þriðjudagur, júlí 08, 2008

8. júlí 2008 - Læknuð af Formúlufíkn?

Sú var tíðin að ég mátti ekki til þess hugsa að missa af einu einasta móti í Formúlunni, sat sem límd fyrir framan sjónvarpið á meðan Michael Schumacher ók hring eftir hring og náði hverjum heimsmeistaratitlinum á fætur öðrum. Síðan eru liðin einhver ár.

Á sunnudaginn var fór ég í gönguferð, rölti upp með Brunnsánni í Hvalfjarðarbotni og upp á Botnsheiðina, langleiðina í átt að Skorradalnum eftir því sem kallast Síldarmannagötur. Er ég taldi mig komna nógu nærri Skorradalnum og sannanlega komin efst í Grafardalinn, fannst mér nógu langt gengið að sinni og sneri við í leit að sólgleraugunum mínum sem ég hafði lagt frá mér við Tvívörður, nánar tiltekið á annarri hinna nýrri af vörðunum sem eru á milli gömlu Tvívarðanna.

Ég fann sólgleraugun og leiðina til baka í Hvalfjörðinn og sömuleiðis fann ég bílinn minn enda vel útbúin með bæði kompás og GéPéEssinn minn góða. Það var hinsvegar ekki laust við þreytumerki eftir átta tíma göngutúr og ég fór að hlakka til að stíga á vigtina að morgni.

Gleymdi ég ekki einhverju? Jú reyndar. Á leiðinni heim úr Hvalfirðinum og þar sem ég hafði ákveðið að fara Mosfellsheiðina heim lenti ég í niðaþoku og mundi eftir atviki þar sem heimsmethafinn í fjölda heimsmeistaratitla og fjölda mótssigra í fór fram úr öllum í úrhellisrigningu uns hann lenti aftan á þeim síðasta og báðir duttu úr keppni. Úr keppni? Átti ekki að vera Formúlukeppni á sama tíma og ég var á leiðinni í Hvalfjörðinn? Þegar heim var komið reyndist svo vera og ég hafði steingleymt henni. Fólk verður samt að fyrirgefa mér því heimsmethafinn í fjölda heimsmeistratitla og fjölda mótssigra er fyrir löngu kominn á eftirlaun, reyndar um leið og áhugi minn fyrir Formúlukeppninni fór á sömu leið.

-----oOo-----

Svo á ein ung frænka mín í föðurætt fertugsafmæli í dag. Til hamingju með daginn J.Ó.L.


0 ummæli:







Skrifa ummæli