laugardagur, október 16, 2010

16. október 2010 - Enn um stjórnlagaþing

Ég svaf á áskorunum sumra um framboð til stjórnlagaþings aðfaranótt föstudags og svaf bara býsna vel. Er ég vaknaði um morguninn var ég hress og endurnærð og tilbúin í nánast hvað sem er nema að bjóða mig fram til stjórnlagaþings.

Nú þegar eru komnir á annað hundrað frambjóðendur til verkefnisins og margir þeirra þurfa að finna sér starf við hæfi. Með þessu er ég ekki að halda því fram að frambjóðendurnir séu allir jafnhæfir til setu á stjórnlagaþingi því þar er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. Nokkrir eru samt vel hæfir til verkefnisins og er trúandi til að gera góða hluti, en á sama tíma efast ég um hæfileika annarra til að vinna af heilindum að betri stjórnskipan fyrir lýðveldið Ísland. Á listanum sá ég meðal annarra einn sem ætlar að bjóða sig fram vegna andstöðu sinnar við Evrópusambandið. Ég efast um að sá viti út á hvað stjórnarskrá gengur. Þá er ég ekki viss um heilindi tveggja guðfræðinga sem báðir teljast með öfgafyllri kennimönnum á sviði trúmála og sömu sögu verður að segja um aldraðan trésmið sem tók þátt í stofnun Kristilega lýðræðisflokksins árið 1995. Vafalaust eiga fleiri furðufuglar eftir að skjóta upp kollinum fyrir hádegi á mánudag sem gaman verður að fylgjast með næstu vikurnar.

Ég ætla samt að fara eftir sannfæringu minni og kjósa það fólk sem ég treysti til að vinna íslensku þjóðinni gagn með nýrri og betri stjórnarskrá.


0 ummæli:







Skrifa ummæli