föstudagur, júlí 04, 2008

4. júlí 2008 - Að hlaupa í veg fyrir flugvélar!

Enn einu sinni fóru bloggheimar offari. Með miklum tilfinningahita var ekki gerður greinarmunur á brottvísun manns og þess að hugsanlega stofna fjölda mannslífa í hættu.

Ég vil byrja á að taka fram að ég er ósammála íslenskum stjórnvöldum þegar gripið er til brottvísunar fólks úr landi. Þar minnist ég þess er ég bjó í Svíþjóð og sá þar skrá yfir fjölda flóttamanna sem höfðu fengið hæli í hinum ýmsu Evrópulöndum sem pólitískir flóttamenn. Nokkur ríki voru áberandi lægst, Finnland var með fáa, Grikkland var með sjö, en eftirbátur allra var Ísland með einn flóttamann ef mig misminnir ekki. Þótt annar hafi bæst við með tilkomu eins frá Sri Lanka, er Ísland enn langsamlega lægst Evrópulanda. Það nægir að skoða mál Kenýamannsins til að skilja hvernig Íslendingar komast hjá því að taka á móti pólitískum flóttamönnum.

Þegar tveir unglingar hlupu út á flugbraut á Keflavíkurflugvelli á fimmtudagsmorguninn gerðu þeir ekkert til hjálpar umræddum Kenýamanni. Þvert á móti sköpuðu þeir stórhættu fyrir almenna flugfarþega og sköpuðu að auki fordæmi fyrir dómsmálaráðherra að herða mjög á löggæslunni og hinum svokölluðu öryggismálum. Rétt eins og æðibunugangur tveggja gasskrækjandi lögreglumanna með piparúða gaf honum möguleika á að krefjast aukinna fjárveitinga og hörku af hálfu njósnardeildarinnar, hinnar svokölluðu greiningardeildar, er hætta á að hann muni nýta sér tækifærið að heimta aukna öryggisgæslu í ljósi þess að kjánarnir tveir óðu inn á flugbrautina. Fyrir bragðið urðu þeir þess valdandi að öll mótmæli vegna Kenýamannsins verða skoðuð í ljósi flugbrautarmálsins og dæmd út frá því.

Það er svo önnur saga að sex ára hámarksrefsiramminn fyrir að hlaupa inn á flugbrautina getur orðið alltof vægur þegar hugsað er út í það manntjón sem getur hlotist af því að unglingar hlaupi í veg fyrir flugvél í flugtaki.


0 ummæli:Skrifa ummæli