mánudagur, júlí 21, 2008

21. júlí 2008 - Álframleiðsla er vinnuvernd

Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt hópi áhugafólks um öryggi á vinnustöðum austur á firði og heimsóttum meðal annars álver Alcoa á Reyðarfirði sem þá var í smíðum undir stjórn Bechtel. Þar kynntum við okkur öryggisreglur og framgang við byggingaframkvæmdirnar. Eftir ágæta kynningu á framkvæmdunum héldum við aftur í rútuna sem átti að fara með okkur upp á Hérað. Við höfðum ýmislegt að ræða um þegar inn í rútuna var komið og alltaf beið bílstjórinn.
„Á ekki að keyra af stað?“ kallaði einn fram til bílstjórans.
„Nei“ svaraði bílstjórinn, „ekki fyrr en allir eru sestir og búnir að setja á sig öryggisbelti.“

Öryggiskröfurnar voru einfaldlega það miklar inni á framkvæmdasvæðinu að enginn bíll fékk að hreyfa sig inni á svæðinu öðruvísi en að allir væru í öryggisbelti, enda voru sárafá óhöpp við byggingu álversins og þetta smitaði sig yfir á starfsemina sjálfa þegar Fjarðaál hóf rekstur álvers Alcoa á Reyðarfirði. Kröfurnar voru ekki í líkingu við þetta hjá yfirverktakanum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, (Impregilo) sem sýndi sig í nokkrum banaslysum auk fjölda smærri slysa.

Fyrstu árin sem Ísal starfaði í Straumsvík urðu mörg alvarleg slys þar þar á meðal einhver banaslys. Þá var mengunin frá álverinu talsverð og gert gaman að Hafnfirðingum, þeir þyrftu ekki að tannbursta sig því þeim nægði að brosa í átt að álverinu og þannig fengju þeir nægt flúor. Með auknum kröfum um mengunarvarnir var hafist handa um að loka kerjunum í álverinu og sömuleiðis voru kröfur um öryggi stórlega auknar. Þetta hefur meðal annars skilað sér með stórfækkun slysa og ef mig misminnir ekki, varð síðasta banaslys hjá verktaka fyrir kannski sex árum síðan. Sjálf sé ég fyrir mér að eftir örfá ár verði hafist handa um niðurdælingu koltvísýrings frá verksmiðjunum til að binda hann í jarðveginum fremur en að sleppa honum út í andrúmsloftið.

Bæði Fjarðaál og Ísal hafa verið brautryðjendur í aukinni öryggisvitund íslensku þjóðarinnar, kannski einnig Norðurál, en ég þekki síst til þar. Á sama tíma hefur vissulega einnig orðið jákvæð þróun í hinum þjóðlegu atvinnugreinum, en því miður hefur það tíðkast fram að þessu að fórna nokkrum íslenskum sjómönnum á hverju ári, en algengt var, að nokkrum tugum sona þjóðarinnar var drekkt á ári í þágu þjóðlegra atvinnugreina. Þetta var talið vera eðlilegur fórnarkostnaður og fátt gert til að bæta úr fyrr en um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Það er því kannski eðlilegt að margir sjómenn hafa sóst eftir því að vinna í því örugga starfsumhverfi sem felst í álverum.

Í dag reyna stærri fyrirtæki á Íslandi að taka álverksmiðjurnar sér til fyrirmyndar í öryggismálum, til dæmis með innleiðingu OHSAS18001 öryggisstaðalsins, en stutta lýsingu á honum má lesa á heimasíðu Ísal. Þess má geta að fólk sem ekki þekkir til öryggisstaðla, gerir oft grín að kröfunum, enda virka þær stundum öfgafullar og fáránlegar. Það hefur hinsvegar sýnt sig að betra er að hafa reglurnar til vinna eftir og viðurkenna frávik sem geta komið upp á, heldur en að hafa fáar eða engar reglur.

Mótmælendum til happs gera öryggisreglurnar ráð fyrir óvæntum atvikum eins og mótmælum og er þá vinna stöðvuð uns hættan hefur verið fjarlægð, hvort heldur það er með handtökum eða samkomulagi. Það má því segja að álframleiðsla er vinnuvernd!


0 ummæli:







Skrifa ummæli