fimmtudagur, maí 31, 2007

31. maí 2007 - ...og Akrafjallið geðbilað að sjá,

...söng Megas og síðar endurtók Bjöggi sönginn, en ég tók textanum bókstaflega og gekk á Akrafjallið í gær sem er náttúrulega algjör geðbilun.

Við Sigga J. héldum að Akrafjallinu skömmu fyrir hádegið og er við komum þar sem fjallgöngubiblía Ara Trausta sýndi upphafsstað göngunnar sá ég skilti merkt Rotarý og á stóð. Göngubrú yfir Berjadalsá. Brúin framundan var öllu veglegri en svo að kalla þyrfti hana göngubrú og ég ók yfir, fann góðan stað og lagði bílnum. Síðan var arkað af stað, hærra og hærra og farið eftir örmjóu einstigi.

Brátt hætti mér að lítast á blikuna og var þá tekin stefnan upp fjallið með hinum mestu erfiðismunum. Með því að taka hæfilega marga hvíldarstubba náðum við loks á toppinn þar sem kvittað var fyrir komunni í snyrtilega gestabók og síðan haldið austur eftir fjallinu. Síðan fikruðum við okkur niður með Jókubungu og niður í Berjadalinn, síðan vestur dalinn uns við komum að göngubrú vestarlega í dalnum, fórum þar yfir og fylgdum þar slóða sem þar lá niður af fjallinu. Þá komum við að sjálfsögðu aftur að skiltinu sem við sáum í upphafi og þóttumst vita að skiltið segði til um göngubrúna sem við höfðum farið yfir á leiðinni til baka.

Þessir heiðursmenn hjá Rótarý mættu alveg útskýra betur skiltin sín.

Eftir rúmlega fimm klukkustundir af svita og tárum komumst við loks aftur til byggða og buðum okkur í kaffi í Himnaríki til kaffi Gurríar. Þegar þangað var komið var Gurrí að sjálfsögðu að semja heilmikla spennusögu um svaðilfarir okkar, en varð að sjálfsögðu að stinga henni ofan í skúffu úr því við komumst heilar til baka af Akrafjalli.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/akrafjall-30-ma-2007-/

-----oOo-----

Loks fá aðstandendur Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls hennar. Megi minning hennar lifa með okkur um ókomna framtíð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli