laugardagur, október 30, 2010

30. október 2010 - Um tengsl frambjóðenda við hagsmunasamtök

Undanfarna daga hafa einhverjar gróusögur verið í gangi á Facebook þar sem fólk er hvatt til að sniðganga þá aðila sem kosta einhverju til kosningabaráttu sinnar til stjórnlagaþings, þá gjarnan til að útiloka þá aðila sem tengsl hafa við ákveðin hagsmunasamtök. Síðan lendir fólk í vandræðum ef skilgreina á þá aðila sem kosta einhverju til baráttunnar, hvort 3000 krónu kostnaður við auglýsingar á Facebook sé sambærilegur við hámarksupphæð þá sem leyfilegt er að eyða til baráttunnar. Það má um leið velta fyrir sér hvort fólk sem er tiltölulega óþekkt í samfélaginu þurfi ekki að kosta einhverju til að kynna sig og stefnumál sín? Ég ætla ekki að leggja dóm á slíkt og fólk verður að gera upp við samvisku sína hvort það kosti einhverju til að kynna sig eða láti slíkt ógert.

Ég viðurkenni alveg að ég hefi tengsl við fleiri hagsmunahópa. Ég er meðlimur í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ættfræðifélaginu, Samfylkingunni, Samtökum hernaðarandstæðinga, Trans-Ísland, Transgender Europe, Samtökunum 78 og Íslandsdeild Amnesty International og virk í mörgum þessara félaga. Um leið hefi ég ekki farið fram á stuðning frá neinu þessara félaga og þau hafa sömuleiðis ekki boðið mér neinn stuðning. Helsti stuðningurinn sem ég hefi fengið er frá Bleika hnefanum, aðgerðarhóp róttækra „kynvillinga“ og frá Q, félagi hinsegin stúdenta. Eins og gefur að skilja vaða þessir hópar ekki í peningum, enda aldrei ætlunin að þeir veiti mér neitt fjármagn til baráttunnar, en um leið er stuðningur þeirra mikils virði í baráttunni fyrir þeim málum sem ég stend fyrir. Því mun ég ekki kosta miklu, ef nokkru, til kosningabaráttunnar.

Framboð mitt til stjórnlagaþings er persónulegt og sjálfstætt, en um leið hvatning til að standa vörð um málefni friðar og mannréttinda fyrir hönd þeirra hópa sem styðja framboð mitt um leið og ég tel að fjölbreytt lífsreynsla mín geti komið að gagni á Stjórnlagaþingi.

Loks langar mig til að minna á auðkennistala mín í kosningum til stjórnlagaþings er 9068. Þessa tölu þarf að skrá á kjörseðilinn ef fólk ætlar að merkja við mig á kjördag.

fimmtudagur, október 28, 2010

28. október 2010 - Um kristniboðsfræðslu í skólum

Það er yndislegt að heyra hve trúmál geta valdið miklu fjaðrafoki í samfélaginu eins og umræðan um hvort banna skuli kristniboð í skólum. Sjálf velti ég þessum þætti tilverunnar fyrir mér, er mjög hlynnt algjöru trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju, en hefi engan áhuga á að láta af trúnni og vil treysta kirkjunni minni fyrir sálu minni á efstu stundu.

Vegna umræðu um að kirkjunnar þjónar væru á kafi í trúboði í skólum, atriði sem ég minnist ekki að hafa verið áberandi í minni æsku, vil ég þó rifja upp eftirfarandi, þá sérstaklega eftir að ég neyddist til að þegja á fundi um kristnidómsfræðslu í skólum á fundi á miðvikudagskvöldið:

Það var minnir mig í tíu ára bekk að kennarinn okkar í Brúarlandsskóla fór á skíði í frítíma sínum, hann datt og fótbrotnaði. Þarna var úr vöndu að ráða. Það voru fáir kennarar við skólann og enginn gat bætt á sig kennslu Birgis og við sátum heima í nokkra daga á meðan reynt var að leysa úr málinu. Loks fékkst prestur sveitarinnar til kennslunnar og kenndi hann okkur í nokkrar vikur uns Birgir Sveinsson var orðinn það hress að hann gat hafið kennslu á ný. Ekki minnist ég þess að séra Bjarni Sigurðsson hafi haft neina tilburði í þá átt að auka við okkur kristinfræðikennsluna þessar vikur sem hann kenndi okkur eða reynt trúboð á annan hátt.

Loks kom okkar uppáhaldskennari aftur til starfa og allir glöddust, kennarar jafnt sem nemendur, ekki síst sjálfur séra Bjarni sem þurfti ekki lengur að mæta í Brúarlandsskóla á Landrovernum sínum á hverjum morgni.

Þessi stutta saga segir ekkert um hvort auka skuli eða draga úr kristnidómsfræðslunni í skólum landsins, miklu fremur hvort ekki beri að banna skíðaíþróttina á vetrum svo komið verði í veg fyrir að vinsælir kennarar slasi sig á skíðum í trássi við samþykki nemendanna!

mánudagur, október 25, 2010

25. október 2010 - Um Skotturnar

Á sunnudag var haldin ráðstefna í Háskólabíói um ofbeldi gagnvart konum og að því er mér skilst stóðu Skotturnar, samtök rúmlega tuttugu kvennasamtaka fyrir ráðstefnunni. Því miður komst ég ekki á ráðstefnuna vegna vinnu minnar, en vinafólk mitt sat ráðstefnuna alla, þó hvorki vegna Vigdísar Finnbogadóttur forseta né hins indverska fulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem var kannski helsta skrautfjöður ráðstefnunnar.

Á fundinn hafði verið boðið Janice Raymond, en þótt hún hafi unnið mikið og vonandi gott starf gegn mansali og vændi, er hún frægust fyrir baráttu sína gegn transkonum. Í bókinni „The Transsexual Empire, the making of the she-male“ frá því 1979 dregur hún upp kolsvarta mynd af konum sem fæddust sem karlar og lýsir því hvernig þær eigna sér kvenlíkamann í neikvæðum tilgangi, eða eins og sagði í Morgunblaðinu á laugardag, „að þær séu útsendarar karlaveldisins sem ráðist inn í helgustu vé kvenna og eigni þannig körlum það sem konum er mikilvægast, að vera kona.“

Á ráðstefnunni kom Janice Raymond ekkert inn á sín hjartans mál og forðaðist að nefna baráttu sína gegn transkonum, enda væri eðlilegast að loka hana inni fyrir afstöðu sína, en samkvæmt 233 grein hegningarlaganna eru viðurlögin við skoðunum hennar allt að tveggja ára fangelsi. Sjálf get ég ekki sætt mig við að hún sem hatursmanneskja gegn manneskjum skuli fá að ganga laus á Íslandi á sama tíma og öfgafullur hvalverndunarsinni er sendur úr landi með fyrstu vél er hann kemur til landsins. Það er greinilegt að hvalir eru í meiri metum á Íslandi en manneskjur.

Í lok maí 2006 kom vinkona Janice Raymond að nafni Germaine Greer til Íslands og flutti erindi á ráðstefnu á vegum Tengslanets í þágu kvenna sem haldið var að Bifröst 1. og 2. júní 2006. Þar hélt hún miskunnarlaust fram skoðunum sínum og Janice Raymond gegn transkonum. Hún var hvorki handtekin né lokuð inni eftir hatursræðu sína, heldur var klappað fyrir henni þótt nær hefði verið að senda hana beint í beint í fangelsi eftir hatursáróður sinn.

Gott dæmi um hatursáróður Germaine Greer sjást á eftirfarandi síðu:

http://ai.eecs.umich.edu/people/conway/TS/Rogue%20Theories/Greer/Exorcism%20of%20the%20mother.html

Ég vona að Skottunum hafi yfirsést ferill þeirra vinkvennanna Janice og Germaine og að þær muni gæta þess í framtíðinni að kalla ekki aftur slíkt illþýði til Íslands sem þær Janice Raymond og Germaine Greer eru.

mánudagur, október 18, 2010

18. október 2010 - Framboð til Stjórnlagaþings

Ég, Anna Kristín Kristjánsdóttir, fædd 30. desember 1951 í Reykjavík, lýsi hér með yfir framboði mínu til stjórnlagaþings. Ég hefi þegar afhent nauðsynleg gögn til Landskjörstjórnar með 50 meðmælendum.

Með framboði mínu legg ég megináherslu á mannréttindi öllum til handa í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þá sérstaklega í samræmi við baráttu minnihlutahópa fyrir réttindum sínum og að ekki megi leiða í lög mismunun gegn þessum sömu hópum. Sömuleiðis legg ég áherslu á friðarmálefni, að tryggt verði í stjórnarskrá að herskyldu megi aldrei leiða í lög né að Ísland taki þátt í hernaði á hendur öðrum þjóðum. Þá tel ég að virkja beri trúfrelsið með aðskilnaði ríkis og kirkju og kirkjan gerð sjálfstæð gagnvart ríkinu.

Ég vil aðskilnað lagavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds á Íslandi. Þannig verði óheimilt að sami aðili sitji samtímis á Alþingi og í ríkisstjórn og að dómstólar starfi sjálfstætt og án afskipta framkvæmdavaldsins. Ísland verði eitt kjördæmi þar sem alþingismenn vinni með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég vil að Stjórnlagaþing finni ásættanlega lausn í náttúruverndarmálum Íslands sem hægt verði að festa í stjórnarskrá og miðað skuli við í störfum laga- og framkvæmdavalds.

Ég mun tjá mig frekar á næstu vikum um þessi málefni og önnur sem kunna að koma til umræðu í tengslum við kosningar til stjórnlagaþings.

-----

Ég er fædd í Reykjavík og ólst þar upp að hluta, en átti einnig góða æsku að barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal þar sem ég dvaldi frá sjö til tólf ára aldurs. Ég fór til sjós á togara þegar ég var fjórtán ára og varð sjómennska hlutskipti mitt næstu áratugina á eftir, sem vélstjóri frá 1974. Ég settist á skólabekk í Vélskóla Íslands haustið 1972 og lauk þaðan námi vorið 1977 eftir að hafa tekið mér eins árs leyfi frá námi er ég tók þátt í að stofna fjölskyldu ásamt þáverandi maka.

Árið 1984 gekk ég í gegnum hjónaskilnað. Ári síðar settist ég enn á ný á skólabekk í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð jafnframt því sem ég lauk sveinsprófi í vélvirkjun. Árið 1987 hætti ég til sjós, lauk stúdentsprófi 1988 og tók ágætan kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni Snævarr og almennri lögfræði veturinn á eftir, en lét tilfinningar mínar stjórna lífi mínu árin á eftir, flutti til Svíþjóðar 1989, starfaði eitt ár við vélaprófanir hjá Scania í Södertälje, en fékk þá starf hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar þar sem ég starfaði næstu sex árin á eftir sem vélfræðingur við kraftvarmaverið í Hässelby í Stokkhólmi. Á þessum tíma gekk ég í gegnum erfiðustu lífsreynslu lífs míns, að koma opinberlega út úr skápnum sem transmanneskja og síðan að ganga í gegnum erfiðar aðgerðir til leiðréttingar á kynferði mínu.

Ég flutti heim aftur 1996, átti í nokkrum erfiðleikum með að fá vinnu á Íslandi, kannski vegna fordóma, en með hjálp góðs fólks á Eskifirði ákvað ég að dvelja um kyrrt á Íslandi um sinn, en fékk svo vinnu hjá Hitaveitu Reykjavíkur þá um haustið og er enn hjá arftaka Hitaveitunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem ég starfa sem vélfræðingur í stjórnstöð OR.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur starfa ég við hjarta Reykjavíkur, fylgist með flæði heits og kalds vatns um hverfi borgarinnar og nágrannasveitarfélaga, en einnig með því sem Reykvíkingar og nærsveitungar skila frá sér, fráveitunni, auk framleiðslu á rafmagni á Nesjavöllum og Hellisheiði.

-----

Meðal helstu félagsmálastarfa minna er eftirfarandi auk starfa nemendafélaga:
Í skólanefnd Vélskóla Íslands 1976-1977
Í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi 1990-1993
Í menningarnefnd Landssambands Íslendingafélaga í Svíþjóð 1991-1994
Formaður Föreningen Benjamin í Svíþjóð 1994-1996 (félag transsexual fólks í Svíþjóð)
Í stjórn Ættfræðifélagsins 2002-2006
Í stjórn Transgender Europe 2005-2008 (Evrópsku transgendersamtökin)
Í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík frá 2009
Fulltrúi VM í Siglingaráði frá 2009
Í trúnaðarráði Samtakanna 78 frá 2009, í stjórn Samtakanna frá 2010
Auk þessa er ég virk í Íslandsdeild Amnesty International, tók þátt í stofnun félagsins Trans-Ísland árið 2007 og hefi haldið fjölda fyrirlestra um transgender bæði heima og erlendis og kynnt þau mál í viðtölum og blaðagreinum.

-----

Að þora er að missa fótfestuna um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.

laugardagur, október 16, 2010

16. október 2010 - Enn um stjórnlagaþing

Ég svaf á áskorunum sumra um framboð til stjórnlagaþings aðfaranótt föstudags og svaf bara býsna vel. Er ég vaknaði um morguninn var ég hress og endurnærð og tilbúin í nánast hvað sem er nema að bjóða mig fram til stjórnlagaþings.

Nú þegar eru komnir á annað hundrað frambjóðendur til verkefnisins og margir þeirra þurfa að finna sér starf við hæfi. Með þessu er ég ekki að halda því fram að frambjóðendurnir séu allir jafnhæfir til setu á stjórnlagaþingi því þar er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. Nokkrir eru samt vel hæfir til verkefnisins og er trúandi til að gera góða hluti, en á sama tíma efast ég um hæfileika annarra til að vinna af heilindum að betri stjórnskipan fyrir lýðveldið Ísland. Á listanum sá ég meðal annarra einn sem ætlar að bjóða sig fram vegna andstöðu sinnar við Evrópusambandið. Ég efast um að sá viti út á hvað stjórnarskrá gengur. Þá er ég ekki viss um heilindi tveggja guðfræðinga sem báðir teljast með öfgafyllri kennimönnum á sviði trúmála og sömu sögu verður að segja um aldraðan trésmið sem tók þátt í stofnun Kristilega lýðræðisflokksins árið 1995. Vafalaust eiga fleiri furðufuglar eftir að skjóta upp kollinum fyrir hádegi á mánudag sem gaman verður að fylgjast með næstu vikurnar.

Ég ætla samt að fara eftir sannfæringu minni og kjósa það fólk sem ég treysti til að vinna íslensku þjóðinni gagn með nýrri og betri stjórnarskrá.

föstudagur, október 15, 2010

15. október 2010 - Stjórnlagaþing

Undanfarna daga hafa nokkrar manneskjur komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða mig fram til þátttöku í Stjórnlagaþingi. Ég hefi ekki tekið mikið mark á þessum áskorunum, enda veit ég um nokkra frábæra frambjóðendur sem hafa gefið kost á sér til fremur erfiðs þinghalds þar sem tekist verður á um grundvallarbreytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem gamla stjórnarskráin sem að grunni til er frá 1874 á Íslandi og enn eldri í Danmörku og er að mörgu leyti barn síns tíma.

Ég hefi aldrei farið í grafgötur um áhuga minn fyrir stjórnarskrá Íslands, en tel um leið mikilvægt að þættir eins og barátta fyrir friði, hógværri náttúruvernd og mannréttindum til allra þjóðfélagsþegna eigi að vera bundnir í stjórnarskrá, þar með talin réttindi til fæðis og húsnæðis, auk sjálfsagðra þátta eins og aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds svo ekki sé talað um sjálfstæði dómstóla og virku trúfrelsi sem er vart til staðar í núverandi stjórnarskrá, en sjálf er ég meðlimur í þjóðkirkjunni og hefi ekki hugsað mér að yfirgefa hana þótt hún verði skilin frá ríkisvaldinu.

Í stað þess að gefa kost á nokkurri umræðu um hugsanlegt framboð mitt, hefi ég stutt eitt framboð með undirskrift minni, vitandi að umræddur frambjóðandi er mikill friðarsinni og um leið feministi og róttækur jafnaðarmaður. Samtímis erum við ekki flokksystkin í stjórnmálum. Ég vil ekki nefna frambjóðandann á þessari stundu.

Meðal helstu þátta sem ég tel vera andstæð framboði mínu er tímaleysi. Ég er í of mörgum stjórnum og nefndum félagasamtaka og ég hefi ekki haft þann tíma sem ég þarf til að ljúka mikilvægum skrifum sem ég þarf að ljúka sem fyrst. Samtímis kitlar hugmyndin um Stjórnlagaþing áhuga minn, ekki síst vegna þess hve mikilvægt það er að raddir hinsegin fólks fái að heyrast á Stjórnlagaþingi, þar á meðal okkar sem teljumst vera trans eða intersex. Ég fór því að endurskoða fyrri ákvörðun þegar mér bárust áskorun frá virkum hópum hinsegin fólks til væntanlegs framboðs míns.

Ef einhver kemur með áskorun undirritaða af 40 einstaklingum á meðmælalista skal ég bjóða mig fram af fullri alvöru með bleikt bros á vör. En það verður líka að vera tilbúið og skilað inn til viðeigandi yfirvalda fyrir hádegi þann 18. október 2010.

Ritað á 35 ára afmæli útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í 200 sjómílur.

miðvikudagur, október 06, 2010

6. október 2010 - TGEU

Transgender Europe er merkilegur félagsskapur. Í þessum félagsskap mætast persónur sem áður voru hataðar og fyrirlitnar um allan heim, barðar og myrtar og töldust vera verstu úrhrök sem fyrirfinnast á jarðríki. Eftir fjöldamörg morð og hundruð þúsunda misþyrminga komum við 128 transpersónur og stuðningsfólk saman í ráðhúsinu í Vínarborg árið 2005 og stofnuðum með okkur samtök, Transgender Europe, skammstafað TGEU og ég lenti í fyrstu stjórninni.

Fyrstu tvö árin voru erfið. Fyrsta stjórnarfundinn héldum við í Genf í Sviss og einungis níu af fyrstu stjórninni mættum til fundarins, ég sjálf, Stephen Whittle frá Englandi, Jo Bernardo frá Portúgal, Eva Fels og Jo Schedlbauer frá Austurríki, Julia Ehrt og Jane Thomas frá Þýskalandi, Justus Eisfeld frá Þýskalandi/Hollandi og Rosanna Viano frá Ítalíu. Allur tíminn fór í umræður um skipulag og stjórn TGEU og síðan var haldið á transgenderráðstefnu sem haldin var á vegum ILGA (International Lesbian and Gay Association) þar sem ég hitti fjölda baráttufélaga úr transgenderfjölskyldunni og félaga, þar á meðal Mariele Castro Espin, dóttur Raul Castro forseta Kúbu.

Jafnframt fyrstu tvístígandi skrefunum var baráttunni haldið áfram. Einhver í stjórninni gerðu heimildarkvikmynd um morðið á Gisbertu, brasilískri stúlku úr fjölskyldunni sem var misþyrmt og síðan myrt af unglingagengi í Portúgal. Á fundi í Manchester var Justus Eisfeld kosinn formaður og stóð sig með prýði. Þá voru komnar nýjar manneskjur í hópinn, Philippa James frá Írlandi og fleiri, en Jo Bernardo komin á nýjar vígstöðvar í lífi sínu. Áfram héldum við að hittast og ræða framtíðna, í Torino, Amsterdam og Berlin. Það fór að sjá á pyngjunni og ég sá fram á gjaldþrot ef ég héldi áfram sama hætti þótt árið 2007 væri ekki liðið.

Ég sótti um styrki í allar áttir og fékk næstum jafnmargar neitanir. Einasta ljósið í myrkrinu var Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur þaðan sem ég fékk hundrað þúsund króna styrk vegna fundarhalda á vegum TGEU. (Landsbankinn-Björgólfur Guðmundsson) Þrátt fyrir þennan styrk varð ég að draga saman seglin og tilkynnti fyrir annað þing TGEU í Berlín 2008 að ég gæti ekki haldið áfram starfi fyrir samtökin af fjárhagsástæðum.

Við annað þing TGEU í Berlín í maí 2008 tók ég að mér að gerast skoðunarmaður reikninga félagsins og sit enn með þá ábyrgð. Skömmu fyrir þingið bárust okkur þær kveðjur frá Evrópusambandinu að við værum samþykkt NGO alþjóðasamtök (NGO = No Goverment Organisation) og þar með fóru peningar að streyma inn og ég átti fullt með að samþykkja reikninga félagsins.

Þriðja þing TGEU var haldið í Malmö í Svíþjóð haustið 2010. Þingið sóttu um 240 manns og ég þurfti að svara fyrir einstök atriði í reikningum samtakanna, einhverra atriða sem aðeins voru pro forma er ég samþykkti að gerast endurskoðandi tveimur árum áður. Ég fékk mótframboð og allt í einu fann ég að baráttan fyrir réttindum transgender fólks var að vinnast.

Einungis Julia Ehrt er enn í stjórn TGEU nú sem formaður samtakanna, öll hin eru hætt eða búin að draga sig í hlé frá stjórninni, þar á meðal Stephen og ég. Baráttan er unnin en samtímis er hún rétt að hefjast. Á meðan transgender manneskja er myrt að meðaltali annan hvern dag vegna þess að hún er transgender erum við á byrjunarreit. En við gefumst ekki upp og munum sigra að lokum.