mánudagur, maí 14, 2007

14. maí 2007 - Er sagan nokkuð að endurtaka sig?

Þegar ég fletti Laugardalsættinni sem vinur minn Sigurður Hermundarson tók saman og bókaútgáfan Hólar gaf út á síðasta hausti fæ ég á tilfinninguna að hér sé um mikla Framsóknarætt að ræða. Fáa vil ég þó nefna af Framsóknarmönnum sem ég hefi séð bregða fyrir í bókunum, en einn er þó áberandi, þungbrýndur, skeggjaður og útitekinn rétt eins og væri hann nýkominn inn úr fjárhúsum ríkisstjórnarinnar. Jón heitir maðurinn Sigurðsson og fæddur í Kollafirði í Kjalarneshreppi. Þrátt fyrir uppruna hans verð ég að neita nánum skyldleika við hann öðrum en þeim að hann er eins og ég og hinn fjarskyldi ættingi minn Björn Bjarnason, vindþurrkaður og veðurbarinn.

Fyrir kosningar kom hver Framsóknarmaðurinn á fætur öðrum fram í sviðsljósið og lýsti efasemdum sínum um áframhald ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ef úrslit kosninganna yrðu í samræmi við skoðanakannanir. Nú er fylgishrunið orðið að staðreynd og flokkurinn missti fimm þingmenn og þurrkaðist út í Reykjavíkurkjördæmum. Þetta þýðir um leið að formaður Framsóknarflokksins og iðnaðarráðherra sem og umhverfisráðherra hafa ekki einu sinni möguleika á að leysa af á Alþingi næstu fjögur árin.

Formaðurinn er strax farinn að draga í land. Bíð ég þess nú að hinir þingmennirnir dragi einnig í land yfirlýsingar sínar svo hægt verði að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Það er ekkert mál að gera slíkt. Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz geta haldið áfram að gegna ráðherraembættum sínum þótt þau séu utanþings, en þingflokkar þeirra og Sjálfstæðisflokks munu halda áfram að verja þau falli.

Til að tryggja sér áfram feit embætti í krafti setu í ríkisstjórn mun Framsóknarflokkurinn samþykkja allar kröfur Sjálfstæðisflokksins gegn því að halda lítt breyttum áhrifastöðum, en fallnir þingmenn flokksins eins og Guðjón Ólafur fá feitar stöður hjá hinu opinbera rétt eins og Óskar Bergsson í fyrra þegar Framsóknarflokkurinn missti mann úr borgarstjórn með því að R-listinn lagði upp laupana.

http://velstyran.blogspot.com/2006/05/30-ma-2006-skjta-fyrst-og-spyrja-svo.html

Ég vona bara þjóðarinnar vegna, að meirihluti Framsóknarmanna muni hafa vit fyrir formanni sínum og draga sig í hlé frá ríksstjórn næstu fjögur árin.


0 ummæli:







Skrifa ummæli