föstudagur, maí 11, 2007

11. maí 2007 - Engin stig frá Austur-Evrópu!

Þá getum við hætt að velta Júróvisjón fyrir okkur og snúið okkur að kosningum. Mér fannst þessi tilraun Eiríks Haukssonar nokkuð góð, að vísu ekki svo að maður fyndi fyrir þjóðrembu og köldu vatni milli skinns og hörunds, en samt. Þetta var góð tilraun.

Sum löndin sem komust áfram hljómuðu hræðilega að mínu mati. Varla hefur Georgía komist áfram út á rauða kjólinn. Þá hefði Selma Björns átt að komast mun lengra út á dansatriðið 2005. Þá má geta þess að rokklag Tékklands komst heldur ekki áfram og sömu söguna er að segja að framlagi Póllands þótt pólskir verkamenn finnist um alla Evrópu. Þess má geta að sex Austur-Evrópuþjóðir komust ekki áfram í lokakeppnina.

Eitt verður að hafa í huga varðandi þessa keppni. Fyrir flestum Vestur-Evrópubúum er Júróvisjón löngu orðin leiðinlegt sjónvarpsefni. Áhorfið er löngu orðið mjög lítið og höfðar orðið lítt til almennings. Það er öfugt meðal Íslendinga og Austur-Evrópubúa sem einungis hafa getað tekið þátt í þessari keppni í nokkur ár. Það er því eðlilegt að Austur-Evrópuþjóðir sitji að því að komast áfram í úrslitakeppnina ekki síst í ljósi þess að mikið hefur verið lagt í sum lögin til að koma þeim á framfæri í nágrannalöndum flytjendanna.


0 ummæli:Skrifa ummæli