjölgaði smám saman og var góð þátttaka þegar nær dró Reykjavík.

Aldrei gáfum við upp opinberlega fjöldann í göngunni. Til þess var hann of lítill. Þjóðviljinn nefndi síðan einhverjar tölur sem voru langtum hærri sannleikanum, en Mogginn fækkaði okkur niður í 800 – 1000 skv frétt 24. maí 1977 bls 2.

Mér finnst allt í lagi að nefna þetta núna þegar liðin eru 30 ár frá göngunni góðu, enda erum við nú á leið í stjórnarsamstarf með gamla íhaldinu.

Svei mér þá ef Stefán Pálsson núverandi formaður Samtaka hernaðarandstæðinga var ekki í kerru í fylgd foreldra sinna í göngunni, enda ávallt samur við skoðanir sínar á friði og réttlæti.

föstudagur, maí 18, 2007

18. maí 2007 - Geir Haarde á mjólkurbílnum?

Ég fékk á tilfinninguna er ég heyrði viðtöl í Kastljósi sjónvarpsins á fimmtudagskvöldið, að trúnaðarbrestur hefði orðið í flestar áttir nema á milli Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Haarde, sérstaklega vegna orða Guðna Ágústssonar. Hann nefnir bið Steingríms við brúsapallinn, (ætli Geir Haarde sé með próf á mjólkurbílinn), en einnig trúnaðarbrest sem Jón Sigurðsson hafði vísað frá sér nokkrum klukkustundum áður.

Ég er ákaflega efins um stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þar ber margt á milli, en þó enn frekar á milli minna skoðana og skoðana Sjálfstæðisflokksins. Þar ber hæst friðarmálin, en ég hefi aldrei sætt mig við stuðningsyfirlýsingu þeirra Davíðs og Halldórs við innrásina í Írak og væntanleg samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks breytir engu þar um. Sjálf greiddi ég atkvæði með ákveðinni friðarstefnu ungra jafnaðarmanna á landsfundi Samfylkingarinnar í síðasta mánuði.

Þá er ég mjög efins um stefnu Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópusambandinu þótt margir Sjálfstæðismenn séu Samfylkingunni sammála um nauðsyn aðildarviðræðna við EU. Önnur atriði eins og velferðarmálin er verra að meta fyrr en með birtingu málefnasamnings.

Orð Guðna Ágústssonar um kosningablað DV sem dreift var ókeypis í vikunni dæma sig sjálf. Guðni veit það jafnvel og ég að fylgishrun Framsóknarflokksins er löngu orðin staðreynd og að þessi snepill breytti engu þar um. Það að kenna þessu kosningablaði um tapið í kosningunum lýsir kannski best sárindum Guðna vegna missis ráðherrastólsins.

fimmtudagur, maí 17, 2007

17. maí 2007 - Hvað gerir Geirharður þá?

Nú bendir ýmislegt til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ætli sér að sitja sem fastast í fjögur ár til viðbótar. Það væri ekkert við því að segja ef 32 alþingismenn væru sammála um öll verkefni og að verja ríkisstjórnina falli. Þá efa ég ekki réttinn að kalla til varamenn inn á þing eða ráða ráðherra á sama hátt og Jón Sigurðsson var ráðinn til starfa sem iðnaðarráðherra fyrir nærri ári síðan. Það er auk þess líklegast að þingmenn Framsóknarflokksins muni gefa eftir með öll mál til að fá að halda áfram í ríkisstjórn og að gömlu yfirlýsingarnar frá því fyrir kosningar um slit á stjórnarsamstarfi ef fylgið hrynur verði marklausar þegar á reynir.

Eitt situr þó dálítið í mér. Einn nýkjörinna alþingismanna heitir Árni Johnsen. Honum gæti dottið það til hugar að setja sem skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórnina, að göng verði boruð milli lands og Eyja.

Hvað skyldi Geir Haarde gera þá?

miðvikudagur, maí 16, 2007

16. maí 2007 - Vaknað fyrir flug

Þetta er óþolandi. Af hverju þarf ég að vakna klukkan þrjú að morgni til að ná fluginu?

Þessi spurning hefur oft angrað mig. Í morgun þurfti ég að vakna klukkan þrjú til að skutla fólki suður á Miðnesheiðarflugvöll af því að flugvélin átti að fara í loftið klukkan sjö. Fyrir bragðið var ég úrill á leiðinni þótt ekki gæti ég kennt farþegum mínum um skap mitt. Ég var bara ekki búin að sofa nóg. Svo finnst mér að alltaf sé rigning á Keflavíkurveginum.

Ekki þýðir að benda fólkinu á að geyma bílinn suður á Miðnesheiði á meðan það er í útlöndum. Slíkt er í lagi ef einungis er dvalið í þrjá til fjóra daga, en þegar fólk ætlar að dvelja í tvær vikur er kostnaðurinn við að geyma bílinn suðurfrá orðinn óheyrilegur. Því er ódýrara að skutla fólkinu í flug og flýta sér heim aftur í von um að ná klukkutíma lúr áður en farið er til vinnu.

Fólkið sem er að fara til útlanda telur mér trú um að þetta sé fínn tími. Þegar komið er til útlanda er rétt komið hádegi og það getur verslað og fengið sér öl og notið lífsins allan eftirmiðdaginn og kvöldið. Í reynd er það vansvefta og þreytt þegar komið er á ákvörðunarstað, gerir tóma vitleysu í innkaupum og verður dauðadrukkið af einum öl. Fyrir bragðið er það komið í svefnstað og farið að sofa löngu fyrir eðlilegan háttatíma.

Ég skil sjálfu sér Flugleiðir að stilla brottfarartímana til Evrópu við komutíma Ameríkuvélanna, en ég skil ekki að Æsland Express þurfi að apa þetta eftir þeim.

Ég er heppin í þetta sinn. Ég er í frí frá vinnunni og get skriðið upp í þegar heim er komið og haldið áfram að sofa.

“Geysp”

þriðjudagur, maí 15, 2007

15. maí 2007 - Um fléttulista

Fyrir prófkjör Samfylkingarinnar síðastliðið haust fékk ég nokkur símtöl þar sem ég var hvött til að kjósa einstaka frambjóðendur í prófkjörinu. Þau sem hringdu í mig voru bæði karlar og konur sem áttu eitt sameiginlegt. Þau hvöttu mig til að merkja við karlkyns frambjóðanda. Enginn stuðningsmaður hringdi í mig og hvatti mig til að kjósa konu.

Eftir prófkjörið lýstu nokkrar konur yfir því við mig að þær ætluðu að yfirgefa Samfylkinguna og færa stuðning sinn yfir til Vinstrigrænna. Sumar þeirra gerðu það. Ég spyr bara. Úr því að nokkrar konur sem ég kannast við yfirgáfu Samfylkinguna eftir vonbrigðin í prófkjörinu, hversu margar voru þær samtals sem hlupust á brott?

Eftir vangaveltur mínar um tap Samfylkingarinnar í kosningunum bentu konur meðal annars á að konur merkja gjarnan við blandaða hópa karla og kvenna á meðan karlar merkja frekar við karla. Fyrir bragðið eiga konur erfiðara uppdráttar í prófkjörum en karlar og lenda því oft neðar á listunum. Ef fléttulisti hefði verið notaður við uppröðun á lista fyrirkosningarnar hefðu konur verið minnst þremur fleiri meðal þingmanna Samfylkingarinnar eftir kosningarnar en raun ber vitni, þó sennilega mun fleiri auk þess sem ég vil fullyrða að hún hefði bætt við sig bæði hlutfallslega sem í tölum í stað þess að tapa eftir langa stjórnarandstöðu.

Mér finnst skynsamlegra að breyta prófkjörsreglunum konum í hag en að stofna nýjan kvennalista sem gæti orðið neyðarúrræðið ef prófkjörsreglunum verður ekki breytt.

mánudagur, maí 14, 2007

14. maí 2007 - Er sagan nokkuð að endurtaka sig?

Þegar ég fletti Laugardalsættinni sem vinur minn Sigurður Hermundarson tók saman og bókaútgáfan Hólar gaf út á síðasta hausti fæ ég á tilfinninguna að hér sé um mikla Framsóknarætt að ræða. Fáa vil ég þó nefna af Framsóknarmönnum sem ég hefi séð bregða fyrir í bókunum, en einn er þó áberandi, þungbrýndur, skeggjaður og útitekinn rétt eins og væri hann nýkominn inn úr fjárhúsum ríkisstjórnarinnar. Jón heitir maðurinn Sigurðsson og fæddur í Kollafirði í Kjalarneshreppi. Þrátt fyrir uppruna hans verð ég að neita nánum skyldleika við hann öðrum en þeim að hann er eins og ég og hinn fjarskyldi ættingi minn Björn Bjarnason, vindþurrkaður og veðurbarinn.

Fyrir kosningar kom hver Framsóknarmaðurinn á fætur öðrum fram í sviðsljósið og lýsti efasemdum sínum um áframhald ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ef úrslit kosninganna yrðu í samræmi við skoðanakannanir. Nú er fylgishrunið orðið að staðreynd og flokkurinn missti fimm þingmenn og þurrkaðist út í Reykjavíkurkjördæmum. Þetta þýðir um leið að formaður Framsóknarflokksins og iðnaðarráðherra sem og umhverfisráðherra hafa ekki einu sinni möguleika á að leysa af á Alþingi næstu fjögur árin.

Formaðurinn er strax farinn að draga í land. Bíð ég þess nú að hinir þingmennirnir dragi einnig í land yfirlýsingar sínar svo hægt verði að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Það er ekkert mál að gera slíkt. Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz geta haldið áfram að gegna ráðherraembættum sínum þótt þau séu utanþings, en þingflokkar þeirra og Sjálfstæðisflokks munu halda áfram að verja þau falli.

Til að tryggja sér áfram feit embætti í krafti setu í ríkisstjórn mun Framsóknarflokkurinn samþykkja allar kröfur Sjálfstæðisflokksins gegn því að halda lítt breyttum áhrifastöðum, en fallnir þingmenn flokksins eins og Guðjón Ólafur fá feitar stöður hjá hinu opinbera rétt eins og Óskar Bergsson í fyrra þegar Framsóknarflokkurinn missti mann úr borgarstjórn með því að R-listinn lagði upp laupana.

http://velstyran.blogspot.com/2006/05/30-ma-2006-skjta-fyrst-og-spyrja-svo.html

Ég vona bara þjóðarinnar vegna, að meirihluti Framsóknarmanna muni hafa vit fyrir formanni sínum og draga sig í hlé frá ríksstjórn næstu fjögur árin.

sunnudagur, maí 13, 2007

13. maí 2007 - III - Íslandshreyfingin

Það er ekki hægt annað en að dást að því fólki sem leggur allt í sölurnar fyrir málstaðinn þótt fáir vilji hlusta. Þannig þurfti Íslandshreyfingin að leggja meira á sig en önnur framboð fyrir þessar kosningar, ekki síst í ljósi þess að hreyfingin átti enga sjóði til að sækja í og fáa greiðandi stuðningsmenn. Heyrt hefi ég, þó óstaðfest, að sumir aðstandendur Íslandshreyfingarinnar hafi þurft að ganga í persónulegar ábyrgðir til að láta framboðið ganga upp og fá ekkert til baka með því að ný lög um starfsemi stjórnmálaflokka miðast við þá flokka sem eiga sæti á Alþingi..

Þótt skoðanir mínar og Íslandshreyfingarinnar hafi ekki átt samleið, er ekki annað hægt en að dást að viljastyrk og hugsjónastarfi þess fólks sem háði vonlitla baráttu allt frá fyrsta degi og óska þeim góðs gengis í framtíðinni.

13. maí 2007 - II - Af hverju tapaði Samfylkingin?

Við getum kallað það varnarsigur og við getum kallað kosningaúrslitin stórsigur ef skoðanakannanir undanfarinna mánaða eru skoðaðar. Ég kýs að kalla úrslitin áfall fyrir Samfylkinguna. Því miður.

Ríkisstjórnin hélt velli og Samfylkingin tapaði fylgi, bæði hlutfallslegu fylgi sem og þingsætum. Slíkt get ég ekki kallað varnarsigur. Rétt eins og þegar lélegt fótboltalið tapar með eins marks mun gegn sterku fótboltaliði, þá tapar lélega liðið en vinnur engan varnarsigur. Slíkt er aðeins blekkingarleikur og til þess fallið að slá ryki í augu þess sem heldur slíku fram. Ég held því að nauðsynlegt sé að fara í naflaskoðun og athuga hvað fór úrskeiðis í hinni pólitísku baráttu.

Málefnastaða Samfylkingarinnar var góð. Það hefði mátt setja hana fram með skýrari og mun afdráttarlausari hætti, en góð samt. Kosningabaráttan var frábær. Frambjóðendur og stuðningsfólk lögðu mikið á sig til að tryggja Samfylkingunni atkvæðin og áttu flest heiður skilið fyrir baráttudugnað. Rósirnar og gangan í hús með rósir bættu mjög álitið á Samfylkingunni. Sömu sögu má segja um önnur lítil atriði eins og gleraugnaklútana sem mæltust almennt vel fyrir. Hinsvegar var mikill fjöldi mismunandi bæklinga um sama efnið dálítið ruglingslegur og hefði mátt samræma betur útgáfustarfsemina.

Það sem ég tel að hafi gert útslagið um fylgistap Samfylkingarinnar var prófkjörið! Ég vil ekki kasta rýrð á einstöku frambjóðendur, en það er ljóst að tapið í hinu áður sterka Suðurkjördæmi er mikið því að kenna að karlar sátu í þremur efstu sætunum, tveimur efstu sætunum í Norðausturkjördæmi og tveimur efstu sætunum í Norðvesturkjördæmi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra hjá stjórnmálaflokki sem berst fyrir jafnrétti kynjanna, enda heyrðist fljótlega eftir prófkjörið af konum sem færðu sig yfir til vinstrigrænna og greiddu þeim atkvæði sín í kosningunum. Þá heyrðist og af frambjóðendum annarra flokka sem kusu í prófkjöri hjá Samfylkingunni.

Samfylkingin verður að hætta að ljúga að sjálfri sér og reyna að læra af tapinu.

13. maí 2007 - Ein hræðilega athyglissjúk í sjónvarpssal

Ég hafði verið verið boðuð í sjónvarpssal að kvöldi kosningadags. Eftir að hafa unnið fyrir Samfyllkinguna allan kosningadaginn flýtti ég mér heim, skipti um föt og leit við í mýflugumynd á Grand Hotel þar sem halda átti sigurhátíð. Ég ákvað samt að yfirgefa gleðina til að sýna á mér andlitið á mér uppi í sjónvarpi og og hélt því í Efstaleitið. Þegar þangað var komið fannst mér stemmningin fremur niðurdregin, fátt fólk sem sat við borð og drakk áfengi úr plastglösum.

Ég settist niður og drakk mitt sódavatn úr plastglasi. Á bakvið mig var verið að lesa nýjustu kosningatölur í sjónvarpi, en á sviði fyrir framan mig beið Baggalútur eftir komast að. Mér leiddist. Ég vissi ekki einu sinni af hverju ég hefði verið boðuð á þennan stað, en þóttist vita af spjalli við sjónvarpsmanninn sem hafði hringt í mig að það hefði eitthvað að gera með bloggskrif.

Eftir að hafa setið í salnum í rúmlega klukkustund, drukkið þrjú plastglös með sódavatni og Baggalútur einungis náð að spila eitt lag, var ég í alvöru farin að efast um tilganginn með veru minni á þessum stað. Ég gæti séð þetta allt miklu betur í sjónvarpinu. Þá brá fyrir á skjá til hliðar myndum frá Grand Hotel þar sem Samfylkingarfólk fagnaði með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ég sat víðs fjarri í einhverjum kjallara með fólki sem hafði enga ástæðu til að fagna fyrstu tölum úr kosningunum.

Ég snéri mér að Hallgrími Helgasyni sem virtist álíka þreyttur á andrúmsloftinu og ég:
“Hvað erum við að gera hérna þegar allt fjörið er á Grand Hótel?”
Hallgrímur var mér sammála, við yfirgáfum samkvæmið í snarhasti og fórum stystu leið niður á Grand Hótel þar sem við gátum fylgst með útsendingum Stöðvar 2 á risaskjá í hliðarsal.

Af hverju fæ ég á tilfinninguna að Ríkissjónvarpið hafi tapað stríðinu um áhorfendur á kosninganótt?

laugardagur, maí 12, 2007

12. maí 2007 - Að aflokinni kosningabaráttu

Ekki get ég montað mig af miklu starfi í kosningabaráttunni sem nú er senn á enda. En góð var hún. Ekki var það vegna þess að ég hefði keyrt yfir einhverja mótherja, heldur þvert á móti, kynnst betri hliðinni á mörgum þeirra.

Ég var þrjá eftirmiðdaga í Kringlunni að kynna málstað Samfylkingarinnar. Fyrsta daginn mættu bæði Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún okkur til halds og trausts. Á fimmtudag var Reynir Harðarson helsti frambjóðandinn okkur til styrktar, en á föstudag lét enginn frambjóðandi sjá sig. Þeir voru allir uppteknir við að dreifa rósum til kjósenda og máttu hafa sig alla við ef ætlunarverkið ætti að takast fyrir kjördag.

Við sem vorum í Kringlunni höfðum hinsvegar náðuga daga, spjölluðum við mann og annan og frambjóðendur annarra flokka. Þannig skipti ég á blávatni og rauðum gleraugnaklút við Dögg Pálsdóttur og átti ágætt spjall við hana, Guðfinnu Bjarnadóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Árna Þór Sigurðsson á efri hæðinni auk þeirra sem voru af hálfu vinstrigrænna og Sjálfstæðisflokks á þriðjudag og fimmtudag, fólks á borð við Steinunni Þóru Árnadóttur, Péturs Blöndal, Sigurðar Kára og Sigríðar Andersen. Á neðri hæðinni mætti ég m.a. Ómari Ragnarssyni, Margréti Sverrisdóttur, Benedikt Lafleur, Sæunni Stefánsdóttur Kristjáni sem ég man ekki eftirnafnið á og fleirum og um það er ég sannfærð að hvert og eitt þeirra hefði auðveldlega getað talið mig á að kjósa sig hefði ég ekki verið svona staðráðin í að kjósa Samfylkinguna.

Af nýfenginni reynslu hefi ég kynnst því ágætlega hve fjöldi fólks hefur lagt sig fram í hvívetna um að ná árangri fyrir hönd flokksins síns og eiga þau öll þakkir skilið fyrir góða viðkynningu og óskir um góða framtíð innan sem utan Alþingis.

föstudagur, maí 11, 2007

11. maí 2007 - II - 27. júní er góður dagur!

Hinn 27. júní 1921 var Rafmagnsveita Reykjavíkur stofnuð og Elliðaárstöð vígð. Þetta var því góður dagur fyrir Reykvíkinga sem þar með tóku fyrsta stóra skrefið inn í nútímann. Hinn 27. júní 1996 hlutu samkynhneigðir umtalsverð mannréttindi á Íslandi. Þessi dagur var því góður dagur fyrir samkynhneigt fólk á Íslandi.

Hinn 27. júní næstkomandi ætlar einn helsti varðhundur George Dobbljú Bush að hætta störfum sem forsætisráðherra Englands og láta embættið í hendur hógværari öflum. Það er vel og efa ég ekki að heimurinn muni fagna innilega. 27. júní er því einnig góður dagur fyrir heimsbyggðina.

11. maí 2007 - Engin stig frá Austur-Evrópu!

Þá getum við hætt að velta Júróvisjón fyrir okkur og snúið okkur að kosningum. Mér fannst þessi tilraun Eiríks Haukssonar nokkuð góð, að vísu ekki svo að maður fyndi fyrir þjóðrembu og köldu vatni milli skinns og hörunds, en samt. Þetta var góð tilraun.

Sum löndin sem komust áfram hljómuðu hræðilega að mínu mati. Varla hefur Georgía komist áfram út á rauða kjólinn. Þá hefði Selma Björns átt að komast mun lengra út á dansatriðið 2005. Þá má geta þess að rokklag Tékklands komst heldur ekki áfram og sömu söguna er að segja að framlagi Póllands þótt pólskir verkamenn finnist um alla Evrópu. Þess má geta að sex Austur-Evrópuþjóðir komust ekki áfram í lokakeppnina.

Eitt verður að hafa í huga varðandi þessa keppni. Fyrir flestum Vestur-Evrópubúum er Júróvisjón löngu orðin leiðinlegt sjónvarpsefni. Áhorfið er löngu orðið mjög lítið og höfðar orðið lítt til almennings. Það er öfugt meðal Íslendinga og Austur-Evrópubúa sem einungis hafa getað tekið þátt í þessari keppni í nokkur ár. Það er því eðlilegt að Austur-Evrópuþjóðir sitji að því að komast áfram í úrslitakeppnina ekki síst í ljósi þess að mikið hefur verið lagt í sum lögin til að koma þeim á framfæri í nágrannalöndum flytjendanna.

fimmtudagur, maí 10, 2007

10. maí 2007 - Annað faðmlag við Gustavsberg

Ég kom við í opnu húsi hjá Ættfræðifélaginu í gær, miðvikudag. Ég hafði ekki komið oft þangað síðan ég hætti í stjórn félagsins, en fannst kominn tími til svo ég færi ekki að lýsa yfir algjöru frati á félagið.

Þar sem ég hafði rétt komið mér fyrir við stóra fundarborðið og teygði mig í kexköku og beit í, fann ég skyndilega hvernig ég fékk óvenjulegan magaverk, rétt eins og hnút í magann. Verkurinn leið ekki hjá strax svo ég gafst fljótlega upp á félagsskapnum, fór út í bíl, ók heim og lagði mig um stund. Eftir að hafa legið fyrir í um klukkutíma fann ég fyrir óstjórnlegri þörf á að faðma eitthvað kalt og karlkyns, fór fram á bað og faðmaði Gustavsberg í gríð og erg uns hann hafði tekið við öllu sem ég hafði etið þann daginn.

Ég fann hvernig kvalirnar linuðust eftir faðmlögin og brátt var ég orðin eins og nýsleginn túskildingur, gat tekið gleði mína á ný og haldið áfram að sinna þeim verkefnum sem hafði ætlað að framkvæma á miðvikudagskvöldið. Sömuleiðis rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði lent í nánast sömu vandræðum áður sbr gamla bloggfærslu frá 11. nóvember 2004.


http://blog.central.is/annakk//index.php?page=components&id=244612&y=2004&m=11&d=11

P.s. Ég held þó að magaverkurinn sé ekki af völdum einnar kexköku, heldur af öðrum og ókunnum ástæðum hvort sem það er af völdum einhvers í mínum eigin ísskáp eða þá af gömlu stressi sem er að taka sig upp algjörlega að ósekju.

-----oOo-----

Er ekki kominn tími til að veita Birni Bjarnasyni kærkomna hvíld frá störfum með kosningunum á laugardag og áður en hann veitir sálufélaga sínum Jóni HB Snorrasyni síðasta feita embættið sem enn er ekki skipað sálufélögum hans í hernaðarhyggjunni?

þriðjudagur, maí 08, 2007

8. maí 2007 - Nú kom vel á vonda

Það er kominn tími til að hætta monta mig með gömlum meira og minna ýktum sjóarasögum. Í gær var tækifærið gripið og þar sem ég hafði sjálf miklað mig af dreifingu á rauðum rósum á fyrri árum, þótti bara sjálfsagt og eðlilegt að ég tæki þátt í að ganga í hús og dreifa rauðum rósum til reykvískra húsmæðra og maka þeirra. Því fékk ég það veigamikla hlutverk að ganga með Helga Hjörvar í hús og dreifa rauðum rósum í nafni Samfylkingarinnar.

Þetta var skemmtilegt en dálítið kalsasamt hlutverk enda vart nema gluggaveður ennþá. Víðast hvar þar sem fólk var heima, var vel tekið á móti okkur. Einhverjir harðneituðu að taka við rósum, þá aðallega karlmenn og einn sagðist ekki vilja rósir frá þessum kommúnistum. Ég nennti ekki að rökræða við hann, en yljaði mér þess betur við þakkarorðin sem ég fékk frá fjölda kvenna og karla í hverfinu sem ég gekk með rósir í. Einhvernveginn fékk ég á tilfinninguna að ein rauð rós geri meira gagn en þúsund orð.

Kannski ætti Íslandshreyfingin að herma þetta eftir okkur og ganga með hvönn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð með túnfífil í hús sbr Miljöpartiet í Svíþjóð. Ég er samt ekki alveg viss um að það sé rétta aðferðin til að ná hylli fólks.

mánudagur, maí 07, 2007

7. maí 2007 - Tveir tómir skólar, Þorsteinn Már?

Á laugardag hafði Stöð 2 eftir Þorsteini Má Baldvinssyni að hann vildi koma á menntun fyrir stýrimenn og vélstjóra á farskip á Akureyri og þá með það í huga að manna erlend stórskip með íslenskum yfirmönnum. Hann benti meðal annars á að um 1000 Færeyingar séu við störf á slíkum skipum út um allan heim, á skemmtiferðaskipum, tankskipum og gámaskipum.

Ég fór að velta fyrir mér þessari hugmynd hans. Slíkur skóli er til á Íslandi, reyndar í Reykjavík en ekki á Akureyri og heitir Fjöltækniskóli Íslands. Vandamálið við þann skóla er að ekki fást margir nemendur til að stunda nám við skólann. Ég get ekki séð að íslenskir nemendur þyrpist frekar til Akureyrar til náms.

Á undanförnum áratugum hefur verið unnið farsællega að því að útrýma íslenskri farmannastétt með þeim árangri að einungis sjö skip í millilandasiglingum eru með íslenskum áhöfnum í dag, öll undir erlendum fánum. Hvar á þá að þjálfa upp þessar þúsundir farmanna til starfa? Ekki verða þeir þjálfaðir á togurum, svo mikið er víst, enda störfin að mörgu leyti ólík.

Til hafa verið Íslendingar sem stundað hafa farmennsku á erlendum skipum um langt skeið og eru enn. Einhverjir stunda störf á skemmtiferðaskipum, sbr Þórð vin minn og göngufélaga, aðrir á hinum ýmsu skipum. Lengi vel voru ákveðnar hindranir í veginum, t.d. þær að íslensk yfirvöld þrjóskuðust við að skrifa undir alþjóðlega samninga sem gæfu íslenskum farmönnum réttindi til starfa á erlendum skipum. Nú hafa þessi sömu yfirvöld afmáð íslenskan farskipastól af kortinu. Þá má minnast þess er margir tugir nemenda útskrifuðust frá Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólanum í Reykjavík á hverju ári. Stór hluti þessara nemenda er nú kominn á miðjan aldur og vandamálin með mönnun íslenskra fiskiskipa bíða handan við hornið. Það fást sárafáir menn til að setjast í þessa skóla í dag.

Ég held að Þorsteinn Már Baldvinsson verði að koma með aðrar lausnir á vandamálum farmennskunnar en þeim að stofna nýjan sjómannaskóla á Akureyri.

http://www.visir.is/article/20070505/FRETTIR01/70505043

Sjá og um ástandið í menntunarmálum vélstjórnar:

http://www.visir.is/article/20070507/FRETTIR01/105070082/-1/frontpage

sunnudagur, maí 06, 2007

6. maí 2007 - Af portkonum í Hamborg

Í gær var fólk að rifja upp ýmislegt misjafnt úr fortíðinni, en þar sem ég sat, kunni ég ekki við að segja gamla lífsreynslusögu, enda var hún frá því í gamla lífinu. Því læt ég hana flakka hér og nú.

Við vorum í þurrkví í Hamborg. Ég og yfirstýrimaðurinn vorum á frívakt og höfðum brugðið okkur í bæinn í þeim tilgangi að skoða bæjarlífið. Þar sem við sátum á krá einni við Gerhardstrasse og virtum fyrir okkur portkonur að selja blíðu sína utan við hliðin að Herbertstrasse kom gömul blómasölukona inn á krána þar sem við sátum og var hún að selja rauðar rósir. Ágætlega kveik af öli, þyrluðust upp í huga mér sögurnar af blómasölukonunni í My fair lady eða Pygmalion og keypti ég allar rósirnar af gömlu konunni.

Þar sem ég og stýrimaðurinn sátum á kránni gegnt hliðunum að Herbertstrasse, vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera við allar rósirnar sem höfðu verið snyrtilega pakkaðar ein og ein í sellófan og ekki ætlaði ég að dröslast með rósirnar um borð hjá mér. Því var aðeins eitt að gera.

Ég og stýrimaðurinn héldum af stað. Fyrir utan krána sem við höfðum setið stóðu nokkrar ungar portkonur og sem við höfðum fylgst með úr fjarlægð. Ég gekk að hverri einustu og færði eina rós. Síðan héldum við inn fyrir hliðin, gengum í gegnum litlu heimsfrægu götuna og hvar sem stúlka sást sitja í glugga að selja hið einasta sem hún átti til, gekk ég að glugganum og færði viðkomandi stúlku eina rauða rós. Við komumst í heilu lagi út hinum megin, gengum niður Davidstrasse og hélt ég uppteknum hætti, færði stúlkum rauðar rósir á bæði borð. Áfram var haldið út á Reeperbahn, í gegnum Eros Center og út á Grosse Freiheit dreifandi rósum og inn á Thailandskrána þar sem ég var orðin vel kunnug eigandanum sem tók okkur fagnandi og fékk restina af rósunum að launum.

Dagana á eftir komst ég rækilega að því að ég hafði gert alvarlega skyssu. Ég hafði vissulega losnað við áreiti stúlknanna sem voru að selja blíðu sína, en það tók bara annað við. Hvar sem ég kom eftir þetta heilsuðu stúlkurnar mér kumpánlega, rétt eins og ég hefði stundað mikil viðskipti á þessum slóðum.

Eftir þetta neyddist ég til að fara á aðra staði í Hamborg á frívöktunum.

laugardagur, maí 05, 2007

5. maí 2007 - Dale Carnegie

Um síðustu helgi horfði ég á virðulegan enskan háskólaprófessor missa stjórn á skapi sínu og hundskamma ungan atvinnulausan mann sem hafði einungis unnið 70% af því verki sem honum höfðu verið falin. Þessi viðburður var því grátlegri sem ungi maðurinn hafði unnið verk sín í sjálfboðaliðavinnu og af hugsjónaástæðum. Þessi ungi maður sem vissulega hafði færst of mikið í fang hafði unnið betur en margir aðrir og átti skammirnar ekki skilið. Því setti mig hljóða og hugsaði með mér að enski háskólaprófessorinn, sem meðal annars hefur hlotið eina af æðstu viðurkenningum sem hægt er að hljóta í landi sínu úr hendi Bretadrottningar, hefði gott af að fara á Dale Carnegie námskeið. Daginn eftir hafði prófessorinn séð að sér og bað margfaldlega afsökunar á skapbresti sínum, en skaðinn var skeður. Það hafði myndast tilfinningaleg gjá á milli þessara tveggja manna sem báðir áttu sér svipaðar hugsjónir og höfðu stefnt að þeim í sameiningu.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er að ég sat á Dale Carnegie námskeiði í nærri þrjá mánuði nú seinnipart vetrar. Ég hafði heyrt margt jákvætt sem neikvætt um þessi námskeið, allt frá heilaþvotti sem alls hins besta sem hægt var að fá úr einu námskeiði og mig langaði til að prófa.

Í tólf vikur sat ég á námskeiði fjóra klukkutíma á mánudagskvöldum og einn klukkutíma á fimmtudögum auk heimalærdóms (ég viðurkenni að ég er ekki nærri búin með allan heimalærdóminn). Smám saman lærði ég að viðunandi árangur á námskeiðinu væri einvörðungu undir mér komið og mínum vilja til að bæta sjálfa mig. Þetta væri ekki einungis spurning um að læra að stjórna heldur og að láta stjórnast, að mæta hverjum degi með bros á vör og líta á hvert mótlæti sem áskorun um að gera enn betur en í gær. Sjálf fann ég fyrir innri breytingum með því að ég átti auðveldar með að viðurkenna eigin mistök, að ég átti auðveldar með að tjá tilfinningar mínar og um leið að láta fólk hlusta á skoðanir mínar.

Vissulega missti ég af síðasta tímanum þar sem ég var stödd í Amsterdam á sama tíma. Samt stóð námskeiðið í mér og ég fann hvernig innri styrkur minn hafði aukist verulega á örfáum vikum. Í gærkvöldi, föstudagskvöld, var svo haldið lokahóf námskeiðsins. Það var ástæða til að fagna, ekki einungis betri persónuleika okkar sjálfra, heldur og ástæða til að þakka leiðbeinendum okkar fyrir vel unnin störf, Reyni Guðjónssyni sem stýrði námskeiðinu af mikilli röggfestu og aðstoðarfólkinu Davíð, Önnu, Elínu, Kristínu og Helga.

Takk. Ég get með góðri samvisku hvatt allt það fólk sem þarf að leita út fyrir þægindahringinn sinn til að sækja sér Dale Carnegie námskeið. Sama gildir um fólk sem finnur sig eiga erfitt með að ráða skapsveiflum sínum.

föstudagur, maí 04, 2007

4. maí 2007 - Dómur er fallinn eða hvað?

Á fimmtudagsmorguninn heyrði ég í útvarpinu að bein útsending yrði í sjónvarpsrásunum í tilefni þess að fella ætti dóm í Baugsmálinu klukkan 12.00. Ég geispaði, hélt áfram að dunda mér við að hafa mig til og hélt síðan út í stutta gönguferð í vinnuna.

Í vinnunni talaði enginn um nýjustu tíðindi af Baugsmálinu. Ekki heldur í matartímanum. Í fundarsalnum var verið að kynna Frjálslynda flokkinn í aðdraganda kosninga og ég mætti á mánaðarfund klukkan 13.00. Þetta var góður fundur og enginn sagði eitt einasta orð um nýjustu mútur Jóns Gerald Söllenberger eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður og vinur annars mútuþega sem finnst vínber góð á bragðið. Ekki var heldur sagt neitt um nýjustu fréttir af Baugsmálum en þess meira rætt um áhugaverðari þætti mannlífsins eins og þrýsting og hitastig á heitu vatni. Enginn hafði neinar áhyggjur af stórfrétt dagsins að mati fjölmiðlanna.

Ég hefi það á tilfinningunni að Baugsmálið sé enn meira flopp fyrir fjölmiðlana en nokkru sinni saksóknaraembættið. Í fjölmiðlum er látið eins og að Baugsmálið sé mál málanna þótt almenningur sé löngu búinn að upp í kok af málinu. Að auki er málinu ekki lokið og vitað fyrirfram að hverjar sem niðurstöður yrðu í héraðsdómi, myndi málið halda áfram upp í Hæstarétt. Dómurinn í héraðsdómi var fyrir bragðið einungis eins og sýndarmennska fyrir fjölmiðla sem halda að hinn algildi sannleikur hafi verið birtur í gamla dómhúsinu við Lækjartorg.

fimmtudagur, maí 03, 2007

3. maí 2007 - Framboð eldri borgara in memoriam

Þá er fyrsta framboð kosninganna búið að leggja upp laupana. Það var að vísu aldrei við miklu að búast úr þeirri áttinni, ekki síst eftir að aðrir eldri borgarar hófu að bjóða sig fram undir merkjum Íslandshreyfingarinnar, hægri grænir. Þess má geta að Ómar Ragnarsson verður löglegur eldri borgari hinn 16. september næstkomandi, en þá verður hann 67 ára og því hæfur til framboðs hjá eldri borgurum.

Í sjálfu sér geta eldri borgarar kennt sjálfum sér um. Ef ekki er hægt að standa við alltof rúmar framboðsreglur, verða framboðin sjálf að lúta í gras og finna sér annan vettvang fyrir óánægju sína með kjörin. Ástæða þess að ég segi alltof rúmar framboðsreglur eru einfaldlega þær að utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hefur þegar staðið yfir í fleiri vikur og reyndar ættu framboðin að vera komin fram með listana áður en hafist er handa um að kjósa utankjörstaðar.

Sjálf hefi ég fátt getað gert á miðvikudag, var á næturvakt og svaf síðan fram yfir hádegi. Hefi síðan verið að fullu við útréttingar og síðan þvotta ásamt því að setja inn myndir frá síðustu ferð.

-----oOo-----

Meðfylgjandi er mynd af útisalerni fyrir karlmenn sem 17. júní nefndin í Reykjavík mætti alveg taka sér til fyrirmyndar svo losna megi við hlandlyktina í öllum skúmaskotum í Reykjavík að kvöldi þjóðhátíðardagsins sem og að næturlagi um helgar.

http://images9.fotki.com/v187/photos/8/801079/4893574/IMG_1725-vi.jpg?1178151978

-----oOo-----

Svo fær stóra systir hamingjuóskir með afmælið.

miðvikudagur, maí 02, 2007

2. maí 2007 - Komin heim!

Það er hreint ótrúlegt hve mikið er hægt að gera á örfáum klukkustundum eftir drykkjuskap drottningardagsins í Hollandi. Á þriðjudagsmorguninn voru göturnar jafn skínandi hreinar og viku fyrir þjóðhátíðina miklu. Það var þó ekki mikill tími til að njóta hreinnar borgar því nú var förinni heitið heim á leið.

Flugið gekk vel og sömuleiðis ökutúrinn til Reykjavíkur, en síðan þurfti að fara beint á vaktina. Ekki veitir af að taka eina vakt því samkvæmt sumarleyfisskipulagi á ég fyrsta sumarfrí ársins sem byrjar á mánudag.

Annars er allt tíðindalaust af heimaslóðum. Kisurnar mínar dafna sem aldrei fyrr eftir gott atlæti á meðan ég var í burtu og svo mun ég setja inn myndir um eftirmiðdaginn frá Amsterdam. Klámhundar munu þó ekki fá neina ánægju af þeim myndum því ég tók engar myndir af hollenskum portkonum í ferðinni.