þriðjudagur, júlí 15, 2008

15. júlí 2008 - Af Evruumræðunni

Ég man þá tíð er fólk tók með sér tugi þúsunda í hundrað krónu seðlum til nota erlendis þegar það fór til útlanda. Ég man líka eftir því þegar sumir gengu á milli banka erlendis til að reyna að skipta íslenskum krónum, en ef það tókst var það með miklum afföllum. Á sama tíma þurfti að herja út gjaldeyrir á svörtum markaði á Íslandi til að hafa nóg fyrir sómasamlegu sumarleyfi á sólarströnd eða þá góðri borgarferð í Evrópu. Efnahagsmálin á Íslandi áttu sér helst hliðstæður í rússneskum rúblum eða pólskum zloty á tímum „alræðis öreiganna“ í Austur-Evrópu. Þetta gjörbreyttist með þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi undir heiti EES, bara ekki nóg.

Einhver ágætur maður datt niður á þá snjöllu hugmynd að hægt væri að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessi maður hefur kynnt sér Evrópumálið með þátttöku sinni í einhverri Evrópunefnd sem er að störfum á Alþingi og veit að sú hugmynd sem hann kastaði fram á heimasíðu sinni er bull. Hann er ekki að meina neina alvöru með þessum orðum, heldur er hann að gefa í skyn að hægt sé að fara aðra leið að alvöru gjaldmiðli en að ganga í Evrópusambandið. Þetta gerir hann til að slá ryki í augu flokkssystkina sinna sem eru orðin þreytt á hinni neikvæðu afstöðu flokksforystunnar í garð Evrópusambandsins.

Björn Bjarnason veit það jafnvel og ég og sennilega enn betur, að til að komast í Myntbandalag Evrópu þarf þjóðin að búa við jafnvægi í fjármálum, lága verðbólgu og lága vexti. Íslenska þjóðin var nálægt því að búa við slíkt jafnvægi á seinni helming síðasta áratugar, en heldur ekki söguna meir. Við búum ekki við slíka hagstjórn í dag. Það er ekkert mál að binda krónuna við Evru, eða norska krónu, eða þá bandarískan dollar, en um leið og þau bönd verða rofin aftur, fer allt til fjandans. Þá er óstöðug krónan betri við slíkar aðstæður.

Allt tal um að taka upp Evru eða dollar eða norska krónu með núverandi efnahagsstjórn er því tómt bull. Einasti raunhæfi gjaldmiðillinn að hengja sig á við núverandi aðstæður er Zimbvabe dollarinn. Og hver vill binda sig við Zimbvabe dollarann? (Geir Haarde átti kannski við Zimbvabe dollar þegar hann vildi binda okkur við dollarann).

Það væri því best að Björn og Geir hætti þessu bulli og taki þátt í undirbúningi undir þátttöku í Evrópusamstarfi undir merkjum Evrópusambandsins. Að því loknu verður hægt að vinna að því að koma á jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar og losa okkur við Seðlabankann undir Seðlabanka Evrópu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli