þriðjudagur, júlí 22, 2008

22. júlí 2008 - Álframleiðsla er atvinnuöryggi

Það var árið 1967 sem kreppan brast á. Þetta var engin smákreppa. Síldin, þetta silfur hafsins, brást sökum ofveiði. Á sama tíma varð verðhrun á mörkuðum fyrir frystan Þorsk í Bandaríkjunum. Þessu var mætt með stórfelldri gengisfellingu haustið 1967 og annarri stórri gengisfellingu árið 1968 og dollarinn fór úr 43 krónum í 88 krónur. Byggingariðnaðurinn hrundi saman, útgerðir gátu ekki gert upp við sjómennina sem þó þurftu að taka á sig stórfellda skerðingu á aflahlut til viðbótar við gengisfellingarnar, þúsundir manna og kvenna flúðu land, til Svíþjóðar og Ástralíu, það var kreppa.

Mitt í öllu myrkrinu sást í örlítinn ljósgeisla. Ofarlega í Þjórsá var verið að virkja fyrir hina nýstofnuðu Landsvirkjun og suður í Straumsvík var verið að byggja álver. Þetta var ekki stórt álver, heldur svona lítið og krúttlegt svo notuð séu orð Kolbrúnar Halldórsdóttur og Steingríms Jóhanns Sigfússonar sem sjá lítil 100.000 tonna álver á Bakka og í Reyðarfirði í draumum sínum, en Straumsvíkurverksmiðjan var aðeins 33.000 tonn að stærð er hún var formlega vígð í maí 1970, en framleiðslan hófst ári fyrr.

Síðan þetta var hefur álframleiðendum fjölgað. Auk Straumsvíkurverksmiðjunnar er komið álver í Reyðarfirði og annað á Grundartanga. Samtals starfa um 1400 manns í þessum verksmiðjum auk margra afleiddra starfa og heildarframleiðslugetan er nærri 800.000 tonn á ári. Á sama tíma og framleiðslan hefur stóraukist, hefur störfum í fiskvinnslu fækkað verulega og fiskafli dregist svo verulega saman að það eitt hefði orsakað mjög alvarlega kreppu hefðu Íslendingar ekki haft neitt annað til að reiða sig á. Það má vel vera að Íslendingar séu að keyra inn í kreppuástand, en það er ekki áliðnaði að kenna heldur umframeyðslunni og minnkuðu sjávarfangi af mannavöldum.

Árið 1967 voru öll eggin í sömu körfunni. Með álverum fjölgaði körfunum og um leið tækifærunum í íslenskri atvinnusögu. Nú þurfa t.d. margir Austfirðingar ekki lengur að velja á milli sjómennsku eða brottflutnings til að lifa af. Það eru komin fleiri atvinnutækifæri og brátt mun sama tækifæri geta boðist Þingeyingum þótt enn séu mörg ljón í veginum, en meðal þeirra eru menn sem telja sig vera umboðsmenn Norðausturlands á Alþingi. Um leið er nauðsyn á að auka enn fjölbreytnina, hvort heldur það verður í formi gagnaþjónabús eða annars þess iðnaðar sem veldur ekki alvarlegum umhverfisspjöllum á heimsvísu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli