laugardagur, maí 12, 2007

12. maí 2007 - Að aflokinni kosningabaráttu

Ekki get ég montað mig af miklu starfi í kosningabaráttunni sem nú er senn á enda. En góð var hún. Ekki var það vegna þess að ég hefði keyrt yfir einhverja mótherja, heldur þvert á móti, kynnst betri hliðinni á mörgum þeirra.

Ég var þrjá eftirmiðdaga í Kringlunni að kynna málstað Samfylkingarinnar. Fyrsta daginn mættu bæði Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún okkur til halds og trausts. Á fimmtudag var Reynir Harðarson helsti frambjóðandinn okkur til styrktar, en á föstudag lét enginn frambjóðandi sjá sig. Þeir voru allir uppteknir við að dreifa rósum til kjósenda og máttu hafa sig alla við ef ætlunarverkið ætti að takast fyrir kjördag.

Við sem vorum í Kringlunni höfðum hinsvegar náðuga daga, spjölluðum við mann og annan og frambjóðendur annarra flokka. Þannig skipti ég á blávatni og rauðum gleraugnaklút við Dögg Pálsdóttur og átti ágætt spjall við hana, Guðfinnu Bjarnadóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Árna Þór Sigurðsson á efri hæðinni auk þeirra sem voru af hálfu vinstrigrænna og Sjálfstæðisflokks á þriðjudag og fimmtudag, fólks á borð við Steinunni Þóru Árnadóttur, Péturs Blöndal, Sigurðar Kára og Sigríðar Andersen. Á neðri hæðinni mætti ég m.a. Ómari Ragnarssyni, Margréti Sverrisdóttur, Benedikt Lafleur, Sæunni Stefánsdóttur Kristjáni sem ég man ekki eftirnafnið á og fleirum og um það er ég sannfærð að hvert og eitt þeirra hefði auðveldlega getað talið mig á að kjósa sig hefði ég ekki verið svona staðráðin í að kjósa Samfylkinguna.

Af nýfenginni reynslu hefi ég kynnst því ágætlega hve fjöldi fólks hefur lagt sig fram í hvívetna um að ná árangri fyrir hönd flokksins síns og eiga þau öll þakkir skilið fyrir góða viðkynningu og óskir um góða framtíð innan sem utan Alþingis.


0 ummæli:







Skrifa ummæli