þriðjudagur, júlí 08, 2008

8. júlí 2008 - Um kisur, börn og sandkassa


Hér fyrir neðan lóðina okkar er uppgjafa gæsluvöllur sem nú hefur verið lagður niður sem slíkur og í staðinn gerður að almennum leikvelli fyrir almenning. Þrátt fyrir nálægð leikvallarins höfum við sem búum hér, haldið áfram að halda við leiktækjunum á lóðinni okkar, enda fáum að treysta í stjórn Reykjavíkurborgar, né hvenær einhver nýr meirihluti ákveður að fjarlægja allt klabbið og reisa blokk í stað leikvallarins til að hafa af okkur sólskinið.

Um daginn fjárfestum við í nýjum sandkassa fyrir börnin í stað þess risastóra sem kominn var til ára sinna og að auki fullur af kattaskít og ónothæfur fyrir börn að leik. Við fengum okkur svo dúk yfir til að minnka möguleika katta á að gera þarfir sínar í sandkassann og til að framlengja notagildi kassans til þeirra nota sem hann er ætlaður.

Eitthvað voru kettirnir ósáttir og fylgdist ég með einum þar sem hann klóraði án afláts í dúkinn í von um að komast í gegn og gera þarfir sínar. Honum varð þó ekki að ósk sinni og sendi þá hugskeyti til borgarstjórans í Reykjavík sem var fljótur að sinna erindi kattarskammarinnar.

Í morgun mætti sex manna vinnuflokkur frá Reykjavíkurborg með vörubíl og traktorsgröfu, setti nýjan sandkassa á gæsluvöllinn fyrrverandi og fyllti af dýrindis kattasandi.

Nú geta bæði kisur og börn glaðst, börnin yfir að geta verið í friði með sandkassann sinn og kisurnar yfir sínum einkasandkassa á lóð gamla leikvallarins.


0 ummæli:Skrifa ummæli