föstudagur, júlí 11, 2008

11. júlí 2008 - Af fótboltavandræðum

Það var snemma á sjöunda áratugnum sem ég fór í fyrsta sinn á alvöru fótboltaleik á Laugardalsvellinum. Þar áttust við KR og Valur og að sjálfsögðu unnu kapparnir í KR þessa rauðu með sjö mörkum gegn tveimur. Nú á fimmtudagskvöldið tóks þessum rauðu, sem nú eru eiginlega búnir að selja sál sína til Voðafóns, að hefna sín og kostaði það grátur og gnístran tanna, bæði í Árbæ og Vesturbæ.

Úr því ég er farin að tala um fótboltafélag er ekki úr vegi að gráta örlög annars uppáhaldsfélags, en Halifaxhreppur sem lengi barðist hetjulegri baráttu við að halda sér uppi í langneðstu deild með dyggum stuðningi Gísla bónda Einarssonar í Lundarreykjadal og Skessuhorns, en féll fyrir nokkrum árum niður í kvenfélagsdeildina, varð gjaldþrota í vor.

Ég heimsótti félagið þegar ég átti síðast erindi til Mannshestaborgar fyrir tveimur árum og var mér vel fagnað, þó fremur aurunum sem ég greiddi fyrir ýmsa minnisgripi um þetta fornfræga félag. Daginn eftir að ég heimsótti Halifaxhrepp leit ég við hjá öðru félagi, ekki eins frægu, en það heitir Manchester United. Þar voru allir minningargripir helmingi dýrari. Síðan hefur United of Manchester verið annað uppáhaldsfélag mitt á eftir Halifaxhreppi.

Rétt eins og United of Manchester var stofnað af einlægum aðdáendum Manchester United þegar það lenti í höndunum á fjárglæframanninum Malcolm Glazer vestur í nýlendunum, þá var Halifaxhreppur endurreistur af stuðningsmönnum félagsins og nýtt nafn tilkynnt í fyrradag. Það heitir nú F.C. Halifax Town en gamla nafnið var Halifax Town afc.

Hið nýja félag þarf ekki að hefja keppni á botninum eða tíundu deild eins og United of Manchester, heldur var það aðeins fellt niður um þrjár deildir og mun því spila í áttundu deild næsta vetur eða eins og það heitir fínu nafni: Northern Premier League Division One North. Þess má geta að þetta er sama deildin og United of Manchester lék í síðasta vetur, en þeir unnu sig snarlega upp úr henni á einu ári.

Ég óska að sjálfsögðu báðum liðum allra heilla í framtíðinni


0 ummæli:Skrifa ummæli