laugardagur, júlí 05, 2008

5. júlí 2008 - Staksteinar og Ögmundur

Það er hægt að sjá ýmislegt jákvætt í flestu fólki. Þannig hefi ég ritað nýlega jákvæð orð um Árna Johnsen sem ég hélt fyrirfram að myndu aldrei koma úr mínum penna. Á sama hátt er hægt að finna eitthvað jákvætt um allt fólk. Þannig var talið að einhver versti fjöldamorðingi sögunnar hefði verið barngóður þótt slíkt verði ekki sagt um ónefnda kaþólska biskupa og háskólakennara sem þó eru vafalaust ágætis fólk að öðru leyti. Þannig er hægt að finna eitthvað jákvætt um allt fólk þótt stundum sé ákaflega djúpt á gæðunum sbr. hinn nýlátna Jesse Helms (eitt versta afturhald þessa heims og þótt víðar sé leitað) og aðdáanda hans númer eitt, George Dobbljú Bush. Segja mátti um þá tvo að það þurfti að kafa býsna djúpt til að finna eitthvað jákvætt en það hlýtur að vera þarna samt.

Það verður seint sagt um mig að ég teljist til aðdáenda Staksteinahöfundar Morgunblaðsins. Þvert á móti hefur einhver versti skammarpistill sem ég hefi sent frá mér á bloggi, fjallað um ónefndan Staksteinahöfund Morgunblaðsins eftir óvenju harkalega árás ónefnds Staksteinahöfundar á vinstrafólk á Íslandi. Í gær varð ég þó að játa að ég og höfundur Staksteina vorum sammála um Ögmund Jónasson. Því ætti ekki að vera nauðsynlegt að bæta um betur. Ég ætla samt að gera það.

Sú afturhaldsstefna sem birtist í orðum Ögmundar á dögunum er hann lét birta hugleiðingar sínar um slit á EES-samningnum fannst mér lýsa ákaflega miklu þori af hálfu Ögmundar. Hverjum öðrum hefði dottið til hugar að vilja innleiða hér gamalt haftakerfi sem er loksins horfið úr íslensku þjóðlífi, þá ekki eingöngu höftin sem hurfu með innleiðingu EES-samningsins, heldur og önnur þau höft og (ó)siði sem enn voru við lýði þegar Ögmundur ruddist fram á sjónarsviðið sem fréttamaður og síðan sem pólitíkus.

Er fólk virkilega búið að gleyma því þegar allt íslenskt atvinnulíf byggðist á sjávarútvegi og landbúnaði, þ.e. öll eggin í sömu körfunni? Það var allsráðandi (með vondum afleiðingum 1967-1969) þar til fyrsta álverið tók til starfa árið 1969 og reyndar lengi enn. Er fólk búið að gleyma því er fólk var bundið átthagafjötrum með atvinnu- og gjaldeyrishömlum þar til fyrir aðeins örfáum árum? Er fólk nokkuð búið að gleyma hinum frjálsa vinnutíma sem í reynd var við lýði á Íslandi þar til EES-samningurinn tók gildi. Er fólk nokkuð búið að gleyma því hvernig krónan féll þúsundfalt á verðbólgutímum fyrir inngöngu í EES og mun reyndar halda áfram að sveiflast uns Evrópubúar munu hafa vit fyrir okkur og veita okkur inngöngu í Evrópusambandið og losa okkur þannig undan áþján Seðlabankans? Er fólk nokkuð búið að gleyma því hvernig fólk þurfti að halda fyrir nefið þegar ekið var nærri botni Hvalfjarðar eða í gegnum mörg sjávarþorp og óþefurinn kallaður peningalykt? Ég brosi enn þegar nefnd eru mál á borð við sjónvarpslaus fimmtudagskvöld og í júlí, áfengislaus miðvikudagskvöld og bann við neyslu á öli á sama tíma og fólk mátti drekka sig blindfullt af sterku áfengi. Þetta var tíðin sem Ögmundur sér í hillingum með orðum sínum gegn aðild að EES-samningnum. Eitt smámál um ríkisstyrki í samanburði við allt þetta er nánast hlægilegt.

Nei, gamli tíminn sem Ögmundur virðist vilja innleiða er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur. Orð Ögmundar verða því að flokkast með öðrum afturhaldsorðum sem verða best gleymt sem hluta af hita umræðunnar.

Sörrý Ögmundur minn, mér þykir samt vænt um þig og margar skoðana þinna.


0 ummæli:Skrifa ummæli