sunnudagur, júlí 06, 2008

6. júlí 2008 – Framtíð lýðræðis og varavaravaraborgarfulltrúi Frjálslynda flokksins

Ég stóð lengi vel í þeirri trú að í borgarstjórn væru jafnmargir varamenn og aðalmenn í borgarstjórn, þ.e. að fyrir hvern borgarfulltrúa sem einhver flokkur vinnur í kosningum væri annar til vara sem fengi titilinn varaborgarfulltrúi.

Á sunnudagsmorguninn er ætlunin að senda út viðtal undir heitinu Framtíð lýðræðis og sem Ævar Kjartansson og Ásgeir Þór Árnason tóku við Ástu Þorleifsdóttur varaborgarfulltrúa eins og hún er kynnt í dagskrárkynningu Rásar eitt. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort hún hafi rétt á því að titla sig varaborgarfulltrúa rétt eins og vafi sá sem umlykur miðborgarstjórastjóratitil Jakobs Frímanns Magnússonar verkefnastjóra þess blörraða í miðborgarmálum Reykjavíkur.

Með sínum 6527 atkvæðum kom Frjálslyndi flokkurinn einum manni að í Reykjavík við síðustu borgarstjórnarkosningar, hinum óháða og blörraða sem má helst ekki nefna nema á jákvæðan hátt því annars móðgast hann. Varaborgarfulltrúinn heitir Margrét Sverrisdóttir og er hún meðlimur í Íslandshreyfingunni. Ef sá blörraði veikist sem getur alls ekki skeð því þá móðgast hann, tekur Margrét Sverrisdóttir við stólnum og „meirihlutinn“ riðar til falls. Ef svo illa skyldi fara að bæði borgarstjórinn og varaborgarfulltrúinn skyldu vera fjarverandi, fær Guðrún Ásmundsdóttir varavaraborgarfulltrúi og leikkona að verma sætið um tíma. Þá fyrst ef hún getur ekki heldur setið í borgarstjórn fær varavaravaraborgarfulltrúinn að setjast í stól borgarfulltrúa.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nær að Ásta Þorleifsdóttir titli sig sem varamann varafulltrúa varaborgarfulltrúa Frjálslynda flokksins í Reykjavík? Þá um leið hvort hún megi titla sig sem varaborgarfulltrúa? Eða geta allir þeir sem voru á framboðslistum sem komu inn manni í borgarstjórn titla sig sem varaborgarfulltrúa.

Eða er kannski framtíð lýðræðis í Reykjavík í hættu með núverandi borgarstjóra og fylgiliði hans?


0 ummæli:Skrifa ummæli