sunnudagur, maí 06, 2007

6. maí 2007 - Af portkonum í Hamborg

Í gær var fólk að rifja upp ýmislegt misjafnt úr fortíðinni, en þar sem ég sat, kunni ég ekki við að segja gamla lífsreynslusögu, enda var hún frá því í gamla lífinu. Því læt ég hana flakka hér og nú.

Við vorum í þurrkví í Hamborg. Ég og yfirstýrimaðurinn vorum á frívakt og höfðum brugðið okkur í bæinn í þeim tilgangi að skoða bæjarlífið. Þar sem við sátum á krá einni við Gerhardstrasse og virtum fyrir okkur portkonur að selja blíðu sína utan við hliðin að Herbertstrasse kom gömul blómasölukona inn á krána þar sem við sátum og var hún að selja rauðar rósir. Ágætlega kveik af öli, þyrluðust upp í huga mér sögurnar af blómasölukonunni í My fair lady eða Pygmalion og keypti ég allar rósirnar af gömlu konunni.

Þar sem ég og stýrimaðurinn sátum á kránni gegnt hliðunum að Herbertstrasse, vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera við allar rósirnar sem höfðu verið snyrtilega pakkaðar ein og ein í sellófan og ekki ætlaði ég að dröslast með rósirnar um borð hjá mér. Því var aðeins eitt að gera.

Ég og stýrimaðurinn héldum af stað. Fyrir utan krána sem við höfðum setið stóðu nokkrar ungar portkonur og sem við höfðum fylgst með úr fjarlægð. Ég gekk að hverri einustu og færði eina rós. Síðan héldum við inn fyrir hliðin, gengum í gegnum litlu heimsfrægu götuna og hvar sem stúlka sást sitja í glugga að selja hið einasta sem hún átti til, gekk ég að glugganum og færði viðkomandi stúlku eina rauða rós. Við komumst í heilu lagi út hinum megin, gengum niður Davidstrasse og hélt ég uppteknum hætti, færði stúlkum rauðar rósir á bæði borð. Áfram var haldið út á Reeperbahn, í gegnum Eros Center og út á Grosse Freiheit dreifandi rósum og inn á Thailandskrána þar sem ég var orðin vel kunnug eigandanum sem tók okkur fagnandi og fékk restina af rósunum að launum.

Dagana á eftir komst ég rækilega að því að ég hafði gert alvarlega skyssu. Ég hafði vissulega losnað við áreiti stúlknanna sem voru að selja blíðu sína, en það tók bara annað við. Hvar sem ég kom eftir þetta heilsuðu stúlkurnar mér kumpánlega, rétt eins og ég hefði stundað mikil viðskipti á þessum slóðum.

Eftir þetta neyddist ég til að fara á aðra staði í Hamborg á frívöktunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli