Ég ætla að vona að ég móðgi engan upprunaMosfelling með því að tala um Mosfellsbæ en ekki Mosfellssveit Um leið vil ég taka fram að ég rata ágætlega úr Árbæjarhverfinu upp í Mosfellsbæ. Það er bara ekki víst að allir ökumenn rati þessa leið.
Ég fór ásamt vinkonu minni á fjall á föstudaginn á bílnum hennar. Hún þekkir lítið til Árbæjarhverfisins og þegar við fórum niður Hálsabrautina fór hún framhjá Krókhálsi, en þaðan er hægt að fara til austurs og komast beint yfir í Grafarholtshverfið og þaðan áfram út á Vesturlandsveginn. Það voru bara engar merkingar þess efnis að þetta væri hægt, allavega engar sem ég man eftir og þá alls ekki á réttum stöðum.
Þegar komið er aðeins neðar á Hálsabrautina er hægt að beygja til vesturs Grjóthálsinn og beygja þaðan ómerkta leið og komast þannig beint út á Vesturlandsveginn. Það eru bara engin merki þess að slíkt sé hægt, allavega man ég ekki neinum slíkum merkjum.
Vinkona mín gleymdi að beygja eftir minni og hélt áfram niður Hálsabrautina og endaði á Stórhöfðanum. Þar beygði hún til austurs og þremur hringtorgum síðar var hún komin í Grafarholtshverfið þaðan sem leiðin var auðveld framhjá bankanum og Húsasmiðjunni og út á Vesturlandsveginn og við komumst alla leið upp að Esjurótum og síðan fótgangandi það sem eftir var leiðarinnar upp Esjuna.
Ætli Gatnamálastjóri fái prósentur af bensínsölu olíufélaganna?
laugardagur, júlí 19, 2008
19. júlí 2008 - Hvernig á að rata úr Árbænum og yfir í Mosfellsbæinn?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:37
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli