föstudagur, maí 25, 2007

25. maí 2007 - Afsakið, en ég gleymdi einu!

Ég var á fundi eftir gönguferð þriðjudagskvöldsins og ég fór á fund strax eftir göngu miðvikudagskvöldsins. Því hefi ég ekki haft tíma til að lesa vel í gegnum nýjan stjórnarsáttmála. Samt, ég er hæfilega bjartsýn. Samtök eldri borgara hafa kveðið uppúr um ágæti sáttmálans. Sömu sögu er að segja um verkalýðshreyfinguna. Á ég að ganga gegn vilja þessa ágæta fólks og mótmæla? Nei takk.

Stundum þarf að hlusta á álit þeirra sem eru á móti til að skilja hvað er gott. Ónefndir trúarhópar vaða nú uppi í bræði vegna væntanlegrar heimildar til einstöku trúfélaga til að gifta samkynhneigða. Ég fagna þessu atriði. Nokkrir vinir mínir í hópi Framsóknarmanna hafa leitað eftir áliti mínu á nýju ríkisstjórninni og beðið þess að ég færi fram með yfirlýsingar sem ganga gegn fyrri yfirlýsingum mínum um betra samfélag. Mér sýnist nýja ríkisstjórnin komast ágætlega frá þessu, þá sérstaklega Jóhanna Sigurðardóttir. Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að henni hafi verið fagnað sem týndu dótturinni úr útlegðinni er hún tók við ráðherraembættinu sínu á fimmtudag. Hún er líka vel að því komin.

Það er alveg rétt að ég vildi kveða fastar að orði í stjórnarsáttmálanum varðandi Íraksstríðið. Um leið finnst mér nýja ríkisstjórnin komast sæmilega hjá því atriði með yfirlýsingu sinni um stríðið. Valgerður Sverrisdóttir hafði vissulega tekið sama pól í hæðina, en stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar virðist hafa verið ákaflega mjúk og ljóst að hægrimenn hafa vikið af hörðustu ofbeldisstefnu með þessari yfirlýsingu.

Ég ætla ekki að gefa nýrri ríkisstjórn grænt ljós að sinni. Ég vona samt hið besta og ætlast til að hún sýni bætt siðferði og jafnaðarstefnu á fyrstu hundrað og fimmtíu dögunum. Síðan skal ég gefa út álit mitt á henni. En ég krefst eindregins stuðnings við Mannréttindaskrifstofu Íslands á fyrstu hundrað dögunum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli