fimmtudagur, júlí 10, 2008

10. júlí 2008 - Æ, vesalings Hanna Birna

Þá hefur „minnihlutinn“ loksins látið í sér heyra varðandi hneykslið vegna fúaspreksins á Laugavegi 4-6. Því miður kemur það dálítið seint, allavega hefði mátt heyrast hærra í Degi og félögum þegar sá blörraði keypti ruslið fyrir 580 milljónir. Þá þegar var vitað að kostnaðurinn við að breyta húsunum yrði vart undir hálfum milljarði.

Til frádráttar upphæðinni koma fáeinar milljónir fyrir sölu á draslinu. þar ber fyrst að geta að ekki er viðbúið að hátt verð fáist fyrir Laugaveg 6 nema þá helst til íbúðar en ég á ekki von á að einhver nýríkur þyrlueigandinn hafi efni á að greiða hundruð milljóna fyrir lítið einbýlishús, eina hæð og ris þótt hann fái nostalgíukast. Svipaða sögu má segja um tvíbýlishúsið að Laugavegi 4. Til þess að búa þar verður fólk að hafa grónar lappir í flokk þess blörraða sem er víst ekki einu sinni flokksbundinn nema þá helst í Sjálfstæðisflokknum. Það er auðvitað möguleiki á að einhver nytsamur sakleysinginn í Vinstrigrænum hafi hlotið arf og geti keypt hjallinn.

Af glerbyggingunni á bakvið er fátt jákvætt. Hvaða verslunareigandi vill kaupa sér glerhúsnæði í bakhúsi í felum til að hefja blómlegan verslunarrekstur í hnignandi miðbæjarkjarna þar sem engu má breyta og ekkert má rífa til að mæta þörfum nútímans?

Ég er ekki viss um að hálfur milljarður fáist fyrir draslið þannig að fimm þúsund króna kostnaður á hvern Reykvíking er hrein draumsýn. Mig grunar að lokareikningurinn á hvern borgarbúa verði nær tíu þúsundum.

Því er eðlilegast lóðirnar verði óbreyttar eins og þær eru næstu tvö árin en að kofarnir verði snarlega rifnir daginn eftir næstu borgarstjórnarkosningar þegar sá blörraði og Villi hætta í pólitík.

En mér fannst vesalings Hanna Birna ekki neitt sannfærandi þegar hún talaði um flottheitin í hjöllunum endurbyggðum. Það skil ég vel.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/10/dagur_kostnadur_mun_meiri_en_haldid_er_fram/


0 ummæli:







Skrifa ummæli