Í gamla daga þótti ég nokkuð fordómafull út í samkynhneigða, ekkert rosalega æst gegn þeim, hegðaði mér fremur eins og íslenska þjóðin, kaus að hallmæla þeim. Ekki var það vegna þess að ég hefði neitt á móti samkynhneigðum eða öðrum „queer“ hópum, heldur var ég fyrst og fremst að fela mínar eigin hneigðir og þarfir í lífinu. Svo kom ég útúr skápnum hægt og bítandi, eitt lítið skref í einu og sté varlega til jarðar. Ef einhver reyndi að bíta í naglalakkaða stóru tána á mér ef ég fór of langt, kippti ég tánni til baka og gerði nýja tilraun við betra tækifæri.
Ég var ekki ein um fordómana. Þeir virtust frekar algengir hjá fólki sem var að fela kenndir sínar. Ég man eftir einum manni sem bölvaði hommum í sand og ösku í hvert sinn sem þeir bárust í tal. Síðar frétti ég að hann hafði aðrar kenndir sem flokkuðust með sjálfsmeiðingarhvöt þótt ekki væri hann hommi. Rétt eins og ég var að fela mínar kenndir með fordómum, var þessi maður að fela sínar kenndir með því að þykjast vera eitthvað annað en hann var í rauninni með fordómum í garð samkynhneigðra.
Þessa dagana geysist hvert gáfumennið á fætur öðru út á ritvöllinn og oft í Guðs nafni finnur það allt að því fólki sem þráir að fá leiðréttingu á kyni sínu. Ekki ætla ég að gerast svo djörf að ætla þessum bréfriturum að þeir séu að fela eitthvað með fordómafullri hegðun sinni, en það kæmi mér ekkert á óvart þótt í þeim hópi leyndist eins og ein og ein samkynhneigð persóna eða með hlutadýrkun, eða bara með saklausan latexfetisma í felum. Það er ekki einu sinni hægt að benda á bókstafi Biblíunnar til réttlætingar orðum þessa fólks heldur verður þetta fólk að beita túlkunum af sama toga og það fordæmir þjóna þjóðkirkjunnar fyrir, til að finna fordómum sínum stað með orðum.
Fyrir þá sem þverskallast við að nota starfsheitið vélstýra um mig, vil ég benda þeim hinum sama á að mitt opinbera starfsheiti er vélfræðingur og ef hann vill endilega lýsa yfir andúð sinni á mér, verð ég að krefjast þess af honum að hann noti mitt rétta starfsheiti, rétt eins og vélfræðingurinn faðir hans gerði um sjálfan sig. Og hananú!
sunnudagur, júlí 27, 2008
27. júlí 2008 - Margur heldur mig sig!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:15
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli