Rétt áður ellefu; í þetta sinn tuttuguogníu – við sjáum myndir þeirra í blöðunum; úngir glaðir hraustir menn, kjarni þjóðarinnar. Ef við lítum á skýrslur um skipatjón síðustu ára kemur í ljós hvernig mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust einsog ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurskonar sjálfsagður skattur sem þjóðin greiðir útgerðinni, í hæsta lagi að einhverjar viðkvæmar landkindur tala um “fórnir” eins og það væri einhver háheilög mannblót að drepa þannig fólkið, og guðfræðingar fara á stúfana í blöðum og kirkjum og segja “þeir hafa hreinan skjöld”, rétt eins og einhversstaðar væru einhverjir sem álitu þetta glæpamenn. Síðan þegja allir þángað til næstu handfylli af úngum glöðum hraustum mönnum er kastað niður til fiskanna. Hvenær lýkur þessari morðöld!
Þessi orð Halldórs Laxness voru samin árið 1944 og endurprentuð í sjómannablaðinu Víking rúmum 40 árum síðar. Þá var enn verið að drekkja sonum íslensku þjóðarinnar.
Þegar ég skrifaði pistilinn Álframleiðsla er vinnuvernd var mér snarlega svarað hæðnislega af einum áhangenda Seifing Æsland með því að kalla orð mín þrætubókarlist. Fyrir fólk sem hefur starfað á sjó í áratugi og og lent í ýmsu á sjó getur slíkt verið sem blautur sjóvettlingur í andlitið. Þetta var engin þrætubókarlist. Þetta var fúlasta alvara!
Þegar ég hóf störf á sjó árið 1966 voru líkurnar fyrir því að lifa af sjómennsku sem ævistarf fram að 65 ára aldri nálægt því að vera einn á móti einum að deyja af slysförum á sjó og þá miðað við dánartölurnar frá lokum seinni heimsstyrjaldar og næstu þrjátíu árin þar á eftir. Sum árin voru góð, önnur slæm eins og 1959 þegar drukknaðir Íslendingar voru nærri sex tugir. Líkurnar fyrir því að slasast á sjó voru einn á móti einum fyrir hver tíu ár sem ég yrði á sjó.
Ég var heppin, enda var ég einungis rúma tvo áratugi á sjó og slasaðist bara einu sinni og einungis þrjá mánuði frá vinnu. Þegar ég fékk gilsinn í hausinn þegar ég var 16 ára losnaði ég við hausverkinn eftir nokkra klukkutíma og þegar allt fór á bólakaf þegar ég var 17 ára, náði báturinn að rífa af sér brotsjóinn og einungis kokkurinn slasaðist þótt ýmislegt brotnaði af yfirbyggingunni. Það er þó mest um vert að ég lifði af sjómennskuna. Það gerðu ekki allir sem ég starfaði með á sjó. Á hverju ári fórust einhverjir tugir á sjó eða við sjó.
Á hverri vertíð voru einhverir að slíta af sér handleggi í netaspilum og lengi vel var ekkert gert til að fyrirbyggja að slíkt gæti átt sér stað, reyndar ekki fyrr en komið var fram á áttunda áratuginn. Hjálmar voru óþekktir á sjó. Fyrstu flotgallarnir komu um borð í íslensk skip um 1984, en krafa um flotbúninga ekki gerð fyrr en eftir Suðurlandsslysið á aðfangadagskvöld jóla 1986. Þegar skip fórst var enginn dreginn til ábyrgðar, kannski þá helst skipstjórinn ef hann lifði þá af slysið.
Góður kunningi minn var skipstjóri á flutningaskipi. Honum leist illa á veðurútlitið og tilkynnti það til skrifstofunnar. Þar var honum tjáð að ef hann þyrði ekki að fara með skipið út, yrði annar skipstjóri sendur út til að sigla skipinu. Því fór kunningi minn af stað með skipið. Skipið fórst en áhöfninni bjargað með naumindum. Kunningi minn fékk reisupassann.
Ekki man ég nákvæmlega hvenær Rannsóknarnefnd sjóslysa tók til starfa. Mig minnir þó að það hafi verið um 1974, í byrjun undir framkvæmdastjórn Þórhalls Hálfdánarsonar skipstjóra, jú þess hins sama sem hafði áður stjórnað drengjaheimili með heraga. Þórhallur vann mikið og gott uppbyggingarstarf og síðar tók Kristján Guðmundsson skipstjóri við keflinu þegar Þórhallur fór á eftirlaun. Vandamálið með Rannsóknarnefnd sjóslysa á þessum árum var að nefndin hafði ekkert vald og veit ég ekki til að það hafi breyst neitt. Fólk má alveg leiðrétta mig ef það hefur breyst. Um leið verður að viðurkennast að með stofnun nefndarinnar var stigið fyrsta skrefið í að nútímavæða öryggismál sjómanna.
Það var svo með tilkomu flotbúninganna og Slysavarnarskóla sjómanna sem farið var að taka málin alvarlega og alvarlegum slysum á sjó tók að fækka að einhverju ráði. Það er þó ekki nóg að gert og sjálfsagt að veita Rannsóknarnefnd sjóslysa og yfirvöldum meiri völd í þeim tilfellum sem eitthvað er áfátt í slysavörnum á sjó.
Sjómennska hefur verið stunduð á Íslandsmiðum í þúsund ár, álvinnsla í einungis 39 ár. Þrátt fyrir það er löngu kominn tími til að yfirvöld læri af álverunum og beiti öryggiskröfum þeirra til hagsmuna fyrir sjómenn þessa lands. Svo geri ég þá kröfu til álversandstæðinganna að þeir noti vitið og hætti að hæðast að hinum lofsamlegu öryggiskröfum álvera þessa lands, þakki þeim frekar fyrir að vilja skila starfsfólkinu heilu heim að lokinni vaktinni í kerskálanum.
fimmtudagur, júlí 24, 2008
24. júlí 2008 - Um öryggismál á sjó og í álverum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:20
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli