mánudagur, júlí 07, 2008

7. júlí 2008 - Á Þingvöllum gilda sömu reglur jafnt yfir alla!

Ég heyrði þessa auglýsingu í útvarpinu á laugardagskvöldið, en man ekki hvort hún kom frá Þingvallanefnd eða einhverjum þeim öðrum sem eiga að gæta þjóðgarðsins á Þingvöllum. Úr ruslahaug minninganna birtist heimsókn mín til Þingvalla sumarið 1989, skömmu áður en ég flutti til Svíþjóðar. Einhver gamall karl frá Póllandi sem starfaði sem páfi í Róm flutti messu á Þingvöllum og blessaði skrílinn. Framan við páfann sátu ríkisstjórn, alþingiþingismenn, erlendir sendiherrar og önnur fyrirmenni hins opinbera valds í þægilegum stólum. Í brekkunum fjarri páfanum sat alþýða Íslands. Þarna gilti ekki sama reglan jafnt yfir alla.

Ellefu árum síðar kom ég til Þingvalla ásamt Lindu frænku frá Ameríku og sýndi henni staðinn þar sem langafi hennar hafði frumflutt lag sitt við Öxar við ána fyrir rúmri einni öld. Á Þingvöllum var verið að undirbúa kristnihátíð. Niðri á völlunum höfðu verið reist tjöld fyrir fyrirfólkið. Alþýðan mátti sitja áfram í brekknunum og hylla fyrirmenn hins opinbera valds. Linda frænka orðaði það sem hún sá sem að það væri verið að hylla ríkisstjórnina en ekki Jesús Krist. Fyrri daginn sem kristnihátíðin var haldin, völdum við að skoða ýmislegt merkilegt á Suðurlandi, afleiðingar jarðskjálfta nokkrum dögum áður, Gullfoss, Geysi. Við tókum stóran krók framhjá vegalokunum vegna kristnihátíðar á Þingvöllum og létum hátíðina eiga sig. Ég var á vakt seinni daginn sem hátíðin var haldin.

Þegar haldin var hátíð á Þingvöllum í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var ég fjarri góðu gamni og get því ekki tjáð mig um það. Þá tók ég þátt í hátíðarhöldunum á Skansen í Stokkhólmi þar sem ein regla gilti fyrir alla sem tóku þátt.

Á Þingvöllum er sagt að sömu reglur gildi jafnt yfir alla.


0 ummæli:







Skrifa ummæli