þriðjudagur, maí 08, 2007

8. maí 2007 - Nú kom vel á vonda

Það er kominn tími til að hætta monta mig með gömlum meira og minna ýktum sjóarasögum. Í gær var tækifærið gripið og þar sem ég hafði sjálf miklað mig af dreifingu á rauðum rósum á fyrri árum, þótti bara sjálfsagt og eðlilegt að ég tæki þátt í að ganga í hús og dreifa rauðum rósum til reykvískra húsmæðra og maka þeirra. Því fékk ég það veigamikla hlutverk að ganga með Helga Hjörvar í hús og dreifa rauðum rósum í nafni Samfylkingarinnar.

Þetta var skemmtilegt en dálítið kalsasamt hlutverk enda vart nema gluggaveður ennþá. Víðast hvar þar sem fólk var heima, var vel tekið á móti okkur. Einhverjir harðneituðu að taka við rósum, þá aðallega karlmenn og einn sagðist ekki vilja rósir frá þessum kommúnistum. Ég nennti ekki að rökræða við hann, en yljaði mér þess betur við þakkarorðin sem ég fékk frá fjölda kvenna og karla í hverfinu sem ég gekk með rósir í. Einhvernveginn fékk ég á tilfinninguna að ein rauð rós geri meira gagn en þúsund orð.

Kannski ætti Íslandshreyfingin að herma þetta eftir okkur og ganga með hvönn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð með túnfífil í hús sbr Miljöpartiet í Svíþjóð. Ég er samt ekki alveg viss um að það sé rétta aðferðin til að ná hylli fólks.


0 ummæli:Skrifa ummæli