fimmtudagur, júlí 03, 2008

3. júlí 2008 - Hrafnhildur ofurkisa og Ögmundur Jónasson!

Ögmundur Jónasson átti greinar í þremur dagblöðum á miðvikudag, eina sem ég get svosem verið sammála að einhverju leyti, en tvær fjölluðu um eilífa andstöðu hans við framtíð Íslands innan evrópska efnahagssvæðisins. Ég ákvað að skrifa pistil um andstöðu hans, enda sjálf eindregið fylgjandi Evrópusambandsaðild, en það hljóp eitthvað í nýju tölvuna mína.

Þegar ég ætlaði að leita uppi gögn frá því Alþingi samþykkti EES-samninginn vildi tölvan ekki hlýða mér. Ég ætlaði að endurræsa tölvuna, en hún neitaði að lofa mér að endurræsa sig. Að sjálfsögðu bölvaði ég glænýrri tölvunni og því að vírusvörnin hans Frissa fríska sleppti óþverranum í gegn. Þá rak ég augun í skýringuna.

Hrafnhildur ofurkisa hefur stundum lagst fram á skrifborðið mitt á meðan ég er að vafra um netheima. Núna lá hún sofandi á borðinu eins og svo oft áður, en hafði lagt aðra framloppuna á Esc takkann. Um leið og ég færði á henni loppuna lagaðist allt og ég gat tekið gleði mína á ný.

Skammirnar í garð Ögmundar Jónassonar verða þó að bíða betri tíma.


0 ummæli:







Skrifa ummæli