mánudagur, maí 07, 2007

7. maí 2007 - Tveir tómir skólar, Þorsteinn Már?

Á laugardag hafði Stöð 2 eftir Þorsteini Má Baldvinssyni að hann vildi koma á menntun fyrir stýrimenn og vélstjóra á farskip á Akureyri og þá með það í huga að manna erlend stórskip með íslenskum yfirmönnum. Hann benti meðal annars á að um 1000 Færeyingar séu við störf á slíkum skipum út um allan heim, á skemmtiferðaskipum, tankskipum og gámaskipum.

Ég fór að velta fyrir mér þessari hugmynd hans. Slíkur skóli er til á Íslandi, reyndar í Reykjavík en ekki á Akureyri og heitir Fjöltækniskóli Íslands. Vandamálið við þann skóla er að ekki fást margir nemendur til að stunda nám við skólann. Ég get ekki séð að íslenskir nemendur þyrpist frekar til Akureyrar til náms.

Á undanförnum áratugum hefur verið unnið farsællega að því að útrýma íslenskri farmannastétt með þeim árangri að einungis sjö skip í millilandasiglingum eru með íslenskum áhöfnum í dag, öll undir erlendum fánum. Hvar á þá að þjálfa upp þessar þúsundir farmanna til starfa? Ekki verða þeir þjálfaðir á togurum, svo mikið er víst, enda störfin að mörgu leyti ólík.

Til hafa verið Íslendingar sem stundað hafa farmennsku á erlendum skipum um langt skeið og eru enn. Einhverjir stunda störf á skemmtiferðaskipum, sbr Þórð vin minn og göngufélaga, aðrir á hinum ýmsu skipum. Lengi vel voru ákveðnar hindranir í veginum, t.d. þær að íslensk yfirvöld þrjóskuðust við að skrifa undir alþjóðlega samninga sem gæfu íslenskum farmönnum réttindi til starfa á erlendum skipum. Nú hafa þessi sömu yfirvöld afmáð íslenskan farskipastól af kortinu. Þá má minnast þess er margir tugir nemenda útskrifuðust frá Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólanum í Reykjavík á hverju ári. Stór hluti þessara nemenda er nú kominn á miðjan aldur og vandamálin með mönnun íslenskra fiskiskipa bíða handan við hornið. Það fást sárafáir menn til að setjast í þessa skóla í dag.

Ég held að Þorsteinn Már Baldvinsson verði að koma með aðrar lausnir á vandamálum farmennskunnar en þeim að stofna nýjan sjómannaskóla á Akureyri.

http://www.visir.is/article/20070505/FRETTIR01/70505043

Sjá og um ástandið í menntunarmálum vélstjórnar:

http://www.visir.is/article/20070507/FRETTIR01/105070082/-1/frontpage


0 ummæli:Skrifa ummæli