sunnudagur, maí 13, 2007

13. maí 2007 - II - Af hverju tapaði Samfylkingin?

Við getum kallað það varnarsigur og við getum kallað kosningaúrslitin stórsigur ef skoðanakannanir undanfarinna mánaða eru skoðaðar. Ég kýs að kalla úrslitin áfall fyrir Samfylkinguna. Því miður.

Ríkisstjórnin hélt velli og Samfylkingin tapaði fylgi, bæði hlutfallslegu fylgi sem og þingsætum. Slíkt get ég ekki kallað varnarsigur. Rétt eins og þegar lélegt fótboltalið tapar með eins marks mun gegn sterku fótboltaliði, þá tapar lélega liðið en vinnur engan varnarsigur. Slíkt er aðeins blekkingarleikur og til þess fallið að slá ryki í augu þess sem heldur slíku fram. Ég held því að nauðsynlegt sé að fara í naflaskoðun og athuga hvað fór úrskeiðis í hinni pólitísku baráttu.

Málefnastaða Samfylkingarinnar var góð. Það hefði mátt setja hana fram með skýrari og mun afdráttarlausari hætti, en góð samt. Kosningabaráttan var frábær. Frambjóðendur og stuðningsfólk lögðu mikið á sig til að tryggja Samfylkingunni atkvæðin og áttu flest heiður skilið fyrir baráttudugnað. Rósirnar og gangan í hús með rósir bættu mjög álitið á Samfylkingunni. Sömu sögu má segja um önnur lítil atriði eins og gleraugnaklútana sem mæltust almennt vel fyrir. Hinsvegar var mikill fjöldi mismunandi bæklinga um sama efnið dálítið ruglingslegur og hefði mátt samræma betur útgáfustarfsemina.

Það sem ég tel að hafi gert útslagið um fylgistap Samfylkingarinnar var prófkjörið! Ég vil ekki kasta rýrð á einstöku frambjóðendur, en það er ljóst að tapið í hinu áður sterka Suðurkjördæmi er mikið því að kenna að karlar sátu í þremur efstu sætunum, tveimur efstu sætunum í Norðausturkjördæmi og tveimur efstu sætunum í Norðvesturkjördæmi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra hjá stjórnmálaflokki sem berst fyrir jafnrétti kynjanna, enda heyrðist fljótlega eftir prófkjörið af konum sem færðu sig yfir til vinstrigrænna og greiddu þeim atkvæði sín í kosningunum. Þá heyrðist og af frambjóðendum annarra flokka sem kusu í prófkjöri hjá Samfylkingunni.

Samfylkingin verður að hætta að ljúga að sjálfri sér og reyna að læra af tapinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli