laugardagur, október 30, 2010

30. október 2010 - Um tengsl frambjóðenda við hagsmunasamtök

Undanfarna daga hafa einhverjar gróusögur verið í gangi á Facebook þar sem fólk er hvatt til að sniðganga þá aðila sem kosta einhverju til kosningabaráttu sinnar til stjórnlagaþings, þá gjarnan til að útiloka þá aðila sem tengsl hafa við ákveðin hagsmunasamtök. Síðan lendir fólk í vandræðum ef skilgreina á þá aðila sem kosta einhverju til baráttunnar, hvort 3000 krónu kostnaður við auglýsingar á Facebook sé sambærilegur við hámarksupphæð þá sem leyfilegt er að eyða til baráttunnar. Það má um leið velta fyrir sér hvort fólk sem er tiltölulega óþekkt í samfélaginu þurfi ekki að kosta einhverju til að kynna sig og stefnumál sín? Ég ætla ekki að leggja dóm á slíkt og fólk verður að gera upp við samvisku sína hvort það kosti einhverju til að kynna sig eða láti slíkt ógert.

Ég viðurkenni alveg að ég hefi tengsl við fleiri hagsmunahópa. Ég er meðlimur í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ættfræðifélaginu, Samfylkingunni, Samtökum hernaðarandstæðinga, Trans-Ísland, Transgender Europe, Samtökunum 78 og Íslandsdeild Amnesty International og virk í mörgum þessara félaga. Um leið hefi ég ekki farið fram á stuðning frá neinu þessara félaga og þau hafa sömuleiðis ekki boðið mér neinn stuðning. Helsti stuðningurinn sem ég hefi fengið er frá Bleika hnefanum, aðgerðarhóp róttækra „kynvillinga“ og frá Q, félagi hinsegin stúdenta. Eins og gefur að skilja vaða þessir hópar ekki í peningum, enda aldrei ætlunin að þeir veiti mér neitt fjármagn til baráttunnar, en um leið er stuðningur þeirra mikils virði í baráttunni fyrir þeim málum sem ég stend fyrir. Því mun ég ekki kosta miklu, ef nokkru, til kosningabaráttunnar.

Framboð mitt til stjórnlagaþings er persónulegt og sjálfstætt, en um leið hvatning til að standa vörð um málefni friðar og mannréttinda fyrir hönd þeirra hópa sem styðja framboð mitt um leið og ég tel að fjölbreytt lífsreynsla mín geti komið að gagni á Stjórnlagaþingi.

Loks langar mig til að minna á auðkennistala mín í kosningum til stjórnlagaþings er 9068. Þessa tölu þarf að skrá á kjörseðilinn ef fólk ætlar að merkja við mig á kjördag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli