sunnudagur, júlí 27, 2008

28. júlí 2008 - Úr stefnuskrá Kristilega lýðræðisflokksins!

Það hafa margir hneykslast mjög á orðum bloggara sem hafa farið offari gagnvart leiðréttingu á kyni síðustu dagana, svo rækilega að nálgast hatur. En er þessi skoðun bundin við bloggið?

Kristilega lýðræðishreyfingin bauð fram við kosningarnar 1995 og hlaut þá 316 atkvæði. Hún bauð aftur fram fjórum árum síðar undir nafni Kristilega lýðræðisflokksins og hlaut þá 441 atkvæði. Baráttumálin voru að mestu hin sömu við báðar kosningar, en hér koma nokkrir áhugaverðir bitar úr stefnuskránni eins og hún birtist fyrir kosningarnar 1999.

Flokkurinn leggur áherslu á að kristinfræði og Biblíusögur verði kenndar í öllum bekkjum grunnskóla a.m.k. tvær kennslustundir í viku hverri undir handleiðslu kristinna kennara sem til þess hafa þekkingu.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill afnema lög sem leyfa fóstureyðingar þar sem fóstureyðing er manndráp. En lítur á það sem réttlætismál að hvert barn fái að fæðast og alast upp hjá foreldrum sínum.

Flokkurinn mun sporna gegn lagasetningu í þá veru að skylda grunnskólann til að kenna að óeðli kynvillunnar sé jafn eðlilegt og sjálfsagt og það eðli sem Guð hefur áskapað hverjum karlmanni og hverri konu. Flokkurinn mun standa vörð um rétt allra til að kvænast og giftast, en stefnir að afnámi laga um staðfesta sambúð fólks af sama kyni og bendir á þá staðreynd að hjónaband er ekki til nema milli karls og konu.Trúin á Jesú Krist er leiðin til hjálpar kynvilltu fólki út úr villu sinni.

Flokkurinn vill alfarið banna læknisaðgerðir í því skyni að skipta um kyn á fólki enda eru þær til þess eins fallnar að gera fólk örkumla. Guð skapaði manninn karl og konu, honum skjátlaðist ekki um nokkurn mann. Lifandi kirkja Jesú Krists er sú hjálp sem fólk þarfnast sem haldið er þeim villuanda að vilja skipta um kyn.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill standa að rammalöggjöf í anda kristinnar siðfræði sem ýmist heimilar eða bannar: Sjónvaprsefni, myndbönd, tölvuleiki, spil, hljóðsnældur og prentað efni. Í sama anda vill flokkurinn að áfengislöggjöfin verði endurskoðuð.

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill að þekkingin á Biblíunni, Guðs orði, sé undirstaða undir aðra menntun í þjóðfélaginu

Kristilegi Lýðræðisflokkurinn vill að Íslendingar hafi náið samstarf við sem flestar þjóðir heims, en nefnir sérstaklega Ísraelsríki og nágrannaþjóðirnar.

Krafan um bann við læknisaðgerðum til leiðréttinga á kyni var fyrst birt í grein í Morgunblaðinu 21. mars 1995. Á þeim tíma hafði aldrei verið framkvæmd aðgerð til leiðréttingar á kyni á Íslandi. Þessi dagsetning er mér þó mjög hugleikin því þennan sama dag gekk ég fyrir Rättsliga rådet hjá Socialstyrelsen í Stokkhólmi og fékk þar endanlega samþykkt að leggjast undir hnífinn og fá aðgerð framkvæmda og var hún síðan framkvæmd rúmum mánuði síðar, þann 24. apríl 1995.

Þrátt fyrir pistla Jóns Vals gegn mér og mínum síðustu dagana, þá er ég uppfull af kristilegum kærleika og þykir jafnvel obbolítið vænt um karlkvölina.


0 ummæli:Skrifa ummæli