sunnudagur, júlí 20, 2008

20. júlí 2008 - Álframleiðsla er umhverfisvernd

Enn og aftur tröllríður álumræðan þjóðfélagsumræðunni. Hvert gáfnaljósið á fætur öðru lýsir yfir andstöðu sinni við álver og álversframkvæmdir, hlekkjar sig við vinnuvélar og klifrar upp í krana.

Prófum að snúa þróuninni við og hættum að framleiða ál. Hvernig verður þá ástandið í heiminum eftir nokkurn tíma? Allur tiltækur kopar mun klárast í heiminum á stuttum tíma. Flugvélafloti heimsins mun ganga úr sér því enginn mun framleiða þyngri flugvélar á tímum minnkandi olíubirgða. Bílarnir verða miklu þyngri og eyða þarafleiðandi meira eldsneyti og það þarf stjörnulaun til að hafa efni á að reka bílana á eftir, enda mun eyðslan jafnast á við herjeppa á borð við Hummer. Afleiðingarnar munu lýsa sér í auknum gróðurhúsaáhrifum. Reiðhjólin verða mun þyngri nema auðvitað þau sem kosta bílverð. Svona má lengi upp telja. Það er einfaldlega staðreynd að ál er nauðsynlegt í heimi þverrandi orkuauðlinda.

Til þess að nýta eldsneytisforða heimsins á sem hagkvæmastan hátt er nauðsyn á enn meiri álframleiðslu og það er alveg ljóst að hið háa verð sem fæst fyrir álið á heimsmarkaði í dag stafar af því að ekki er framleitt nóg af áli. En þá kemur spurningin. Hvernig er hægt að framleiða ál á sem umhverfisvænstan hátt? Er það með því að framleiða álið í Kína þar sem nóg er af ódýru vinnuafli og kolum í jörð? Nei, slíkt myndi auka verulega á gróðurhúsalofttegurndir í heiminum og auka á þá loftmengun sem þar er þegar komin á hættustig.

Það er ljóst að til að framleiða ál á sem umhverfisvænstan hátt, er einfaldast að framleiða það þar sem nóg er til af ódýru rafmagni sem framleitt er á umhverfisvænan hátt. Það hefur einmitt verið stefna íslenskra stjórnvalda að bjóða álframleiðendum aðstöðu hér á landi og nýta sér hina ódýru og hreinu orku og er það vel.

Ég viðurkenni alveg að það felst lítil náttúruvernd í orðum mínum, en líta má á minniháttar spjöll á íslenskri náttúru sem fórnarkostnað til að koma í veg fyrir enn frekari loftmengun í heiminum rétt eins og að þess þarf á þeim fáu stöðum í heiminum þar sem kostur er á ódýrri og hreinni orku til álframleiðslu. Um leið er það áminning til okkar um að fara varlega til að ganga ekki of langt gegn náttúrunni.

Með þessar staðreyndir í huga get ég ekki annað en flokkað mótmæli gegn álframleiðslu sem baráttu gegn umhverfisvernd þótt þau megi vissulega flokka undir náttúruvernd.


0 ummæli:







Skrifa ummæli