þriðjudagur, maí 15, 2007

15. maí 2007 - Um fléttulista

Fyrir prófkjör Samfylkingarinnar síðastliðið haust fékk ég nokkur símtöl þar sem ég var hvött til að kjósa einstaka frambjóðendur í prófkjörinu. Þau sem hringdu í mig voru bæði karlar og konur sem áttu eitt sameiginlegt. Þau hvöttu mig til að merkja við karlkyns frambjóðanda. Enginn stuðningsmaður hringdi í mig og hvatti mig til að kjósa konu.

Eftir prófkjörið lýstu nokkrar konur yfir því við mig að þær ætluðu að yfirgefa Samfylkinguna og færa stuðning sinn yfir til Vinstrigrænna. Sumar þeirra gerðu það. Ég spyr bara. Úr því að nokkrar konur sem ég kannast við yfirgáfu Samfylkinguna eftir vonbrigðin í prófkjörinu, hversu margar voru þær samtals sem hlupust á brott?

Eftir vangaveltur mínar um tap Samfylkingarinnar í kosningunum bentu konur meðal annars á að konur merkja gjarnan við blandaða hópa karla og kvenna á meðan karlar merkja frekar við karla. Fyrir bragðið eiga konur erfiðara uppdráttar í prófkjörum en karlar og lenda því oft neðar á listunum. Ef fléttulisti hefði verið notaður við uppröðun á lista fyrirkosningarnar hefðu konur verið minnst þremur fleiri meðal þingmanna Samfylkingarinnar eftir kosningarnar en raun ber vitni, þó sennilega mun fleiri auk þess sem ég vil fullyrða að hún hefði bætt við sig bæði hlutfallslega sem í tölum í stað þess að tapa eftir langa stjórnarandstöðu.

Mér finnst skynsamlegra að breyta prófkjörsreglunum konum í hag en að stofna nýjan kvennalista sem gæti orðið neyðarúrræðið ef prófkjörsreglunum verður ekki breytt.


0 ummæli:







Skrifa ummæli