mánudagur, júlí 14, 2008

14. júlí 2008 - Af árlegum Safnadegi

Safnadagurinn 2008 var á sunnudag og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og hugðist kíkja á tvö söfn. Ég byrjaði á að aka alla leiðina vestur í gömlu höfn og ætlaði að kynna mér starfsemi Ljósmyndasafns Reykjavíkur, ekki síst í ljósi erinda sem ég tel mig eiga við safnið á næstunni.

Ég kom inn í Grófarhúsið og í afgreiðslu Borgarbókasafnsins talaði ég við ungan mann sem vildi gjarnan leiðbeina mér á besta veg, en því miður var hann ekki viss um að mikið væri um að vera á Ljósmyndasafninu. Ég fór samt upp og þar var ljósmyndasýning Viggós Mortensen í gangi, ekkert annað. Engan starfsmann Ljósmyndasafnsins sá ég og það var harðlæst inn á afgreiðslu safnsins og öll ljós slökkt á Safnadegi ársins 2008.

Eftir þetta kom ég við í Kolaportinu þar sem andrúmsloftið var öllu betra og margt áhugavert í horninu hjá Gvendi dúllara. Á leiðinni heim hugðist ég kynna mér annað safn sem ég hafði séð á netinu að væri opið. Þar var allt slökkt og læst. Það var þó huggun harmi gegn að mikið var um að vera á Árbæjarsafni.

Þegar heim var komið, sá ég á netinu að tilkynningin um opnun seinna safnsins var frá því í fyrra og slæm reynsla af þessum degi kannski gefið tilefni til að hafa lokað að þessu sinni.

Af hverju klikkaði Safnadagurinn svona? Er sunnudagur nærri miðjum júlí kannski það vitlausasta sem hægt er að hugsa sér fyrir söfn í Reykjavík? Eða er ég að misskilja tilgang Safnadagsins?

-----oOo-----

Með þessu fá hin franskættaða Victoría Bernadotte og franska þjóðin hamingjuóskir með daginn.


0 ummæli:Skrifa ummæli