miðvikudagur, júlí 23, 2008

23. júlí 2008 - Ostagerð er hergagnaiðnaður, eða hvað?

Áður en ég lýk umfjöllun minni um ál, langar mig til að svara nokkrum gagnrýnisröddum á orð mín um álframleiðslu og þá fyrst og fremst um neikvæðasta bullið í þeim efnum. Þar vil ég byrja á að fjalla um orð Evu Hauksdóttur og Jóns Steinars Ragnarssonar um álframleiðsluna sem þau ásamt Seifing Æsland vilja kenna við hergagnaiðnað.

Það er hægt að nota ótrúlegustu hluti í hernaði, þar má nefna ál og þar má einnig nefna ost. Þegar hermaðurinn vaknar að morgni fær hann sér gjarnan staðfastan og góðan morgunmat svo hann verði frekar hæfur til að fara út og drepa fólk. Hann fær sér morgunkorn með mjólk og brauð með osti, því eins og Osta- og smjörsalan hefur svo rækilega minnt okkur á með skemmtilegum hætti í auglýsingum sínum, þá gefur osturinn okkur kraft til að vinna afrek, reyndar líka óhæfuverk, í lífinu. Semsagt, ostagerð er hergagnaframleiðsla.

Seifing Æsland hafa mótmælt hergagnaframleiðslu Orkuveitunnar við höfuðstöðvar hennar, þ.e. framleiðslu á rafmagni. Því er sjálfsagt að minna þá á að vestan við Orkuveituna eru höfuðstöðvar hergagnaframleiðandans Osta- og smjörsölunnar. Austan við Orkuveituna er svo annar hergagnaframleiðandi, Vífilfell hf (fjallið heitir Vífilsfell) sem framleiðir kók, en á myndum sem sýndar eru frá herbúðum hermanna í Írak, eru þeir drekkandi kók í tíma og ótíma, semsagt annar hergagnaframleiðandi. Þessu til viðbótar má þess geta að amrískir herforingjar eru ekkert hrifnir af áli. Þeir vilja stál í Hömmerana sína og skriðdrekana og myndu gjarnan hafa stál í flugvélunum líka ef það væri mögulegt.

Ég legg til að Jón Steinar og Eva Hauksdóttir ásamt þessu Seifing Æsland liði hætti að rugla eilíflega um áliðnaðinn sem hergagnaiðnað og reyni að koma sér niður á jörðina.Varðandi orð Jóns Steinars um að álverð fari eftir hernaði, þá er það álíka gáfulegt og mótmæli hans gegn góðri leiðni áls. Staðreyndin er sú að með hækkuðu heimsmarkaðsverði á olíu, aukast kröfurnar um léttari málma í farartæki og þá sérstaklega áls.

Unnsteinn bendir á að notkun plasts í flugvélum sé sífellt að aukast. Í nýjustu flugvélum, t.d. Dreamliner er talsvert um koltrefjaefni sem er enn léttara en ál í byrðing, en þar með er ekki sagt að það ryðji áli í burtu nema að hluta enda er grind flugvélarinnar áfram úr áli Þá er koltrefjaefni þegar komið sem byrðingur í kappakstursbíla sem sést ágætlega á því að verð eins kappakstursbíls í Formúlu 1 hleypur á mörgum tugum milljóna. Það er samt heilmikið ál í þeim bílum.

Eva Hauksdóttir heldur því fram að Alcoa fremji mannréttindabrot í Mexíkó. Það er ljótt mál. Flytjum framleiðslu þeirra frá Mexíkó til Íslands og losum þá þannig við þá áþján að fremja mannréttindabrot í Mexíkó. Við skulum taka fagnandi á móti þeim og bjóðum þeim að vera hér án mannréttindabrota.

Sumt fólk hefur bent mér á að ekki sé gott að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ég get alveg tekið undir það. Við brenndum okkur á því 1967-1969 og ég vona að þeir tímar komi aldrei aftur. Þótt það séu fleiri körfur í dag en voru þá, er nauðsynlegt að auka enn á fjölbreytni í atvinnulífinu, helst á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Það þýðir að við höfum ekkert að gera við olíuhreinsunarstöðvar. Um leið eigum við að gera kröfur til þeirra aðila sem fá að reka hér stóriðju að þeir reyni að vinna efnin á eins umhverfisvænan hátt og hægt er og þá með ákveðin umhverfismarkmið í huga. Það þýðir meðal annars að fjöldi mengunarslysa sem hefur átt sér stað við Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og sem ég hefi séð með eigin augum eiga alls ekki að líðast og tel ég að beita eigi fyrirtækið háum sektum í hvert sinn sem slíkt skeður. Á sama hátt á að gera kröfur til álvera um þróunarvinnu sem miði að auknum mengunarvörnum í framtíðinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli