mánudagur, október 25, 2010

25. október 2010 - Um Skotturnar

Á sunnudag var haldin ráðstefna í Háskólabíói um ofbeldi gagnvart konum og að því er mér skilst stóðu Skotturnar, samtök rúmlega tuttugu kvennasamtaka fyrir ráðstefnunni. Því miður komst ég ekki á ráðstefnuna vegna vinnu minnar, en vinafólk mitt sat ráðstefnuna alla, þó hvorki vegna Vigdísar Finnbogadóttur forseta né hins indverska fulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem var kannski helsta skrautfjöður ráðstefnunnar.

Á fundinn hafði verið boðið Janice Raymond, en þótt hún hafi unnið mikið og vonandi gott starf gegn mansali og vændi, er hún frægust fyrir baráttu sína gegn transkonum. Í bókinni „The Transsexual Empire, the making of the she-male“ frá því 1979 dregur hún upp kolsvarta mynd af konum sem fæddust sem karlar og lýsir því hvernig þær eigna sér kvenlíkamann í neikvæðum tilgangi, eða eins og sagði í Morgunblaðinu á laugardag, „að þær séu útsendarar karlaveldisins sem ráðist inn í helgustu vé kvenna og eigni þannig körlum það sem konum er mikilvægast, að vera kona.“

Á ráðstefnunni kom Janice Raymond ekkert inn á sín hjartans mál og forðaðist að nefna baráttu sína gegn transkonum, enda væri eðlilegast að loka hana inni fyrir afstöðu sína, en samkvæmt 233 grein hegningarlaganna eru viðurlögin við skoðunum hennar allt að tveggja ára fangelsi. Sjálf get ég ekki sætt mig við að hún sem hatursmanneskja gegn manneskjum skuli fá að ganga laus á Íslandi á sama tíma og öfgafullur hvalverndunarsinni er sendur úr landi með fyrstu vél er hann kemur til landsins. Það er greinilegt að hvalir eru í meiri metum á Íslandi en manneskjur.

Í lok maí 2006 kom vinkona Janice Raymond að nafni Germaine Greer til Íslands og flutti erindi á ráðstefnu á vegum Tengslanets í þágu kvenna sem haldið var að Bifröst 1. og 2. júní 2006. Þar hélt hún miskunnarlaust fram skoðunum sínum og Janice Raymond gegn transkonum. Hún var hvorki handtekin né lokuð inni eftir hatursræðu sína, heldur var klappað fyrir henni þótt nær hefði verið að senda hana beint í beint í fangelsi eftir hatursáróður sinn.

Gott dæmi um hatursáróður Germaine Greer sjást á eftirfarandi síðu:

http://ai.eecs.umich.edu/people/conway/TS/Rogue%20Theories/Greer/Exorcism%20of%20the%20mother.html

Ég vona að Skottunum hafi yfirsést ferill þeirra vinkvennanna Janice og Germaine og að þær muni gæta þess í framtíðinni að kalla ekki aftur slíkt illþýði til Íslands sem þær Janice Raymond og Germaine Greer eru.


0 ummæli:Skrifa ummæli