föstudagur, júlí 25, 2008

25. júlí 2008 - Snillingar á ferð

Fyrir rúmum tveimur árum, eftir að hafa staðið upp á endann í samtals fjóra tíma á tónleikum Rogers Waters, sór ég þess eið að fara aldrei aftur á tónleika þar sem ég þyrfti að standa upp á endann í fleiri klukkutíma og hafa ekkert til að styðja mig við annað en svitalyktina af náunganum við hliðina á mér.

Ég fór á tónleika á fimmtudagskvöldið. Hafði samþykkt að fara með vinkonu minni á tónleika hinna kúbversku Buena Vista Social Club í Voðafónshöllinni sem stendur nokkurn veginn á sama stað og Valsheimilið stóð í eina tíð. Með því að vera komin á staðinn áður en húsið opnaði, tókst okkur að ryðja okkur leið og fengum sæti á albesta stað í stúkunni í troðfullri Voðafónshöllinni. Þar hreykti ég mér hátt og horfði yfirlætislega niður á lýðinn sem stóð á gólfinu og hafði ekkert til að halda sér í annað en svitalyktina af náunganum við hliðina á sér. Meðalaldur tónleikagesta var hár og álitamál hvort ekki væri betra að selja aðeins aðeins færri miða en fjölga sætum í þess stað.

Það voru engin unglömb sem skemmtu sjálfum sér og öðrum á tónleikunum. Þó gat ég ekki annað en hrifist með þeim og þá sérstaklega Orlando „Cachaito“ López sem þurfti að hjálpa inn á sviðið og af því aftur að tónleikunum loknum.

Takk fyrir snilldarlega tónleika Buena Vista Social Club


0 ummæli:Skrifa ummæli