föstudagur, maí 04, 2007

4. maí 2007 - Dómur er fallinn eða hvað?

Á fimmtudagsmorguninn heyrði ég í útvarpinu að bein útsending yrði í sjónvarpsrásunum í tilefni þess að fella ætti dóm í Baugsmálinu klukkan 12.00. Ég geispaði, hélt áfram að dunda mér við að hafa mig til og hélt síðan út í stutta gönguferð í vinnuna.

Í vinnunni talaði enginn um nýjustu tíðindi af Baugsmálinu. Ekki heldur í matartímanum. Í fundarsalnum var verið að kynna Frjálslynda flokkinn í aðdraganda kosninga og ég mætti á mánaðarfund klukkan 13.00. Þetta var góður fundur og enginn sagði eitt einasta orð um nýjustu mútur Jóns Gerald Söllenberger eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður og vinur annars mútuþega sem finnst vínber góð á bragðið. Ekki var heldur sagt neitt um nýjustu fréttir af Baugsmálum en þess meira rætt um áhugaverðari þætti mannlífsins eins og þrýsting og hitastig á heitu vatni. Enginn hafði neinar áhyggjur af stórfrétt dagsins að mati fjölmiðlanna.

Ég hefi það á tilfinningunni að Baugsmálið sé enn meira flopp fyrir fjölmiðlana en nokkru sinni saksóknaraembættið. Í fjölmiðlum er látið eins og að Baugsmálið sé mál málanna þótt almenningur sé löngu búinn að upp í kok af málinu. Að auki er málinu ekki lokið og vitað fyrirfram að hverjar sem niðurstöður yrðu í héraðsdómi, myndi málið halda áfram upp í Hæstarétt. Dómurinn í héraðsdómi var fyrir bragðið einungis eins og sýndarmennska fyrir fjölmiðla sem halda að hinn algildi sannleikur hafi verið birtur í gamla dómhúsinu við Lækjartorg.


0 ummæli:Skrifa ummæli