laugardagur, júlí 26, 2008

26. júlí 2008 - Hámark 670 dagar eftir af borgarstjórnartíð þess blörraða

Eftir síðustu Alþingiskosningar stóð þáverandi þingmeirihluti svo tæpt að það var talið óráðlegt að leggja út í heilt kjörtímabil með tæpum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hver einstakur þingmaður gat keyrt sín óskamál í gegnum Alþingi með hótunum um að fella ríkisstjórnina, t.d. ef ekki yrðu boruð göng til Vestmannaeyja, eða þá ef breytt yrði styrkjakerfi landbúnaðarins. Því var ákveðið að freista þess að mynda styrkari þingmeirihluta sem á endanum varð meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Öfugt við þingflokk Sjálfstæðisflokks á Alþingi, ákvað borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að taka áhættuna. Á þessum sex mánuðum sem þeim hefur verið stjórnað af blörruðum borgarstjóra, hafa þeir orðið að láta í minnipokann í hverju málinu á fætur öðru, Vatnsmýrarflugvelli og skipulagi Vatnsmýrarsvæðisins, kaupum og endurbyggingu ónýtra fúaspýtna við Laugaveg, Bitruvirkjun, einkavinavæðingu og fleiru.

Nú síðast setti sá blörraði sig upp á móti hugmyndum um Listaháskólann við Laugaveg og viðbúið að hann fái fullan stuðning borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í málinu. Þessi sami borgarstjórnarflokkur gerir sér samt enga grein fyrir spilverki þess blörraða.

Sá blörraði hefur margsinnis lýst því yfir að hann vilji varðveita nítjándu aldar götumynd Laugavegarins. Á nítjándu öld voru aðallega tún austan við Bakarabrekkuna og svo einn og einn torfbær. Það þýðir að ætlun þess blörraða er að setja jarðýtur á Laugaveginn. Þá verður auðvitað ekkert pláss fyrir Listaháskóla á engjum Ólafs bónda í Víkurkaupstað.

Sveiattan. Ég held að það sé einfaldast að slá öllum framkvæmdum á frest í 670 daga eða uns við losnum við þann blörraða úr borgarstjórn, svo Reykjavík verði ekki gerð að úthverfi frá Kópavogi undir hans stjórn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli