laugardagur, júlí 12, 2008

12. júlí 2008 - Seifing Æsland hópurinn gengur aftur

Ég heyrði í einhverjum ungum manni í útvarpinu á fimmtudagseftirmiðdaginn sem virtist vera fulltrúi Seifing Æsland hópsins. Ekki náði ég nafninu á drengnum, en ástæða þess að ég hóf að hlusta var að hann hljómaði ekki ósvipað og Andri Snær Magnason sem mun vera andlegur leiðtogi Íslandshreyfingarinnar.

Þessi drengur talaði mikið um hið vonda ál, ekki bara álframleiðslu heldur hversu skítt fólkið hefði það sem vann við álboxíð einhversstaðar úti í heimi og því ætti að stöðva álframleiðslu. Drengurinn vitnaði einnig í einhvern indverskan hugsuð frá þessu álboxíð svæði og sá vissi svo sannarlega lengra nefi sínu og sem dæmi um hæfni mannsins nefndi unglingurinn að þessi indverski hugsuður hefði kallað til eitthvert svæði á Indlandi þar sem ætlunin væri að vinna álboxíð en slík vinnsla þar jafnaðist á við menningarlegt þjóðarmorð.

Þá vitum við það og jafnframt hvað ég get verið vitlaus. Auðvitað er allt óréttlæti þessa heims afleiðing af iðnbyltingunni. Það var ekki einu sinni búið að finna upp álið þegar iðnbyltingin hófst, hvað þá eyða einum olíulítra í iðnað. Síðan var álið fundið upp og þarmeð mannvonskan.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að mótmælendurnir í Seifing Æsland séu fæddir tvö hundruð árum of seint og væru best geymdir í torfkofum.

Er ekki kominn tími til að þessir krakkar finni sér eitthvað annað áhugamál að berjast fyrir?


0 ummæli:Skrifa ummæli