sunnudagur, júlí 13, 2008

13. júlí 2008 - Það styttist í endalokin.

Nei, nei, dúllurnar mínar, ég er ekkert að boða heimsendi. Ég sit bara hér heima á laugardagskvöldi með ískaldan öl og hugsa um hve ég hefi það gott þrátt fyrir allt hið neikvæða í kringum okkur. Að vísu er ég enn að velta því fyrir mér hvernig ég geti fjármagnað Parísarferð í lok september án þess að það bitni á öllu hinu sem ég þarfnast og kostar peninga, en það hlýtur að bjargast ef ég fresta bílkaupum í nokkra mánuði í viðbót.

Það er þó eitt sem angrar mig þessa dagana. Sumarfríið mitt er að verða búið. Ég er búin að einbeita mér að því að gera ekki handtak í fjórar vikur og einungis tvær vikur eftir áður en þrældómurinn byrjar aftur. Um leið get ég ekki annað en verið ánægð með fríið.

Oft nýtti ég sumarfríið með því að skreppa á sjóinn til að afla mér aura svo ég gæti framfleytt mér af fátæklegum launum mínum á eftir, eða þá að ég vann eitthvað aukalega í landi með fríinu. Í versta falli sleit ég fríið í sundur, tók það í bútum og geymdi hluta fram á veturinn og tók dag og dag þegar eitthvað skemmtilegt var í gangi. Núna hefi ég notið veðurblíðunnar þótt flíspeysan hafi venjulega verið nálæg, rölt á fjöll og haft það huggulegt hér heima, sofið til hádegis og dundað mér við ketti og blóm og bókalestur eftir hádegið.

Ég skil ekkert í því af hverju það gengur ekkert að ná af mér spikinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli