sunnudagur, maí 13, 2007

13. maí 2007 - Ein hræðilega athyglissjúk í sjónvarpssal

Ég hafði verið verið boðuð í sjónvarpssal að kvöldi kosningadags. Eftir að hafa unnið fyrir Samfyllkinguna allan kosningadaginn flýtti ég mér heim, skipti um föt og leit við í mýflugumynd á Grand Hotel þar sem halda átti sigurhátíð. Ég ákvað samt að yfirgefa gleðina til að sýna á mér andlitið á mér uppi í sjónvarpi og og hélt því í Efstaleitið. Þegar þangað var komið fannst mér stemmningin fremur niðurdregin, fátt fólk sem sat við borð og drakk áfengi úr plastglösum.

Ég settist niður og drakk mitt sódavatn úr plastglasi. Á bakvið mig var verið að lesa nýjustu kosningatölur í sjónvarpi, en á sviði fyrir framan mig beið Baggalútur eftir komast að. Mér leiddist. Ég vissi ekki einu sinni af hverju ég hefði verið boðuð á þennan stað, en þóttist vita af spjalli við sjónvarpsmanninn sem hafði hringt í mig að það hefði eitthvað að gera með bloggskrif.

Eftir að hafa setið í salnum í rúmlega klukkustund, drukkið þrjú plastglös með sódavatni og Baggalútur einungis náð að spila eitt lag, var ég í alvöru farin að efast um tilganginn með veru minni á þessum stað. Ég gæti séð þetta allt miklu betur í sjónvarpinu. Þá brá fyrir á skjá til hliðar myndum frá Grand Hotel þar sem Samfylkingarfólk fagnaði með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ég sat víðs fjarri í einhverjum kjallara með fólki sem hafði enga ástæðu til að fagna fyrstu tölum úr kosningunum.

Ég snéri mér að Hallgrími Helgasyni sem virtist álíka þreyttur á andrúmsloftinu og ég:
“Hvað erum við að gera hérna þegar allt fjörið er á Grand Hótel?”
Hallgrímur var mér sammála, við yfirgáfum samkvæmið í snarhasti og fórum stystu leið niður á Grand Hótel þar sem við gátum fylgst með útsendingum Stöðvar 2 á risaskjá í hliðarsal.

Af hverju fæ ég á tilfinninguna að Ríkissjónvarpið hafi tapað stríðinu um áhorfendur á kosninganótt?


0 ummæli:Skrifa ummæli