miðvikudagur, október 06, 2010

6. október 2010 - TGEU

Transgender Europe er merkilegur félagsskapur. Í þessum félagsskap mætast persónur sem áður voru hataðar og fyrirlitnar um allan heim, barðar og myrtar og töldust vera verstu úrhrök sem fyrirfinnast á jarðríki. Eftir fjöldamörg morð og hundruð þúsunda misþyrminga komum við 128 transpersónur og stuðningsfólk saman í ráðhúsinu í Vínarborg árið 2005 og stofnuðum með okkur samtök, Transgender Europe, skammstafað TGEU og ég lenti í fyrstu stjórninni.

Fyrstu tvö árin voru erfið. Fyrsta stjórnarfundinn héldum við í Genf í Sviss og einungis níu af fyrstu stjórninni mættum til fundarins, ég sjálf, Stephen Whittle frá Englandi, Jo Bernardo frá Portúgal, Eva Fels og Jo Schedlbauer frá Austurríki, Julia Ehrt og Jane Thomas frá Þýskalandi, Justus Eisfeld frá Þýskalandi/Hollandi og Rosanna Viano frá Ítalíu. Allur tíminn fór í umræður um skipulag og stjórn TGEU og síðan var haldið á transgenderráðstefnu sem haldin var á vegum ILGA (International Lesbian and Gay Association) þar sem ég hitti fjölda baráttufélaga úr transgenderfjölskyldunni og félaga, þar á meðal Mariele Castro Espin, dóttur Raul Castro forseta Kúbu.

Jafnframt fyrstu tvístígandi skrefunum var baráttunni haldið áfram. Einhver í stjórninni gerðu heimildarkvikmynd um morðið á Gisbertu, brasilískri stúlku úr fjölskyldunni sem var misþyrmt og síðan myrt af unglingagengi í Portúgal. Á fundi í Manchester var Justus Eisfeld kosinn formaður og stóð sig með prýði. Þá voru komnar nýjar manneskjur í hópinn, Philippa James frá Írlandi og fleiri, en Jo Bernardo komin á nýjar vígstöðvar í lífi sínu. Áfram héldum við að hittast og ræða framtíðna, í Torino, Amsterdam og Berlin. Það fór að sjá á pyngjunni og ég sá fram á gjaldþrot ef ég héldi áfram sama hætti þótt árið 2007 væri ekki liðið.

Ég sótti um styrki í allar áttir og fékk næstum jafnmargar neitanir. Einasta ljósið í myrkrinu var Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur þaðan sem ég fékk hundrað þúsund króna styrk vegna fundarhalda á vegum TGEU. (Landsbankinn-Björgólfur Guðmundsson) Þrátt fyrir þennan styrk varð ég að draga saman seglin og tilkynnti fyrir annað þing TGEU í Berlín 2008 að ég gæti ekki haldið áfram starfi fyrir samtökin af fjárhagsástæðum.

Við annað þing TGEU í Berlín í maí 2008 tók ég að mér að gerast skoðunarmaður reikninga félagsins og sit enn með þá ábyrgð. Skömmu fyrir þingið bárust okkur þær kveðjur frá Evrópusambandinu að við værum samþykkt NGO alþjóðasamtök (NGO = No Goverment Organisation) og þar með fóru peningar að streyma inn og ég átti fullt með að samþykkja reikninga félagsins.

Þriðja þing TGEU var haldið í Malmö í Svíþjóð haustið 2010. Þingið sóttu um 240 manns og ég þurfti að svara fyrir einstök atriði í reikningum samtakanna, einhverra atriða sem aðeins voru pro forma er ég samþykkti að gerast endurskoðandi tveimur árum áður. Ég fékk mótframboð og allt í einu fann ég að baráttan fyrir réttindum transgender fólks var að vinnast.

Einungis Julia Ehrt er enn í stjórn TGEU nú sem formaður samtakanna, öll hin eru hætt eða búin að draga sig í hlé frá stjórninni, þar á meðal Stephen og ég. Baráttan er unnin en samtímis er hún rétt að hefjast. Á meðan transgender manneskja er myrt að meðaltali annan hvern dag vegna þess að hún er transgender erum við á byrjunarreit. En við gefumst ekki upp og munum sigra að lokum.


0 ummæli:Skrifa ummæli