fimmtudagur, júlí 19, 2012

19. júlí 2012 - Að skreppa til sjós í sumarleyfinu


DV segir frá því miðvikudaginn 18. júlí að Kristján Þór Júlíusson alþingismaður sé búinn að ráða sig á nótaskipið Vilhelm Þorsteinsson í sumarleyfinu sínu.  Í umsögnum á Facebook um þessa „ekkifrétt“ eru honum ekki vandaðar kveðjurnar þó að ein og ein hjáróma rödd sjái hið jákvæða í að maðurinn skreppi til sjós. Þess ber þó að geta að Kristján lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum árið 1978 sem segir mér að hann hafi stundað sjó fyrir þann tíma og vafalaust einnig um sinn eftir nám í skólanum.

Ég rifja upp sumarið 1975 þegar Garðar Sigurðsson heitinn og þáverandi alþingismaður Alþýðubandalagsins í Suðurlandskjördæmi réði sig til okkar á hana Vestmannaey, því rétt eins og Kristján Þór Júlíusson var hann gamall sjómaður og lærður stýrimaður. Garðari var vel fagnað um borð í Vestmannaey og var hann hörkuduglegur sjómaður og dró ekkert af sér í vinnu, þurfti að deila káetu með öðrum háseta og deildi kjörum með áhöfninni þetta sumar.

Ég efa ekki að Kristján Þór Júlíusson standi sig vel um borð í Vilhelm Þorsteinssyni rétt eins og í öðrum störfum sínum. Um leið er full ástæða til að vekja athygli á kjörum alþingismanna sem eru ekkert sérstök. Ég kynnti mér þau ágætlega þegar ég bauð mig fram til stjórnlagaþings um árið enda voru launin fyrir setu á stjórnlagaþingi miðuð við þingfararkaup.  Satt best að segja hefði ég lækkað í heildarlaunum hefði ég komist að á Stjórnlagaþingi. Vissulega hafa alþingismenn allskyns aukasporslur auk grunnlauna, frían síma, búsetuuppbót, uppbót fyrir setu í sumum nefndum og fleira sem mér hefði ekki staðið til boða, en það er samt ekkert til að fjargviðrast yfir og þá er ekki ónýtt að komast í gott skipspláss til að drýgja tekjurnar og viðhalda æfingunni um leið. Það mættu fleiri alþingismenn sýna af sér þá þjóðhollustu að vinna á plani í fríium og kynna sér þannig raunveruleg kjör verkalýðsins með því að taka þátt í störfum hans.

Sjálf hefi ég reynt að fara á sjó í sumarleyfum undanfarin ár, en það er við ramman reip að draga. Á fimm ára fresti þarf ég að kosta fleiri hundruð þúsund til að viðhalda alþjóðaréttindum mínum sem yfirvélstjóri og hefi því tæplega efni á að fara í lélegt skipspláss eina ferð á ári eða annað hvert ár. Þá er nú gott að geta gengið að góðu plássi vísu eins og Kristján Þór Júlíusson hefur hjá Samherja. Ef einhver skyldi lesa þetta er ég laus eftir þjóðhátíð, þ.e. 5. ágúst og þar til í byrjun september!

http://www.dv.is/folk/2012/7/18/kristjan-sjoinn-betri-samstarfsvilji-thar-en-althingi/?fb_comment_id=fbc_10151017715554098_23009217_10151018018819098#f3b7e88f7c0ef9

laugardagur, júlí 07, 2012

7. júlí 2012 - Hulin augu


Árið var 1961. Það var hörkuspennandi leikrit í gangi í útvarpinu og við krakkarnir gátum ekki slitið okkur frá útvarpinu. Þegar ógnin steðjaði að fylgdi ógnvekjandi hljóð frá útvarpstækinu sem endaði með harmleik. Þetta var algjör hryllingur og ekki datt neinum til hugar að slökkva á lampatækinu á barnaheimilinu þar sem ég ólst upp.

Svo lauk útvarpsleikritinu Hulin augu í útvarpinu og man ég ekki betur en að Lorna Doone hafi verið næsta útvarpsleikrit á eftir. Lorna Doone var spennandi, en hún olli ekki sömu hræðilegu myrkfælninni og Hulin augu höfðu gert nokkru áður.

Meira en hálfri öld síðar eru Hulin augu tekin aftur til sýninga á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu. Eftir öll þessi ár veit ég að ég mun ekki verða myrkfælin af að hlusta á Hulin augu öðru sinni, en ég ætla samt að hlusta!