fimmtudagur, júlí 31, 2008

31. júlí 2008 - Ást á rauðu ljósi


Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar komu út tvær bækur sem hétu Ást til sölu og Ást á rauðu ljósi. Þessar bækur þóttu klúrar á þeirra tíma mælikvarða og gjarnan lesnar á bak við lokaðar dyr og harkalega gagnrýndar af Freymóðskum Sóleyjum þess tíma þótt vafalaust þættu ástarlýsingarnar broslegar og teprulegar í nútíma þjóðfélagi.

Þegar höfð er í huga gagnrýni Feministafélagsins á nýtt lag Baggalúts þótt ekki megi minnast á Þórsmerkurljóð í sama vettvangi, þá er spurningin hvort ekki sé ástæða fyrir Sóleyju og Katrínu og allar hinar félagskonurnar að fjölkvenna norður til að gæta siðferðisins á rauðu ljósi á Akureyri.

http://www.akureyri.is/frettir/nr/11894

miðvikudagur, júlí 30, 2008

30. júlí 2008 - Borgin, það er ég!

Sagt var um Loðvík 14 að sjálfsálitið hafi verið slíkt að hann lét sem sólin snérist um sig. Því fékk hann viðurnefnið sólkonungurinn. Ekki veit ég nákvæmt sannleiksgildi þeirra orða né heldur um þá setningu sem eftir honum er höfð, þ.e. „Ríkið, það er ég“

Nú hefur snjall bloggari séð samhengið á milli hans og blörraðs borgarstjóra eftir nýjustu einræðistilburði hans. Það sem er þó grátlegast er að oddviti samstarfsflokksins er ekki aðeins farin að tala um nítjándu aldar Laugaveginn eins og hann hefði verið þarna um aldur alda, heldur er hún farin að tala um manninn sem flokk, sbr útvarpsviðtal þar sem hún minnti á afskiptaleysi sitt af samstarfsflokknum , en þar mun hún hafa átt við hinn óháða Ólaf F(jórtánda).

mánudagur, júlí 28, 2008

29. júlí 2008 - Heimur versnandi fer ........alveg satt!

Mánudagsmorguninn rann upp á mánudagsmorguninn, þungur og erfiður. Sumarfríinu mínu var lokið. Það var því ekkert annað að gera en eð hysja upp um sig buxurnar og mæta í vinnuna.

Veðrið þennan fyrsta vinnudag í sex vikur var í samræmi við skapið. Það rigndi.

Svo hrundi Moggabloggið öllum blogspotturum nema mér til mikillar ánægju og ég sem hafði einmitt sett inn þessa fínu færslu sem móðgaði andlegan leiðtoga hins hákristna samfélags kaþólskra á Íslandi.

Ofan á allt saman bættist við mikið andleysi mitt fyrsta vinnudaginn og því er ég jafn fámál og raun ber vitni.

sunnudagur, júlí 27, 2008

28. júlí 2008 - Úr stefnuskrá Kristilega lýðræðisflokksins!

Það hafa margir hneykslast mjög á orðum bloggara sem hafa farið offari gagnvart leiðréttingu á kyni síðustu dagana, svo rækilega að nálgast hatur. En er þessi skoðun bundin við bloggið?

Kristilega lýðræðishreyfingin bauð fram við kosningarnar 1995 og hlaut þá 316 atkvæði. Hún bauð aftur fram fjórum árum síðar undir nafni Kristilega lýðræðisflokksins og hlaut þá 441 atkvæði. Baráttumálin voru að mestu hin sömu við báðar kosningar, en hér koma nokkrir áhugaverðir bitar úr stefnuskránni eins og hún birtist fyrir kosningarnar 1999.

Flokkurinn leggur áherslu á að kristinfræði og Biblíusögur verði kenndar í öllum bekkjum grunnskóla a.m.k. tvær kennslustundir í viku hverri undir handleiðslu kristinna kennara sem til þess hafa þekkingu.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill afnema lög sem leyfa fóstureyðingar þar sem fóstureyðing er manndráp. En lítur á það sem réttlætismál að hvert barn fái að fæðast og alast upp hjá foreldrum sínum.

Flokkurinn mun sporna gegn lagasetningu í þá veru að skylda grunnskólann til að kenna að óeðli kynvillunnar sé jafn eðlilegt og sjálfsagt og það eðli sem Guð hefur áskapað hverjum karlmanni og hverri konu. Flokkurinn mun standa vörð um rétt allra til að kvænast og giftast, en stefnir að afnámi laga um staðfesta sambúð fólks af sama kyni og bendir á þá staðreynd að hjónaband er ekki til nema milli karls og konu.Trúin á Jesú Krist er leiðin til hjálpar kynvilltu fólki út úr villu sinni.

Flokkurinn vill alfarið banna læknisaðgerðir í því skyni að skipta um kyn á fólki enda eru þær til þess eins fallnar að gera fólk örkumla. Guð skapaði manninn karl og konu, honum skjátlaðist ekki um nokkurn mann. Lifandi kirkja Jesú Krists er sú hjálp sem fólk þarfnast sem haldið er þeim villuanda að vilja skipta um kyn.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill standa að rammalöggjöf í anda kristinnar siðfræði sem ýmist heimilar eða bannar: Sjónvaprsefni, myndbönd, tölvuleiki, spil, hljóðsnældur og prentað efni. Í sama anda vill flokkurinn að áfengislöggjöfin verði endurskoðuð.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill að þekkingin á Biblíunni, Guðs orði, sé undirstaða undir aðra menntun í þjóðfélaginu

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill að Íslendingar hafi náið samstarf við sem flestar þjóðir heims, en nefnir sérstaklega Ísraelsríki og nágrannaþjóðirnar.

Krafan um bann við læknisaðgerðum til leiðréttinga á kyni var fyrst birt í grein í Morgunblaðinu 21. mars 1995. Á þeim tíma hafði aldrei verið framkvæmd aðgerð til leiðréttingar á kyni á Íslandi. Þessi dagsetning er mér þó mjög hugleikin því þennan sama dag gekk ég fyrir Rättsliga rådet hjá Socialstyrelsen í Stokkhólmi og fékk þar endanlega samþykkt að leggjast undir hnífinn og fá aðgerð framkvæmda og var hún síðan framkvæmd rúmum mánuði síðar, þann 24. apríl 1995.

Þrátt fyrir pistla Jóns Vals gegn mér og mínum síðustu dagana, þá er ég uppfull af kristilegum kærleika og þykir jafnvel obbolítið vænt um karlkvölina.

27. júlí 2008 - Margur heldur mig sig!

Í gamla daga þótti ég nokkuð fordómafull út í samkynhneigða, ekkert rosalega æst gegn þeim, hegðaði mér fremur eins og íslenska þjóðin, kaus að hallmæla þeim. Ekki var það vegna þess að ég hefði neitt á móti samkynhneigðum eða öðrum „queer“ hópum, heldur var ég fyrst og fremst að fela mínar eigin hneigðir og þarfir í lífinu. Svo kom ég útúr skápnum hægt og bítandi, eitt lítið skref í einu og sté varlega til jarðar. Ef einhver reyndi að bíta í naglalakkaða stóru tána á mér ef ég fór of langt, kippti ég tánni til baka og gerði nýja tilraun við betra tækifæri.

Ég var ekki ein um fordómana. Þeir virtust frekar algengir hjá fólki sem var að fela kenndir sínar. Ég man eftir einum manni sem bölvaði hommum í sand og ösku í hvert sinn sem þeir bárust í tal. Síðar frétti ég að hann hafði aðrar kenndir sem flokkuðust með sjálfsmeiðingarhvöt þótt ekki væri hann hommi. Rétt eins og ég var að fela mínar kenndir með fordómum, var þessi maður að fela sínar kenndir með því að þykjast vera eitthvað annað en hann var í rauninni með fordómum í garð samkynhneigðra.

Þessa dagana geysist hvert gáfumennið á fætur öðru út á ritvöllinn og oft í Guðs nafni finnur það allt að því fólki sem þráir að fá leiðréttingu á kyni sínu. Ekki ætla ég að gerast svo djörf að ætla þessum bréfriturum að þeir séu að fela eitthvað með fordómafullri hegðun sinni, en það kæmi mér ekkert á óvart þótt í þeim hópi leyndist eins og ein og ein samkynhneigð persóna eða með hlutadýrkun, eða bara með saklausan latexfetisma í felum. Það er ekki einu sinni hægt að benda á bókstafi Biblíunnar til réttlætingar orðum þessa fólks heldur verður þetta fólk að beita túlkunum af sama toga og það fordæmir þjóna þjóðkirkjunnar fyrir, til að finna fordómum sínum stað með orðum.

Fyrir þá sem þverskallast við að nota starfsheitið vélstýra um mig, vil ég benda þeim hinum sama á að mitt opinbera starfsheiti er vélfræðingur og ef hann vill endilega lýsa yfir andúð sinni á mér, verð ég að krefjast þess af honum að hann noti mitt rétta starfsheiti, rétt eins og vélfræðingurinn faðir hans gerði um sjálfan sig. Og hananú!

laugardagur, júlí 26, 2008

26. júlí 2008 - Hámark 670 dagar eftir af borgarstjórnartíð þess blörraða

Eftir síðustu Alþingiskosningar stóð þáverandi þingmeirihluti svo tæpt að það var talið óráðlegt að leggja út í heilt kjörtímabil með tæpum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hver einstakur þingmaður gat keyrt sín óskamál í gegnum Alþingi með hótunum um að fella ríkisstjórnina, t.d. ef ekki yrðu boruð göng til Vestmannaeyja, eða þá ef breytt yrði styrkjakerfi landbúnaðarins. Því var ákveðið að freista þess að mynda styrkari þingmeirihluta sem á endanum varð meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Öfugt við þingflokk Sjálfstæðisflokks á Alþingi, ákvað borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að taka áhættuna. Á þessum sex mánuðum sem þeim hefur verið stjórnað af blörruðum borgarstjóra, hafa þeir orðið að láta í minnipokann í hverju málinu á fætur öðru, Vatnsmýrarflugvelli og skipulagi Vatnsmýrarsvæðisins, kaupum og endurbyggingu ónýtra fúaspýtna við Laugaveg, Bitruvirkjun, einkavinavæðingu og fleiru.

Nú síðast setti sá blörraði sig upp á móti hugmyndum um Listaháskólann við Laugaveg og viðbúið að hann fái fullan stuðning borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í málinu. Þessi sami borgarstjórnarflokkur gerir sér samt enga grein fyrir spilverki þess blörraða.

Sá blörraði hefur margsinnis lýst því yfir að hann vilji varðveita nítjándu aldar götumynd Laugavegarins. Á nítjándu öld voru aðallega tún austan við Bakarabrekkuna og svo einn og einn torfbær. Það þýðir að ætlun þess blörraða er að setja jarðýtur á Laugaveginn. Þá verður auðvitað ekkert pláss fyrir Listaháskóla á engjum Ólafs bónda í Víkurkaupstað.

Sveiattan. Ég held að það sé einfaldast að slá öllum framkvæmdum á frest í 670 daga eða uns við losnum við þann blörraða úr borgarstjórn, svo Reykjavík verði ekki gerð að úthverfi frá Kópavogi undir hans stjórn.

föstudagur, júlí 25, 2008

25. júlí 2008 - Snillingar á ferð

Fyrir rúmum tveimur árum, eftir að hafa staðið upp á endann í samtals fjóra tíma á tónleikum Rogers Waters, sór ég þess eið að fara aldrei aftur á tónleika þar sem ég þyrfti að standa upp á endann í fleiri klukkutíma og hafa ekkert til að styðja mig við annað en svitalyktina af náunganum við hliðina á mér.

Ég fór á tónleika á fimmtudagskvöldið. Hafði samþykkt að fara með vinkonu minni á tónleika hinna kúbversku Buena Vista Social Club í Voðafónshöllinni sem stendur nokkurn veginn á sama stað og Valsheimilið stóð í eina tíð. Með því að vera komin á staðinn áður en húsið opnaði, tókst okkur að ryðja okkur leið og fengum sæti á albesta stað í stúkunni í troðfullri Voðafónshöllinni. Þar hreykti ég mér hátt og horfði yfirlætislega niður á lýðinn sem stóð á gólfinu og hafði ekkert til að halda sér í annað en svitalyktina af náunganum við hliðina á sér. Meðalaldur tónleikagesta var hár og álitamál hvort ekki væri betra að selja aðeins aðeins færri miða en fjölga sætum í þess stað.

Það voru engin unglömb sem skemmtu sjálfum sér og öðrum á tónleikunum. Þó gat ég ekki annað en hrifist með þeim og þá sérstaklega Orlando „Cachaito“ López sem þurfti að hjálpa inn á sviðið og af því aftur að tónleikunum loknum.

Takk fyrir snilldarlega tónleika Buena Vista Social Club

fimmtudagur, júlí 24, 2008

24. júlí 2008 - Um öryggismál á sjó og í álverum

Rétt áður ellefu; í þetta sinn tuttuguogníu – við sjáum myndir þeirra í blöðunum; úngir glaðir hraustir menn, kjarni þjóðarinnar. Ef við lítum á skýrslur um skipatjón síðustu ára kemur í ljós hvernig mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust einsog ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurskonar sjálfsagður skattur sem þjóðin greiðir útgerðinni, í hæsta lagi að einhverjar viðkvæmar landkindur tala um “fórnir” eins og það væri einhver háheilög mannblót að drepa þannig fólkið, og guðfræðingar fara á stúfana í blöðum og kirkjum og segja “þeir hafa hreinan skjöld”, rétt eins og einhversstaðar væru einhverjir sem álitu þetta glæpamenn. Síðan þegja allir þángað til næstu handfylli af úngum glöðum hraustum mönnum er kastað niður til fiskanna. Hvenær lýkur þessari morðöld!

Þessi orð Halldórs Laxness voru samin árið 1944 og endurprentuð í sjómannablaðinu Víking rúmum 40 árum síðar. Þá var enn verið að drekkja sonum íslensku þjóðarinnar.

Þegar ég skrifaði pistilinn Álframleiðsla er vinnuvernd var mér snarlega svarað hæðnislega af einum áhangenda Seifing Æsland með því að kalla orð mín þrætubókarlist. Fyrir fólk sem hefur starfað á sjó í áratugi og og lent í ýmsu á sjó getur slíkt verið sem blautur sjóvettlingur í andlitið. Þetta var engin þrætubókarlist. Þetta var fúlasta alvara!

Þegar ég hóf störf á sjó árið 1966 voru líkurnar fyrir því að lifa af sjómennsku sem ævistarf fram að 65 ára aldri nálægt því að vera einn á móti einum að deyja af slysförum á sjó og þá miðað við dánartölurnar frá lokum seinni heimsstyrjaldar og næstu þrjátíu árin þar á eftir. Sum árin voru góð, önnur slæm eins og 1959 þegar drukknaðir Íslendingar voru nærri sex tugir. Líkurnar fyrir því að slasast á sjó voru einn á móti einum fyrir hver tíu ár sem ég yrði á sjó.

Ég var heppin, enda var ég einungis rúma tvo áratugi á sjó og slasaðist bara einu sinni og einungis þrjá mánuði frá vinnu. Þegar ég fékk gilsinn í hausinn þegar ég var 16 ára losnaði ég við hausverkinn eftir nokkra klukkutíma og þegar allt fór á bólakaf þegar ég var 17 ára, náði báturinn að rífa af sér brotsjóinn og einungis kokkurinn slasaðist þótt ýmislegt brotnaði af yfirbyggingunni. Það er þó mest um vert að ég lifði af sjómennskuna. Það gerðu ekki allir sem ég starfaði með á sjó. Á hverju ári fórust einhverjir tugir á sjó eða við sjó.

Á hverri vertíð voru einhverir að slíta af sér handleggi í netaspilum og lengi vel var ekkert gert til að fyrirbyggja að slíkt gæti átt sér stað, reyndar ekki fyrr en komið var fram á áttunda áratuginn. Hjálmar voru óþekktir á sjó. Fyrstu flotgallarnir komu um borð í íslensk skip um 1984, en krafa um flotbúninga ekki gerð fyrr en eftir Suðurlandsslysið á aðfangadagskvöld jóla 1986. Þegar skip fórst var enginn dreginn til ábyrgðar, kannski þá helst skipstjórinn ef hann lifði þá af slysið.

Góður kunningi minn var skipstjóri á flutningaskipi. Honum leist illa á veðurútlitið og tilkynnti það til skrifstofunnar. Þar var honum tjáð að ef hann þyrði ekki að fara með skipið út, yrði annar skipstjóri sendur út til að sigla skipinu. Því fór kunningi minn af stað með skipið. Skipið fórst en áhöfninni bjargað með naumindum. Kunningi minn fékk reisupassann.

Ekki man ég nákvæmlega hvenær Rannsóknarnefnd sjóslysa tók til starfa. Mig minnir þó að það hafi verið um 1974, í byrjun undir framkvæmdastjórn Þórhalls Hálfdánarsonar skipstjóra, jú þess hins sama sem hafði áður stjórnað drengjaheimili með heraga. Þórhallur vann mikið og gott uppbyggingarstarf og síðar tók Kristján Guðmundsson skipstjóri við keflinu þegar Þórhallur fór á eftirlaun. Vandamálið með Rannsóknarnefnd sjóslysa á þessum árum var að nefndin hafði ekkert vald og veit ég ekki til að það hafi breyst neitt. Fólk má alveg leiðrétta mig ef það hefur breyst. Um leið verður að viðurkennast að með stofnun nefndarinnar var stigið fyrsta skrefið í að nútímavæða öryggismál sjómanna.

Það var svo með tilkomu flotbúninganna og Slysavarnarskóla sjómanna sem farið var að taka málin alvarlega og alvarlegum slysum á sjó tók að fækka að einhverju ráði. Það er þó ekki nóg að gert og sjálfsagt að veita Rannsóknarnefnd sjóslysa og yfirvöldum meiri völd í þeim tilfellum sem eitthvað er áfátt í slysavörnum á sjó.

Sjómennska hefur verið stunduð á Íslandsmiðum í þúsund ár, álvinnsla í einungis 39 ár. Þrátt fyrir það er löngu kominn tími til að yfirvöld læri af álverunum og beiti öryggiskröfum þeirra til hagsmuna fyrir sjómenn þessa lands. Svo geri ég þá kröfu til álversandstæðinganna að þeir noti vitið og hætti að hæðast að hinum lofsamlegu öryggiskröfum álvera þessa lands, þakki þeim frekar fyrir að vilja skila starfsfólkinu heilu heim að lokinni vaktinni í kerskálanum.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

23. júlí 2008 - Ostagerð er hergagnaiðnaður, eða hvað?

Áður en ég lýk umfjöllun minni um ál, langar mig til að svara nokkrum gagnrýnisröddum á orð mín um álframleiðslu og þá fyrst og fremst um neikvæðasta bullið í þeim efnum. Þar vil ég byrja á að fjalla um orð Evu Hauksdóttur og Jóns Steinars Ragnarssonar um álframleiðsluna sem þau ásamt Seifing Æsland vilja kenna við hergagnaiðnað.

Það er hægt að nota ótrúlegustu hluti í hernaði, þar má nefna ál og þar má einnig nefna ost. Þegar hermaðurinn vaknar að morgni fær hann sér gjarnan staðfastan og góðan morgunmat svo hann verði frekar hæfur til að fara út og drepa fólk. Hann fær sér morgunkorn með mjólk og brauð með osti, því eins og Osta- og smjörsalan hefur svo rækilega minnt okkur á með skemmtilegum hætti í auglýsingum sínum, þá gefur osturinn okkur kraft til að vinna afrek, reyndar líka óhæfuverk, í lífinu. Semsagt, ostagerð er hergagnaframleiðsla.

Seifing Æsland hafa mótmælt hergagnaframleiðslu Orkuveitunnar við höfuðstöðvar hennar, þ.e. framleiðslu á rafmagni. Því er sjálfsagt að minna þá á að vestan við Orkuveituna eru höfuðstöðvar hergagnaframleiðandans Osta- og smjörsölunnar. Austan við Orkuveituna er svo annar hergagnaframleiðandi, Vífilfell hf (fjallið heitir Vífilsfell) sem framleiðir kók, en á myndum sem sýndar eru frá herbúðum hermanna í Írak, eru þeir drekkandi kók í tíma og ótíma, semsagt annar hergagnaframleiðandi. Þessu til viðbótar má þess geta að amrískir herforingjar eru ekkert hrifnir af áli. Þeir vilja stál í Hömmerana sína og skriðdrekana og myndu gjarnan hafa stál í flugvélunum líka ef það væri mögulegt.

Ég legg til að Jón Steinar og Eva Hauksdóttir ásamt þessu Seifing Æsland liði hætti að rugla eilíflega um áliðnaðinn sem hergagnaiðnað og reyni að koma sér niður á jörðina.Varðandi orð Jóns Steinars um að álverð fari eftir hernaði, þá er það álíka gáfulegt og mótmæli hans gegn góðri leiðni áls. Staðreyndin er sú að með hækkuðu heimsmarkaðsverði á olíu, aukast kröfurnar um léttari málma í farartæki og þá sérstaklega áls.

Unnsteinn bendir á að notkun plasts í flugvélum sé sífellt að aukast. Í nýjustu flugvélum, t.d. Dreamliner er talsvert um koltrefjaefni sem er enn léttara en ál í byrðing, en þar með er ekki sagt að það ryðji áli í burtu nema að hluta enda er grind flugvélarinnar áfram úr áli Þá er koltrefjaefni þegar komið sem byrðingur í kappakstursbíla sem sést ágætlega á því að verð eins kappakstursbíls í Formúlu 1 hleypur á mörgum tugum milljóna. Það er samt heilmikið ál í þeim bílum.

Eva Hauksdóttir heldur því fram að Alcoa fremji mannréttindabrot í Mexíkó. Það er ljótt mál. Flytjum framleiðslu þeirra frá Mexíkó til Íslands og losum þá þannig við þá áþján að fremja mannréttindabrot í Mexíkó. Við skulum taka fagnandi á móti þeim og bjóðum þeim að vera hér án mannréttindabrota.

Sumt fólk hefur bent mér á að ekki sé gott að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ég get alveg tekið undir það. Við brenndum okkur á því 1967-1969 og ég vona að þeir tímar komi aldrei aftur. Þótt það séu fleiri körfur í dag en voru þá, er nauðsynlegt að auka enn á fjölbreytni í atvinnulífinu, helst á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Það þýðir að við höfum ekkert að gera við olíuhreinsunarstöðvar. Um leið eigum við að gera kröfur til þeirra aðila sem fá að reka hér stóriðju að þeir reyni að vinna efnin á eins umhverfisvænan hátt og hægt er og þá með ákveðin umhverfismarkmið í huga. Það þýðir meðal annars að fjöldi mengunarslysa sem hefur átt sér stað við Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og sem ég hefi séð með eigin augum eiga alls ekki að líðast og tel ég að beita eigi fyrirtækið háum sektum í hvert sinn sem slíkt skeður. Á sama hátt á að gera kröfur til álvera um þróunarvinnu sem miði að auknum mengunarvörnum í framtíðinni.

þriðjudagur, júlí 22, 2008

22. júlí 2008 - Álframleiðsla er atvinnuöryggi

Það var árið 1967 sem kreppan brast á. Þetta var engin smákreppa. Síldin, þetta silfur hafsins, brást sökum ofveiði. Á sama tíma varð verðhrun á mörkuðum fyrir frystan Þorsk í Bandaríkjunum. Þessu var mætt með stórfelldri gengisfellingu haustið 1967 og annarri stórri gengisfellingu árið 1968 og dollarinn fór úr 43 krónum í 88 krónur. Byggingariðnaðurinn hrundi saman, útgerðir gátu ekki gert upp við sjómennina sem þó þurftu að taka á sig stórfellda skerðingu á aflahlut til viðbótar við gengisfellingarnar, þúsundir manna og kvenna flúðu land, til Svíþjóðar og Ástralíu, það var kreppa.

Mitt í öllu myrkrinu sást í örlítinn ljósgeisla. Ofarlega í Þjórsá var verið að virkja fyrir hina nýstofnuðu Landsvirkjun og suður í Straumsvík var verið að byggja álver. Þetta var ekki stórt álver, heldur svona lítið og krúttlegt svo notuð séu orð Kolbrúnar Halldórsdóttur og Steingríms Jóhanns Sigfússonar sem sjá lítil 100.000 tonna álver á Bakka og í Reyðarfirði í draumum sínum, en Straumsvíkurverksmiðjan var aðeins 33.000 tonn að stærð er hún var formlega vígð í maí 1970, en framleiðslan hófst ári fyrr.

Síðan þetta var hefur álframleiðendum fjölgað. Auk Straumsvíkurverksmiðjunnar er komið álver í Reyðarfirði og annað á Grundartanga. Samtals starfa um 1400 manns í þessum verksmiðjum auk margra afleiddra starfa og heildarframleiðslugetan er nærri 800.000 tonn á ári. Á sama tíma og framleiðslan hefur stóraukist, hefur störfum í fiskvinnslu fækkað verulega og fiskafli dregist svo verulega saman að það eitt hefði orsakað mjög alvarlega kreppu hefðu Íslendingar ekki haft neitt annað til að reiða sig á. Það má vel vera að Íslendingar séu að keyra inn í kreppuástand, en það er ekki áliðnaði að kenna heldur umframeyðslunni og minnkuðu sjávarfangi af mannavöldum.

Árið 1967 voru öll eggin í sömu körfunni. Með álverum fjölgaði körfunum og um leið tækifærunum í íslenskri atvinnusögu. Nú þurfa t.d. margir Austfirðingar ekki lengur að velja á milli sjómennsku eða brottflutnings til að lifa af. Það eru komin fleiri atvinnutækifæri og brátt mun sama tækifæri geta boðist Þingeyingum þótt enn séu mörg ljón í veginum, en meðal þeirra eru menn sem telja sig vera umboðsmenn Norðausturlands á Alþingi. Um leið er nauðsyn á að auka enn fjölbreytnina, hvort heldur það verður í formi gagnaþjónabús eða annars þess iðnaðar sem veldur ekki alvarlegum umhverfisspjöllum á heimsvísu.

mánudagur, júlí 21, 2008

21. júlí 2008 - Álframleiðsla er vinnuvernd

Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt hópi áhugafólks um öryggi á vinnustöðum austur á firði og heimsóttum meðal annars álver Alcoa á Reyðarfirði sem þá var í smíðum undir stjórn Bechtel. Þar kynntum við okkur öryggisreglur og framgang við byggingaframkvæmdirnar. Eftir ágæta kynningu á framkvæmdunum héldum við aftur í rútuna sem átti að fara með okkur upp á Hérað. Við höfðum ýmislegt að ræða um þegar inn í rútuna var komið og alltaf beið bílstjórinn.
„Á ekki að keyra af stað?“ kallaði einn fram til bílstjórans.
„Nei“ svaraði bílstjórinn, „ekki fyrr en allir eru sestir og búnir að setja á sig öryggisbelti.“

Öryggiskröfurnar voru einfaldlega það miklar inni á framkvæmdasvæðinu að enginn bíll fékk að hreyfa sig inni á svæðinu öðruvísi en að allir væru í öryggisbelti, enda voru sárafá óhöpp við byggingu álversins og þetta smitaði sig yfir á starfsemina sjálfa þegar Fjarðaál hóf rekstur álvers Alcoa á Reyðarfirði. Kröfurnar voru ekki í líkingu við þetta hjá yfirverktakanum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, (Impregilo) sem sýndi sig í nokkrum banaslysum auk fjölda smærri slysa.

Fyrstu árin sem Ísal starfaði í Straumsvík urðu mörg alvarleg slys þar þar á meðal einhver banaslys. Þá var mengunin frá álverinu talsverð og gert gaman að Hafnfirðingum, þeir þyrftu ekki að tannbursta sig því þeim nægði að brosa í átt að álverinu og þannig fengju þeir nægt flúor. Með auknum kröfum um mengunarvarnir var hafist handa um að loka kerjunum í álverinu og sömuleiðis voru kröfur um öryggi stórlega auknar. Þetta hefur meðal annars skilað sér með stórfækkun slysa og ef mig misminnir ekki, varð síðasta banaslys hjá verktaka fyrir kannski sex árum síðan. Sjálf sé ég fyrir mér að eftir örfá ár verði hafist handa um niðurdælingu koltvísýrings frá verksmiðjunum til að binda hann í jarðveginum fremur en að sleppa honum út í andrúmsloftið.

Bæði Fjarðaál og Ísal hafa verið brautryðjendur í aukinni öryggisvitund íslensku þjóðarinnar, kannski einnig Norðurál, en ég þekki síst til þar. Á sama tíma hefur vissulega einnig orðið jákvæð þróun í hinum þjóðlegu atvinnugreinum, en því miður hefur það tíðkast fram að þessu að fórna nokkrum íslenskum sjómönnum á hverju ári, en algengt var, að nokkrum tugum sona þjóðarinnar var drekkt á ári í þágu þjóðlegra atvinnugreina. Þetta var talið vera eðlilegur fórnarkostnaður og fátt gert til að bæta úr fyrr en um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Það er því kannski eðlilegt að margir sjómenn hafa sóst eftir því að vinna í því örugga starfsumhverfi sem felst í álverum.

Í dag reyna stærri fyrirtæki á Íslandi að taka álverksmiðjurnar sér til fyrirmyndar í öryggismálum, til dæmis með innleiðingu OHSAS18001 öryggisstaðalsins, en stutta lýsingu á honum má lesa á heimasíðu Ísal. Þess má geta að fólk sem ekki þekkir til öryggisstaðla, gerir oft grín að kröfunum, enda virka þær stundum öfgafullar og fáránlegar. Það hefur hinsvegar sýnt sig að betra er að hafa reglurnar til vinna eftir og viðurkenna frávik sem geta komið upp á, heldur en að hafa fáar eða engar reglur.

Mótmælendum til happs gera öryggisreglurnar ráð fyrir óvæntum atvikum eins og mótmælum og er þá vinna stöðvuð uns hættan hefur verið fjarlægð, hvort heldur það er með handtökum eða samkomulagi. Það má því segja að álframleiðsla er vinnuvernd!

sunnudagur, júlí 20, 2008

20. júlí 2008 - Álframleiðsla er umhverfisvernd

Enn og aftur tröllríður álumræðan þjóðfélagsumræðunni. Hvert gáfnaljósið á fætur öðru lýsir yfir andstöðu sinni við álver og álversframkvæmdir, hlekkjar sig við vinnuvélar og klifrar upp í krana.

Prófum að snúa þróuninni við og hættum að framleiða ál. Hvernig verður þá ástandið í heiminum eftir nokkurn tíma? Allur tiltækur kopar mun klárast í heiminum á stuttum tíma. Flugvélafloti heimsins mun ganga úr sér því enginn mun framleiða þyngri flugvélar á tímum minnkandi olíubirgða. Bílarnir verða miklu þyngri og eyða þarafleiðandi meira eldsneyti og það þarf stjörnulaun til að hafa efni á að reka bílana á eftir, enda mun eyðslan jafnast á við herjeppa á borð við Hummer. Afleiðingarnar munu lýsa sér í auknum gróðurhúsaáhrifum. Reiðhjólin verða mun þyngri nema auðvitað þau sem kosta bílverð. Svona má lengi upp telja. Það er einfaldlega staðreynd að ál er nauðsynlegt í heimi þverrandi orkuauðlinda.

Til þess að nýta eldsneytisforða heimsins á sem hagkvæmastan hátt er nauðsyn á enn meiri álframleiðslu og það er alveg ljóst að hið háa verð sem fæst fyrir álið á heimsmarkaði í dag stafar af því að ekki er framleitt nóg af áli. En þá kemur spurningin. Hvernig er hægt að framleiða ál á sem umhverfisvænstan hátt? Er það með því að framleiða álið í Kína þar sem nóg er af ódýru vinnuafli og kolum í jörð? Nei, slíkt myndi auka verulega á gróðurhúsalofttegurndir í heiminum og auka á þá loftmengun sem þar er þegar komin á hættustig.

Það er ljóst að til að framleiða ál á sem umhverfisvænstan hátt, er einfaldast að framleiða það þar sem nóg er til af ódýru rafmagni sem framleitt er á umhverfisvænan hátt. Það hefur einmitt verið stefna íslenskra stjórnvalda að bjóða álframleiðendum aðstöðu hér á landi og nýta sér hina ódýru og hreinu orku og er það vel.

Ég viðurkenni alveg að það felst lítil náttúruvernd í orðum mínum, en líta má á minniháttar spjöll á íslenskri náttúru sem fórnarkostnað til að koma í veg fyrir enn frekari loftmengun í heiminum rétt eins og að þess þarf á þeim fáu stöðum í heiminum þar sem kostur er á ódýrri og hreinni orku til álframleiðslu. Um leið er það áminning til okkar um að fara varlega til að ganga ekki of langt gegn náttúrunni.

Með þessar staðreyndir í huga get ég ekki annað en flokkað mótmæli gegn álframleiðslu sem baráttu gegn umhverfisvernd þótt þau megi vissulega flokka undir náttúruvernd.

laugardagur, júlí 19, 2008

19. júlí 2008 - Hvernig á að rata úr Árbænum og yfir í Mosfellsbæinn?

Ég ætla að vona að ég móðgi engan upprunaMosfelling með því að tala um Mosfellsbæ en ekki Mosfellssveit Um leið vil ég taka fram að ég rata ágætlega úr Árbæjarhverfinu upp í Mosfellsbæ. Það er bara ekki víst að allir ökumenn rati þessa leið.

Ég fór ásamt vinkonu minni á fjall á föstudaginn á bílnum hennar. Hún þekkir lítið til Árbæjarhverfisins og þegar við fórum niður Hálsabrautina fór hún framhjá Krókhálsi, en þaðan er hægt að fara til austurs og komast beint yfir í Grafarholtshverfið og þaðan áfram út á Vesturlandsveginn. Það voru bara engar merkingar þess efnis að þetta væri hægt, allavega engar sem ég man eftir og þá alls ekki á réttum stöðum.

Þegar komið er aðeins neðar á Hálsabrautina er hægt að beygja til vesturs Grjóthálsinn og beygja þaðan ómerkta leið og komast þannig beint út á Vesturlandsveginn. Það eru bara engin merki þess að slíkt sé hægt, allavega man ég ekki neinum slíkum merkjum.

Vinkona mín gleymdi að beygja eftir minni og hélt áfram niður Hálsabrautina og endaði á Stórhöfðanum. Þar beygði hún til austurs og þremur hringtorgum síðar var hún komin í Grafarholtshverfið þaðan sem leiðin var auðveld framhjá bankanum og Húsasmiðjunni og út á Vesturlandsveginn og við komumst alla leið upp að Esjurótum og síðan fótgangandi það sem eftir var leiðarinnar upp Esjuna.

Ætli Gatnamálastjóri fái prósentur af bensínsölu olíufélaganna?

föstudagur, júlí 18, 2008

18. júlí 2008 - Nei takk!

Ég á kisu sem hljómar eins og Björk Guðmundsdóttir. Hún heitir Tárhildur og er algjör grátkisa. Nágrannar mínir á hæðinni fyrir neðan kalla hana Vælu, aðrir kalla hana Væluskjóðu, en hún hrellir allt hverfið með vælinu í sér í hvert sinn sem henni finnst hún ein í vondum heimi og byrjar að kalla á hjálp.

Þrátt fyrir þetta þykir mér ofurvænt um Tárhildi og hefi ítrekað farið með hana á dýraspítalann til að kanna hvað er að henni, en þau finna ekkert að henni ennþá. Ég neyðist sennilega til að senda hana á söngnámskeið til að hún læri einhverja þægilegri söngrödd, t.d. Ninu Hagen eða Marianne Faithful. Allavega fær hún engin aukastig hjá mér fyrir að væla eins Björk Guðmundsdóttir.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/18/a_soguslodir_bjarkar/

fimmtudagur, júlí 17, 2008

17. júlí 2008 - 60 kílómetrar á 16 klukkustundum og einni mínútu

Ég vil taka fram að ég ætla ekki að grobba mig af eigin afrekum, heldur eru þetta tölurnar yfir sundafrek Benedikts Hjartarsonar sjósundkappa er hann synti yfir Ermarsundið á miðvikudag.

Það sýnir best hversu mikið afrek er um að ræða, að stysta vegalengdin á milli Dover í Englandi og Cap Griz Nes í Frakklandi eru 34 kílómetrar. Hinir miklu straumar í sundinu voru sífellt að bera Benedikt af leið og því urðu syntir kílómetrar nærri helmingi fleiri en stysta vegalengdin. Sjálf fór ég ekki að fylgjast með afrekinu fyrr en á síðustu klukkutímunum um leið og ég fór að kynna mér sögu ætlaðs landtökustaðar á netinu. Þarna var t.d. háð grimmileg orrusta 25 maí 1940 á milli Þjóðverja og Frakka þar sem Frakkarnir börðust til síðasta manns.

http://en.wikipedia.org/wiki/Cap_Gris_Nez

Því er sjálfsagt að óska Benedikt sem og öllu fylgdarliði hans til hamingju með afrekið.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

16. júlí 2008 - Að fagna fánanum
Íslendingar eru heppnir. Eftir að hafa gert kröfu um bláhvíta fánann í upphafi tuttugustu aldarinnar var gert samkomulag um að bæta rauðum kross í fánann og úr varð hinn fagri íslenski fáni sem allir Íslendingar geta verið og eru stoltir af. Var hann samþykktur með lögum frá 19. júní 1915 og öðlaðist alþjóðaviðurkenningu sem siglingafáni 1. desember 1918.

Danir eru enn heppnari. Það var 15. júní árið 1219 sem Dannebrog féll af himnum ofan og flæktist í hausnum á Valdimar sigursæla einum fjölmargra forfeðra allra Íslendinga. Sem betur fer meiddist Valdi ekkert enda gerði hann Dannebrog að fána sínum eftir þetta og hefur hann verið fáni danska heimsveldisins fram á þennan dag.

Ekki eru allar þjóðir jafnheppnar. Ein þeirra er íraska þjóðin. Á sama tíma og Ísland hefur notið þess að vera með einn þjóðfána, hefur Írak verið með minnst sex fána og ákveðnar kröfur valdhafa um enn fleiri. Verstur allra var þó fáninn sem Bandaríkjamenn ætluðu að þröngva upp á írösku þjóðina og var sá fáni svo líkur fána Ísraels í hönnun að tókst að móðga öll þjóðarbrot Íraks.

Með naumindum tókst að afstýra hneykslinu, en það breytir ekki því að á síðustu fimm árum hafa Írakar orðið að fagna þremur tegundum þjóðfána og nú á að velja þann fjórða.

Æ, hversu lengi eiga Írakar að gjalda?

þriðjudagur, júlí 15, 2008

15. júlí 2008 - Af Evruumræðunni

Ég man þá tíð er fólk tók með sér tugi þúsunda í hundrað krónu seðlum til nota erlendis þegar það fór til útlanda. Ég man líka eftir því þegar sumir gengu á milli banka erlendis til að reyna að skipta íslenskum krónum, en ef það tókst var það með miklum afföllum. Á sama tíma þurfti að herja út gjaldeyrir á svörtum markaði á Íslandi til að hafa nóg fyrir sómasamlegu sumarleyfi á sólarströnd eða þá góðri borgarferð í Evrópu. Efnahagsmálin á Íslandi áttu sér helst hliðstæður í rússneskum rúblum eða pólskum zloty á tímum „alræðis öreiganna“ í Austur-Evrópu. Þetta gjörbreyttist með þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi undir heiti EES, bara ekki nóg.

Einhver ágætur maður datt niður á þá snjöllu hugmynd að hægt væri að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessi maður hefur kynnt sér Evrópumálið með þátttöku sinni í einhverri Evrópunefnd sem er að störfum á Alþingi og veit að sú hugmynd sem hann kastaði fram á heimasíðu sinni er bull. Hann er ekki að meina neina alvöru með þessum orðum, heldur er hann að gefa í skyn að hægt sé að fara aðra leið að alvöru gjaldmiðli en að ganga í Evrópusambandið. Þetta gerir hann til að slá ryki í augu flokkssystkina sinna sem eru orðin þreytt á hinni neikvæðu afstöðu flokksforystunnar í garð Evrópusambandsins.

Björn Bjarnason veit það jafnvel og ég og sennilega enn betur, að til að komast í Myntbandalag Evrópu þarf þjóðin að búa við jafnvægi í fjármálum, lága verðbólgu og lága vexti. Íslenska þjóðin var nálægt því að búa við slíkt jafnvægi á seinni helming síðasta áratugar, en heldur ekki söguna meir. Við búum ekki við slíka hagstjórn í dag. Það er ekkert mál að binda krónuna við Evru, eða norska krónu, eða þá bandarískan dollar, en um leið og þau bönd verða rofin aftur, fer allt til fjandans. Þá er óstöðug krónan betri við slíkar aðstæður.

Allt tal um að taka upp Evru eða dollar eða norska krónu með núverandi efnahagsstjórn er því tómt bull. Einasti raunhæfi gjaldmiðillinn að hengja sig á við núverandi aðstæður er Zimbvabe dollarinn. Og hver vill binda sig við Zimbvabe dollarann? (Geir Haarde átti kannski við Zimbvabe dollar þegar hann vildi binda okkur við dollarann).

Það væri því best að Björn og Geir hætti þessu bulli og taki þátt í undirbúningi undir þátttöku í Evrópusamstarfi undir merkjum Evrópusambandsins. Að því loknu verður hægt að vinna að því að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar og losa okkur við Seðlabankann undir Seðlabanka Evrópu.

mánudagur, júlí 14, 2008

14. júlí 2008 - Af árlegum Safnadegi

Safnadagurinn 2008 var á sunnudag og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og hugðist kíkja á tvö söfn. Ég byrjaði á að aka alla leiðina vestur í gömlu höfn og ætlaði að kynna mér starfsemi Ljósmyndasafns Reykjavíkur, ekki síst í ljósi erinda sem ég tel mig eiga við safnið á næstunni.

Ég kom inn í Grófarhúsið og í afgreiðslu Borgarbókasafnsins talaði ég við ungan mann sem vildi gjarnan leiðbeina mér á besta veg, en því miður var hann ekki viss um að mikið væri um að vera á Ljósmyndasafninu. Ég fór samt upp og þar var ljósmyndasýning Viggós Mortensen í gangi, ekkert annað. Engan starfsmann Ljósmyndasafnsins sá ég og það var harðlæst inn á afgreiðslu safnsins og öll ljós slökkt á Safnadegi ársins 2008.

Eftir þetta kom ég við í Kolaportinu þar sem andrúmsloftið var öllu betra og margt áhugavert í horninu hjá Gvendi dúllara. Á leiðinni heim hugðist ég kynna mér annað safn sem ég hafði séð á netinu að væri opið. Þar var allt slökkt og læst. Það var þó huggun harmi gegn að mikið var um að vera á Árbæjarsafni.

Þegar heim var komið, sá ég á netinu að tilkynningin um opnun seinna safnsins var frá því í fyrra og slæm reynsla af þessum degi kannski gefið tilefni til að hafa lokað að þessu sinni.

Af hverju klikkaði Safnadagurinn svona? Er sunnudagur nærri miðjum júlí kannski það vitlausasta sem hægt er að hugsa sér fyrir söfn í Reykjavík? Eða er ég að misskilja tilgang Safnadagsins?

-----oOo-----

Með þessu fá hin franskættaða Victoría Bernadotte og franska þjóðin hamingjuóskir með daginn.

sunnudagur, júlí 13, 2008

13. júlí 2008 - Það styttist í endalokin.

Nei, nei, dúllurnar mínar, ég er ekkert að boða heimsendi. Ég sit bara hér heima á laugardagskvöldi með ískaldan öl og hugsa um hve ég hefi það gott þrátt fyrir allt hið neikvæða í kringum okkur. Að vísu er ég enn að velta því fyrir mér hvernig ég geti fjármagnað Parísarferð í lok september án þess að það bitni á öllu hinu sem ég þarfnast og kostar peninga, en það hlýtur að bjargast ef ég fresta bílkaupum í nokkra mánuði í viðbót.

Það er þó eitt sem angrar mig þessa dagana. Sumarfríið mitt er að verða búið. Ég er búin að einbeita mér að því að gera ekki handtak í fjórar vikur og einungis tvær vikur eftir áður en þrældómurinn byrjar aftur. Um leið get ég ekki annað en verið ánægð með fríið.

Oft nýtti ég sumarfríið með því að skreppa á sjóinn til að afla mér aura svo ég gæti framfleytt mér af fátæklegum launum mínum á eftir, eða þá að ég vann eitthvað aukalega í landi með fríinu. Í versta falli sleit ég fríið í sundur, tók það í bútum og geymdi hluta fram á veturinn og tók dag og dag þegar eitthvað skemmtilegt var í gangi. Núna hefi ég notið veðurblíðunnar þótt flíspeysan hafi venjulega verið nálæg, rölt á fjöll og haft það huggulegt hér heima, sofið til hádegis og dundað mér við ketti og blóm og bókalestur eftir hádegið.

Ég skil ekkert í því af hverju það gengur ekkert að ná af mér spikinu.

laugardagur, júlí 12, 2008

12. júlí 2008 - Seifing Æsland hópurinn gengur aftur

Ég heyrði í einhverjum ungum manni í útvarpinu á fimmtudagseftirmiðdaginn sem virtist vera fulltrúi Seifing Æsland hópsins. Ekki náði ég nafninu á drengnum, en ástæða þess að ég hóf að hlusta var að hann hljómaði ekki ósvipað og Andri Snær Magnason sem mun vera andlegur leiðtogi Íslandshreyfingarinnar.

Þessi drengur talaði mikið um hið vonda ál, ekki bara álframleiðslu heldur hversu skítt fólkið hefði það sem vann við álboxíð einhversstaðar úti í heimi og því ætti að stöðva álframleiðslu. Drengurinn vitnaði einnig í einhvern indverskan hugsuð frá þessu álboxíð svæði og sá vissi svo sannarlega lengra nefi sínu og sem dæmi um hæfni mannsins nefndi unglingurinn að þessi indverski hugsuður hefði kallað til eitthvert svæði á Indlandi þar sem ætlunin væri að vinna álboxíð en slík vinnsla þar jafnaðist á við menningarlegt þjóðarmorð.

Þá vitum við það og jafnframt hvað ég get verið vitlaus. Auðvitað er allt óréttlæti þessa heims afleiðing af iðnbyltingunni. Það var ekki einu sinni búið að finna upp álið þegar iðnbyltingin hófst, hvað þá eyða einum olíulítra í iðnað. Síðan var álið fundið upp og þarmeð mannvonskan.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að mótmælendurnir í Seifing Æsland séu fæddir tvö hundruð árum of seint og væru best geymdir í torfkofum.

Er ekki kominn tími til að þessir krakkar finni sér eitthvað annað áhugamál að berjast fyrir?

föstudagur, júlí 11, 2008

11. júlí 2008 - Af fótboltavandræðum

Það var snemma á sjöunda áratugnum sem ég fór í fyrsta sinn á alvöru fótboltaleik á Laugardalsvellinum. Þar áttust við KR og Valur og að sjálfsögðu unnu kapparnir í KR þessa rauðu með sjö mörkum gegn tveimur. Nú á fimmtudagskvöldið tóks þessum rauðu, sem nú eru eiginlega búnir að selja sál sína til Voðafóns, að hefna sín og kostaði það grátur og gnístran tanna, bæði í Árbæ og Vesturbæ.

Úr því ég er farin að tala um fótboltafélag er ekki úr vegi að gráta örlög annars uppáhaldsfélags, en Halifaxhreppur sem lengi barðist hetjulegri baráttu við að halda sér uppi í langneðstu deild með dyggum stuðningi Gísla bónda Einarssonar í Lundarreykjadal og Skessuhorns, en féll fyrir nokkrum árum niður í kvenfélagsdeildina, varð gjaldþrota í vor.

Ég heimsótti félagið þegar ég átti síðast erindi til Mannshestaborgar fyrir tveimur árum og var mér vel fagnað, þó fremur aurunum sem ég greiddi fyrir ýmsa minnisgripi um þetta fornfræga félag. Daginn eftir að ég heimsótti Halifaxhrepp leit ég við hjá öðru félagi, ekki eins frægu, en það heitir Manchester United. Þar voru allir minningargripir helmingi dýrari. Síðan hefur United of Manchester verið annað uppáhaldsfélag mitt á eftir Halifaxhreppi.

Rétt eins og United of Manchester var stofnað af einlægum aðdáendum Manchester United þegar það lenti í höndunum á fjárglæframanninum Malcolm Glazer vestur í nýlendunum, þá var Halifaxhreppur endurreistur af stuðningsmönnum félagsins og nýtt nafn tilkynnt í fyrradag. Það heitir nú F.C. Halifax Town en gamla nafnið var Halifax Town afc.

Hið nýja félag þarf ekki að hefja keppni á botninum eða tíundu deild eins og United of Manchester, heldur var það aðeins fellt niður um þrjár deildir og mun því spila í áttundu deild næsta vetur eða eins og það heitir fínu nafni: Northern Premier League Division One North. Þess má geta að þetta er sama deildin og United of Manchester lék í síðasta vetur, en þeir unnu sig snarlega upp úr henni á einu ári.

Ég óska að sjálfsögðu báðum liðum allra heilla í framtíðinni

fimmtudagur, júlí 10, 2008

10. júlí 2008 - Æ, vesalings Hanna Birna

Þá hefur „minnihlutinn“ loksins látið í sér heyra varðandi hneykslið vegna fúaspreksins á Laugavegi 4-6. Því miður kemur það dálítið seint, allavega hefði mátt heyrast hærra í Degi og félögum þegar sá blörraði keypti ruslið fyrir 580 milljónir. Þá þegar var vitað að kostnaðurinn við að breyta húsunum yrði vart undir hálfum milljarði.

Til frádráttar upphæðinni koma fáeinar milljónir fyrir sölu á draslinu. þar ber fyrst að geta að ekki er viðbúið að hátt verð fáist fyrir Laugaveg 6 nema þá helst til íbúðar en ég á ekki von á að einhver nýríkur þyrlueigandinn hafi efni á að greiða hundruð milljóna fyrir lítið einbýlishús, eina hæð og ris þótt hann fái nostalgíukast. Svipaða sögu má segja um tvíbýlishúsið að Laugavegi 4. Til þess að búa þar verður fólk að hafa grónar lappir í flokk þess blörraða sem er víst ekki einu sinni flokksbundinn nema þá helst í Sjálfstæðisflokknum. Það er auðvitað möguleiki á að einhver nytsamur sakleysinginn í Vinstrigrænum hafi hlotið arf og geti keypt hjallinn.

Af glerbyggingunni á bakvið er fátt jákvætt. Hvaða verslunareigandi vill kaupa sér glerhúsnæði í bakhúsi í felum til að hefja blómlegan verslunarrekstur í hnignandi miðbæjarkjarna þar sem engu má breyta og ekkert má rífa til að mæta þörfum nútímans?

Ég er ekki viss um að hálfur milljarður fáist fyrir draslið þannig að fimm þúsund króna kostnaður á hvern Reykvíking er hrein draumsýn. Mig grunar að lokareikningurinn á hvern borgarbúa verði nær tíu þúsundum.

Því er eðlilegast lóðirnar verði óbreyttar eins og þær eru næstu tvö árin en að kofarnir verði snarlega rifnir daginn eftir næstu borgarstjórnarkosningar þegar sá blörraði og Villi hætta í pólitík.

En mér fannst vesalings Hanna Birna ekki neitt sannfærandi þegar hún talaði um flottheitin í hjöllunum endurbyggðum. Það skil ég vel.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/10/dagur_kostnadur_mun_meiri_en_haldid_er_fram/

10. júlí 2008 - Annað verkefni fyrir háaldraðan málfarspervert

Ekki ætla ég að kasta rýrð á Guðmund Þóroddsson því þótt hann verki nánast afbrigðilega feiminn, þá leynir hann á sér og hefur t.d. leikið Elvis af stakri snilld.

Það sem ég sé athugavert við fréttina í Netmogganum er hið sama og á þriðjudag því uppsetning fréttarinnar er gjörsamlega út úr kú rétt eins og að illa gefinn Víkverjabloggari hafi skrifað hana.

Enn og aftur fer ég fram á það við yfirmenn hins „unga“ blaðamanns að þeir sendi hann í ritþjálfun til okkar háaldraða málfarsperts, en fái prófarkalesara til starfa við Netmoggann að öðrum kosti.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/09/gudmundur_tok_gogn_med_ser/

miðvikudagur, júlí 09, 2008

9. júlí 2008 - Verkefni fyrir háaldraðan málfarspervert!

Ég tók þátt í fræðslugöngu um Elliðaárdalinn á þriðjudagskvöldið. Talningarmeistarar göngunnar töldu um hundrað manns í göngunni, en lögreglan sem fylgdist með göngunni úr fjarlægð mun sennilega hafa talið fjöldann um þrjátíu, enda var henni stjórnað af Stefáni Pálssyni.

Sú tíð er liðin er Morgunblaðið var til fyrirmyndar í réttritun. Þeir þóttu að vísu aldrei sleipir í reikningi og eru ekki enn, ekki frekar en lögreglan, en málfarið þótti snilld nema þegar Styrmir kom af settinu.

Þegar ég las fréttina um lögguna í Hafnarfirði í Netmogganum fór ég að velta fyrir mér hvort ekki þyrfti að hressa upp á íslenskukennsluna meðal blaðamanna Morgunblaðsins, því svo vitlaus var fréttin að innihaldið fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér, Það var eins og að einhver illa gefinn bloggari hefði skrifað fréttina og er þá djúpt sóst til samanburðar svo vitnað sé í gáfaðan Víkverja Morgunblaðsins.

Mér datt fyrst til hugar að senda athugasemd til ritstjórnar Morgunblaðsins, en hætti við. Við eigum okkar sjálfskipaða háaldraða málfarspervert, sjálfan H.M. Sigurð Hreiðar. Ekki veitir af að hressa upp á íslenskukunnáttuna hjá blaðamönnum Morgunblaðsins og ég treysti H.M. Sigurði Hreiðar betur en öðrum til þess erfiða starfa.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/08/glaefraakstur_i_hafnarfirdi/

þriðjudagur, júlí 08, 2008

8. júlí 2008 - Um kisur, börn og sandkassa


Hér fyrir neðan lóðina okkar er uppgjafa gæsluvöllur sem nú hefur verið lagður niður sem slíkur og í staðinn gerður að almennum leikvelli fyrir almenning. Þrátt fyrir nálægð leikvallarins höfum við sem búum hér, haldið áfram að halda við leiktækjunum á lóðinni okkar, enda fáum að treysta í stjórn Reykjavíkurborgar, né hvenær einhver nýr meirihluti ákveður að fjarlægja allt klabbið og reisa blokk í stað leikvallarins til að hafa af okkur sólskinið.

Um daginn fjárfestum við í nýjum sandkassa fyrir börnin í stað þess risastóra sem kominn var til ára sinna og að auki fullur af kattaskít og ónothæfur fyrir börn að leik. Við fengum okkur svo dúk yfir til að minnka möguleika katta á að gera þarfir sínar í sandkassann og til að framlengja notagildi kassans til þeirra nota sem hann er ætlaður.

Eitthvað voru kettirnir ósáttir og fylgdist ég með einum þar sem hann klóraði án afláts í dúkinn í von um að komast í gegn og gera þarfir sínar. Honum varð þó ekki að ósk sinni og sendi þá hugskeyti til borgarstjórans í Reykjavík sem var fljótur að sinna erindi kattarskammarinnar.

Í morgun mætti sex manna vinnuflokkur frá Reykjavíkurborg með vörubíl og traktorsgröfu, setti nýjan sandkassa á gæsluvöllinn fyrrverandi og fyllti af dýrindis kattasandi.

Nú geta bæði kisur og börn glaðst, börnin yfir að geta verið í friði með sandkassann sinn og kisurnar yfir sínum einkasandkassa á lóð gamla leikvallarins.

8. júlí 2008 - Læknuð af Formúlufíkn?

Sú var tíðin að ég mátti ekki til þess hugsa að missa af einu einasta móti í Formúlunni, sat sem límd fyrir framan sjónvarpið á meðan Michael Schumacher ók hring eftir hring og náði hverjum heimsmeistaratitlinum á fætur öðrum. Síðan eru liðin einhver ár.

Á sunnudaginn var fór ég í gönguferð, rölti upp með Brunnsánni í Hvalfjarðarbotni og upp á Botnsheiðina, langleiðina í átt að Skorradalnum eftir því sem kallast Síldarmannagötur. Er ég taldi mig komna nógu nærri Skorradalnum og sannanlega komin efst í Grafardalinn, fannst mér nógu langt gengið að sinni og sneri við í leit að sólgleraugunum mínum sem ég hafði lagt frá mér við Tvívörður, nánar tiltekið á annarri hinna nýrri af vörðunum sem eru á milli gömlu Tvívarðanna.

Ég fann sólgleraugun og leiðina til baka í Hvalfjörðinn og sömuleiðis fann ég bílinn minn enda vel útbúin með bæði kompás og GéPéEssinn minn góða. Það var hinsvegar ekki laust við þreytumerki eftir átta tíma göngutúr og ég fór að hlakka til að stíga á vigtina að morgni.

Gleymdi ég ekki einhverju? Jú reyndar. Á leiðinni heim úr Hvalfirðinum og þar sem ég hafði ákveðið að fara Mosfellsheiðina heim lenti ég í niðaþoku og mundi eftir atviki þar sem heimsmethafinn í fjölda heimsmeistaratitla og fjölda mótssigra í fór fram úr öllum í úrhellisrigningu uns hann lenti aftan á þeim síðasta og báðir duttu úr keppni. Úr keppni? Átti ekki að vera Formúlukeppni á sama tíma og ég var á leiðinni í Hvalfjörðinn? Þegar heim var komið reyndist svo vera og ég hafði steingleymt henni. Fólk verður samt að fyrirgefa mér því heimsmethafinn í fjölda heimsmeistratitla og fjölda mótssigra er fyrir löngu kominn á eftirlaun, reyndar um leið og áhugi minn fyrir Formúlukeppninni fór á sömu leið.

-----oOo-----

Svo á ein ung frænka mín í föðurætt fertugsafmæli í dag. Til hamingju með daginn J.Ó.L.

mánudagur, júlí 07, 2008

7. júlí 2008 - Á Þingvöllum gilda sömu reglur jafnt yfir alla!

Ég heyrði þessa auglýsingu í útvarpinu á laugardagskvöldið, en man ekki hvort hún kom frá Þingvallanefnd eða einhverjum þeim öðrum sem eiga að gæta þjóðgarðsins á Þingvöllum. Úr ruslahaug minninganna birtist heimsókn mín til Þingvalla sumarið 1989, skömmu áður en ég flutti til Svíþjóðar. Einhver gamall karl frá Póllandi sem starfaði sem páfi í Róm flutti messu á Þingvöllum og blessaði skrílinn. Framan við páfann sátu ríkisstjórn, alþingiþingismenn, erlendir sendiherrar og önnur fyrirmenni hins opinbera valds í þægilegum stólum. Í brekkunum fjarri páfanum sat alþýða Íslands. Þarna gilti ekki sama reglan jafnt yfir alla.

Ellefu árum síðar kom ég til Þingvalla ásamt Lindu frænku frá Ameríku og sýndi henni staðinn þar sem langafi hennar hafði frumflutt lag sitt við Öxar við ána fyrir rúmri einni öld. Á Þingvöllum var verið að undirbúa kristnihátíð. Niðri á völlunum höfðu verið reist tjöld fyrir fyrirfólkið. Alþýðan mátti sitja áfram í brekknunum og hylla fyrirmenn hins opinbera valds. Linda frænka orðaði það sem hún sá sem að það væri verið að hylla ríkisstjórnina en ekki Jesús Krist. Fyrri daginn sem kristnihátíðin var haldin, völdum við að skoða ýmislegt merkilegt á Suðurlandi, afleiðingar jarðskjálfta nokkrum dögum áður, Gullfoss, Geysi. Við tókum stóran krók framhjá vegalokunum vegna kristnihátíðar á Þingvöllum og létum hátíðina eiga sig. Ég var á vakt seinni daginn sem hátíðin var haldin.

Þegar haldin var hátíð á Þingvöllum í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var ég fjarri góðu gamni og get því ekki tjáð mig um það. Þá tók ég þátt í hátíðarhöldunum á Skansen í Stokkhólmi þar sem ein regla gilti fyrir alla sem tóku þátt.

Á Þingvöllum er sagt að sömu reglur gildi jafnt yfir alla.

sunnudagur, júlí 06, 2008

6. júlí 2008 – Framtíð lýðræðis og varavaravaraborgarfulltrúi Frjálslynda flokksins

Ég stóð lengi vel í þeirri trú að í borgarstjórn væru jafnmargir varamenn og aðalmenn í borgarstjórn, þ.e. að fyrir hvern borgarfulltrúa sem einhver flokkur vinnur í kosningum væri annar til vara sem fengi titilinn varaborgarfulltrúi.

Á sunnudagsmorguninn er ætlunin að senda út viðtal undir heitinu Framtíð lýðræðis og sem Ævar Kjartansson og Ásgeir Þór Árnason tóku við Ástu Þorleifsdóttur varaborgarfulltrúa eins og hún er kynnt í dagskrárkynningu Rásar eitt. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort hún hafi rétt á því að titla sig varaborgarfulltrúa rétt eins og vafi sá sem umlykur miðborgarstjórastjóratitil Jakobs Frímanns Magnússonar verkefnastjóra þess blörraða í miðborgarmálum Reykjavíkur.

Með sínum 6527 atkvæðum kom Frjálslyndi flokkurinn einum manni að í Reykjavík við síðustu borgarstjórnarkosningar, hinum óháða og blörraða sem má helst ekki nefna nema á jákvæðan hátt því annars móðgast hann. Varaborgarfulltrúinn heitir Margrét Sverrisdóttir og er hún meðlimur í Íslandshreyfingunni. Ef sá blörraði veikist sem getur alls ekki skeð því þá móðgast hann, tekur Margrét Sverrisdóttir við stólnum og „meirihlutinn“ riðar til falls. Ef svo illa skyldi fara að bæði borgarstjórinn og varaborgarfulltrúinn skyldu vera fjarverandi, fær Guðrún Ásmundsdóttir varavaraborgarfulltrúi og leikkona að verma sætið um tíma. Þá fyrst ef hún getur ekki heldur setið í borgarstjórn fær varavaravaraborgarfulltrúinn að setjast í stól borgarfulltrúa.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nær að Ásta Þorleifsdóttir titli sig sem varamann varafulltrúa varaborgarfulltrúa Frjálslynda flokksins í Reykjavík? Þá um leið hvort hún megi titla sig sem varaborgarfulltrúa? Eða geta allir þeir sem voru á framboðslistum sem komu inn manni í borgarstjórn titla sig sem varaborgarfulltrúa.

Eða er kannski framtíð lýðræðis í Reykjavík í hættu með núverandi borgarstjóra og fylgiliði hans?

laugardagur, júlí 05, 2008

5. júlí 2008 - Staksteinar og Ögmundur

Það er hægt að sjá ýmislegt jákvætt í flestu fólki. Þannig hefi ég ritað nýlega jákvæð orð um Árna Johnsen sem ég hélt fyrirfram að myndu aldrei koma úr mínum penna. Á sama hátt er hægt að finna eitthvað jákvætt um allt fólk. Þannig var talið að einhver versti fjöldamorðingi sögunnar hefði verið barngóður þótt slíkt verði ekki sagt um ónefnda kaþólska biskupa og háskólakennara sem þó eru vafalaust ágætis fólk að öðru leyti. Þannig er hægt að finna eitthvað jákvætt um allt fólk þótt stundum sé ákaflega djúpt á gæðunum sbr. hinn nýlátna Jesse Helms (eitt versta afturhald þessa heims og þótt víðar sé leitað) og aðdáanda hans númer eitt, George Dobbljú Bush. Segja mátti um þá tvo að það þurfti að kafa býsna djúpt til að finna eitthvað jákvætt en það hlýtur að vera þarna samt.

Það verður seint sagt um mig að ég teljist til aðdáenda Staksteinahöfundar Morgunblaðsins. Þvert á móti hefur einhver versti skammarpistill sem ég hefi sent frá mér á bloggi, fjallað um ónefndan Staksteinahöfund Morgunblaðsins eftir óvenju harkalega árás ónefnds Staksteinahöfundar á vinstrafólk á Íslandi. Í gær varð ég þó að játa að ég og höfundur Staksteina vorum sammála um Ögmund Jónasson. Því ætti ekki að vera nauðsynlegt að bæta um betur. Ég ætla samt að gera það.

Sú afturhaldsstefna sem birtist í orðum Ögmundar á dögunum er hann lét birta hugleiðingar sínar um slit á EES-samningnum fannst mér lýsa ákaflega miklu þori af hálfu Ögmundar. Hverjum öðrum hefði dottið til hugar að vilja innleiða hér gamalt haftakerfi sem er loksins horfið úr íslensku þjóðlífi, þá ekki eingöngu höftin sem hurfu með innleiðingu EES-samningsins, heldur og önnur þau höft og (ó)siði sem enn voru við lýði þegar Ögmundur ruddist fram á sjónarsviðið sem fréttamaður og síðan sem pólitíkus.

Er fólk virkilega búið að gleyma því þegar allt íslenskt atvinnulíf byggðist á sjávarútvegi og landbúnaði, þ.e. öll eggin í sömu körfunni? Það var allsráðandi (með vondum afleiðingum 1967-1969) þar til fyrsta álverið tók til starfa árið 1969 og reyndar lengi enn. Er fólk búið að gleyma því er fólk var bundið átthagafjötrum með atvinnu- og gjaldeyrishömlum þar til fyrir aðeins örfáum árum? Er fólk nokkuð búið að gleyma hinum frjálsa vinnutíma sem í reynd var við lýði á Íslandi þar til EES-samningurinn tók gildi. Er fólk nokkuð búið að gleyma því hvernig krónan féll þúsundfalt á verðbólgutímum fyrir inngöngu í EES og mun reyndar halda áfram að sveiflast uns Evrópubúar munu hafa vit fyrir okkur og veita okkur inngöngu í Evrópusambandið og losa okkur þannig undan áþján Seðlabankans? Er fólk nokkuð búið að gleyma því hvernig fólk þurfti að halda fyrir nefið þegar ekið var nærri botni Hvalfjarðar eða í gegnum mörg sjávarþorp og óþefurinn kallaður peningalykt? Ég brosi enn þegar nefnd eru mál á borð við sjónvarpslaus fimmtudagskvöld og í júlí, áfengislaus miðvikudagskvöld og bann við neyslu á öli á sama tíma og fólk mátti drekka sig blindfullt af sterku áfengi. Þetta var tíðin sem Ögmundur sér í hillingum með orðum sínum gegn aðild að EES-samningnum. Eitt smámál um ríkisstyrki í samanburði við allt þetta er nánast hlægilegt.

Nei, gamli tíminn sem Ögmundur virðist vilja innleiða er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur. Orð Ögmundar verða því að flokkast með öðrum afturhaldsorðum sem verða best gleymt sem hluta af hita umræðunnar.

Sörrý Ögmundur minn, mér þykir samt vænt um þig og margar skoðana þinna.

föstudagur, júlí 04, 2008

4. júlí 2008 - Að hlaupa í veg fyrir flugvélar!

Enn einu sinni fóru bloggheimar offari. Með miklum tilfinningahita var ekki gerður greinarmunur á brottvísun manns og þess að hugsanlega stofna fjölda mannslífa í hættu.

Ég vil byrja á að taka fram að ég er ósammála íslenskum stjórnvöldum þegar gripið er til brottvísunar fólks úr landi. Þar minnist ég þess er ég bjó í Svíþjóð og sá þar skrá yfir fjölda flóttamanna sem höfðu fengið hæli í hinum ýmsu Evrópulöndum sem pólitískir flóttamenn. Nokkur ríki voru áberandi lægst, Finnland var með fáa, Grikkland var með sjö, en eftirbátur allra var Ísland með einn flóttamann ef mig misminnir ekki. Þótt annar hafi bæst við með tilkomu eins frá Sri Lanka, er Ísland enn langsamlega lægst Evrópulanda. Það nægir að skoða mál Kenýamannsins til að skilja hvernig Íslendingar komast hjá því að taka á móti pólitískum flóttamönnum.

Þegar tveir unglingar hlupu út á flugbraut á Keflavíkurflugvelli á fimmtudagsmorguninn gerðu þeir ekkert til hjálpar umræddum Kenýamanni. Þvert á móti sköpuðu þeir stórhættu fyrir almenna flugfarþega og sköpuðu að auki fordæmi fyrir dómsmálaráðherra að herða mjög á löggæslunni og hinum svokölluðu öryggismálum. Rétt eins og æðibunugangur tveggja gasskrækjandi lögreglumanna með piparúða gaf honum möguleika á að krefjast aukinna fjárveitinga og hörku af hálfu njósnardeildarinnar, hinnar svokölluðu greiningardeildar, er hætta á að hann muni nýta sér tækifærið að heimta aukna öryggisgæslu í ljósi þess að kjánarnir tveir óðu inn á flugbrautina. Fyrir bragðið urðu þeir þess valdandi að öll mótmæli vegna Kenýamannsins verða skoðuð í ljósi flugbrautarmálsins og dæmd út frá því.

Það er svo önnur saga að sex ára hámarksrefsiramminn fyrir að hlaupa inn á flugbrautina getur orðið alltof vægur þegar hugsað er út í það manntjón sem getur hlotist af því að unglingar hlaupi í veg fyrir flugvél í flugtaki.

fimmtudagur, júlí 03, 2008

3. júlí 2008 - Hrafnhildur ofurkisa og Ögmundur Jónasson!

Ögmundur Jónasson átti greinar í þremur dagblöðum á miðvikudag, eina sem ég get svosem verið sammála að einhverju leyti, en tvær fjölluðu um eilífa andstöðu hans við framtíð Íslands innan evrópska efnahagssvæðisins. Ég ákvað að skrifa pistil um andstöðu hans, enda sjálf eindregið fylgjandi Evrópusambandsaðild, en það hljóp eitthvað í nýju tölvuna mína.

Þegar ég ætlaði að leita uppi gögn frá því Alþingi samþykkti EES-samninginn vildi tölvan ekki hlýða mér. Ég ætlaði að endurræsa tölvuna, en hún neitaði að lofa mér að endurræsa sig. Að sjálfsögðu bölvaði ég glænýrri tölvunni og því að vírusvörnin hans Frissa fríska sleppti óþverranum í gegn. Þá rak ég augun í skýringuna.

Hrafnhildur ofurkisa hefur stundum lagst fram á skrifborðið mitt á meðan ég er að vafra um netheima. Núna lá hún sofandi á borðinu eins og svo oft áður, en hafði lagt aðra framloppuna á Esc takkann. Um leið og ég færði á henni loppuna lagaðist allt og ég gat tekið gleði mína á ný.

Skammirnar í garð Ögmundar Jónassonar verða þó að bíða betri tíma.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

1. júlí 2008 - Umferðarreglurnar!

Ég bíð enn eftir fleiri neikvæðum atriðum varðandi álið en því að það geti valdið lækkuðu PH-gildi í vatni og á meðan ég bíð eftir fleiri atriðum langar mig að nefna eituráhrifin þegar ál tærist í seltu eins og sjó. Ég ætla að gefa þessu einn sólarhring í viðbót.

Ég lendi oft í því að ég kemst ekki framhjá bíl sem ekur of hægt á vinstri akrein. Sjálf reyni ég að hafa ákveðna reglu í huga þegar ég er úti að aka. Ef bíll fer framúr mér hægra megin, ek ég of hægt á vinstri akrein og flýti mér yfir á hægri akrein. Það skeður reyndar ekki oft, en kom þó fyrir mig á mánudagskvöldið. Ég hafði farið framúr bíl á löglegan hátt, þ.e. á vinstri akrein, en áður en ég færði mig yfir á hægri akrein tók ég eftir að lítill sportbíll sem hafði verið fyrir aftan mig skaust yfir til hægri framfyrir bílinn sem ég hafði rétt farið framúr og skaust fram úr mér hægra megin án þess að mér gæfist kostur á að víkja með því færa mig til hægri.

Hvernig hefði verið tekið á hugsanlegum árekstri ef ég hefði fært mig yfir á hægri akrein og rekist á bílinn sem ekki hafði verið þar sekúndubroti áður?